08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (2319)

128. mál, sauðfjársjúkdómar

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það hefur að vísu engin framsaga átt sér stað um þetta mál, sem ekki er kannske þörf, því að þetta mál er að miklu leyti hið sama, sem í 1. þeim felst, sem gilt hafa fram að þessu og gilda enn. En hvað um það, málið er nú komið fram í d., og þó að annað frv., öllu varhugaverðara, sé fram komið, þá mun ég ekki að svo vöxnu fara út í það. Ég held, að yfirleitt sé ekki mikil þörf á því, að menn fari að elta ólar um þessi mál, nema þar sem um nýmæli er að ræða. Ég og fleiri hv. þm. eigum á þskj 311 brtt. við þetta frv., þ. e. 26. gr., en hún ræðir um það, hvernig allur þessi kostnaður eigi að deilast niður. Í 26. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að allur kostnaður, sem ekki greiðist af viðkomandi héruðum, greiðist að 3/5, hlutum úr ríkissjóði og þeim hluta bjargráðasjóðs, sem er sameign allra landsmanna, 3/10 af hvorum aðila, en 2/10 sé jafnað niður á alla sauðfjáreigendur á ósýktum svæðum. Brtt. fer aftur á móti fram á, að allur kostnaður, sem ekki greiðist af viðkomandi héruðum, greiðist úr ríkissjóði að 7/10 hlutum og af þeim hluta bjargráðasjóðs, sem er sameign allra landsmanna, að 3/10 hlutum. Ég skal geta þess, að þegar málið var síðast til meðferðar, var af flestum talið óhjákvæmilegt að hverfa inn á þessa braut, en það náði þó ekki fram að ganga, vegna þess að við atkvgr. gátu nokkrir þm., sem voru þessari breyt. hlynntir, ekki mætt á þingfundi, og var því till. felld. Við, sem flytjum þessa till., álítum, að það sé ekki lengur þörf á því fyrir ríkissjóð að vera að halda í þennan hluta til héraðanna, því að það er hvort sem er, að allur kostnaður, sem af þessu leiðir, verður að greiðast úr ríkissjóði og þessum hluta bjargráðasjóðs. hví jafnvel þó að það hafi átt að innheimta þetta gjald af sýslufélögunum, þá eru héruðin hvarvetna hætt að greiða það síðan það upplýstist, að sum þeirra skárust úr leik um að greiða þetta gjald, en það var aftur liðið af stjórnarvöldunum. Það var svo til ætlazt, að fyrir hin ósýktu svæði, jafnvel þó að innan sýslunnar væri einhver veiki, yrði ekki greitt, nema fjáreigendur tækju þátt í þeirri greiðslu. En það upplýstist, að tækifærið var notað í öllum þeim sýslum, sem veiki kom upp í, til þess að skorast undan greiðslu. Og ekki nóg með það, heldur er vitað, að innheimtan náði ekki til nema tveggja eða þriggja sýslna, sem reyndu að standa í skilum, og þær sýslur hafa ekki heldur farið varhluta af sauðfjársjúkdómum, þó að það væru ekki hinir svokölluðu löglegu sauðfjársjúkdómar. En þeir munu nú orðnir fjórir talsins sauðfjársjúkdómarnir, sem kallast löglegir, sem sé: Mæðiveiki, garnaveiki, þingeysk mæðiveiki, og útbrotaveiki (kýlaveiki), og fram er komin till. um að taka einnig upp í þessi l. hina svokölluðu riðuveiki, og þannig mætti halda áfram að bæta við. Nú er því af fróðum mönnum mótmælt, að hér sé um mismunandi sjúkdóma að ræða, heldur sé þetta sauðfjársjúkdómur, sem tekur á sig mismunandi myndir eftir kringumstæðum. Það er því hróplegt ranglæti, að tvær til þrjár sýslur séu að rembast við að greiða þetta gjald fyrir þá sök, að þessu ákvæði í frv. yrði ekki breytt. Þess er að vænta, að allir þeir, sem greiða vilja fyrir framgangi þessa máls, telji það sanngirnis- og nauðsynjamál að haga nú þessari greiðslu öðruvísi en greinir í frv. Ég vænti þess því, að hv. þd. samþ. þessa brtt.