14.05.1941
Neðri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (2328)

128. mál, sauðfjársjúkdómar

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Ég var bú inn að kveðja mér hljóðs á dögunum, þegar 94. mál var á dagskrá, en það kemur í sama stað niður, þar sem ég vildi segja nokkur orð í sambandi við þetta mál.

Þegar maður lítur yfir þetta frv. og ber það saman við frv. frá landbn. í fyrra, sem flutt var að tilhlutun Búnaðarfélags Íslands, þá finnst manni skjóta hér nokkuð skökku við. Þó að frv. frá í fyrra hafi verið með talsverðum göllum, var það samt miklu betra heldur en það, sem er á döfinni nú. Má fyrst benda á, að í gamla frv. er gert ráð fyrir, að stofnuð sé heilbrigðisnefnd, þar sem eingöngu fagmenn væru að verki. Ég sé ekki, að með þessari 5 manna sauðfjársjúkdómanefnd sé nokkur trygging sett fyrir því, að fagmenn hafi mál þessi með höndum. Virðist allt benda frekar til þess, að sigla muni í sama kjölfarinu eftir sem áður hvað snertir útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma í landinu. Bæði frv. eru svipuð, hið fyrra mjög gallað, en hið síðara virðist vera lítið annað en gallar. Mér þykir einkennilegt að rökræða næma sjúkdóma án þess að hafa nokkrar sannanir fyrir því, að þeir séu smitandi. Hér á að lögfesta næma sauðfjársjúkdóma eingöngu af því, að þeir eru taldir smitandi að áliti ósérfróðra manna, en öðrum sjúkdómum sleppt, sem ástæða væri til að taka með. Þetta vildi ég benda hv. landbn. á, sem um málið fjallar.

Því var skotið fram um daginn, að kýlaveikin væri ein af þessum næmu sjúkdómum. Fáir af hv. þdm. munu kannast við hana, og ég segi fyrir mína hönd, enda á ég sem dýralæknir hægara með að dæma um þessi mál heldur en aðrir hv. þm., að ég hef aðeins rekizt á nokkur tilfelli af henni, þó aldrei sem farsótt. Er því harla einkennilegt að þyrla upp ryki á Alþ. um það.

Þingeyska mæðiveikin er ekkert annað en angi af þeirri mæðiveiki, sem nú er komin um næstum allt land. Ég spái því, að á næstu árum muni koma upp nýir angar af þessari mæðiveiki, þó að hægt yrði að koma í veg fyrir þennan.

Úr því að ég fór að tala um 5. gr. frv., get ég ekki gengið fram hjá garnaveikinni. Garnaveikin er sjúkdómur, sem ekki aðeins er þekktur hér á landi, heldur hefur hún verið talin næm í mörgum löndum um langan aldur. Hefur sá sjúkdómur verið aðgreindur frá öðrum sem „specific“ nautgripasjúkdómur. Ég nota hér útlenda orðið, af því að ekki er til íslenzk þýðing á því, en það þýðir, að hann sé eingöngu bundinn við nautpening. Þó hefur þessi sjúkdómur í einstaka tilfelli komið fram í sauðfé og geitum. Er harla undarlegt, að hér er garnaveikin eingöngu túlkuð sem „specific“ sauðfjársjúkdómur, en ekki gert ráð fyrir, að nautpeningur geti fengið hana. Hæstv. landbrh. sagði, þegar ég benti honum á þetta : „Mér er sagt, að það muni sennilega vera sérstakur bakteríustofn á Íslandi, sem orsaki veikina í fénu.“ Nú er miklu fé kostað til þess að rannsaka sauðféð, en ekkert hugsað um nautpeninginn, þó að hann gangi á sama haglendi og engar sannanir séu fyrir því, að hér sé ekki um næma garnaveiki að ræða fyrir kýrnar. Enn fremur vil ég benda hæstv. landbrh. á þetta, þar sem mér finnst þessi leið mjög hæpin, enda brýtur hún í bága við allar reglur og lög, sem gilda um sóttvarnir. Ætti að vera stranglega bannað að láta skepnu koma inn á landið, þar sem smithættan er.

Nú hafa farið fram fjárskipti í Skagafirði; kindur hafa verið keyptar úr Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu, og auk þess skorið niður á sýkta svæðinu. Ég get bent á eitt dæmi, sem ég þekki vel til og sýnir það ljóslega, hversu mikinn árangur slíkar framkvæmdir bera. Á tvíbýlisjörð einni fyrir norðan smitaðist allur fjárstofninn af mæðiveiki. Á öðru búinu var skorinn niður allur fjárstofninn, en á hinu ekki ein einasta kind og þeim sleppt á beitilandið, enda taldi búfræðingur einn, að það væri alveg hættulaust. Ég segi fyrir mig, ef þannig á að fara með þessi mál, þá vil ég ekki koma nálægt þeim. Ef á að virða að vettugi þau raunvísindi í dýralækningum, sem hafa fengið viðurkenningu í öllum löndum nema Íslandi, þá vil ég hreinsa mína samvizku. Ég sem embættismaður með minn embættiseið að baki hef sagt eins og mér finnst réttast í þessu máli. Ef ég ætti að dæma hv. þm. eftir afgreiðslu þeirra á þessu máli, þá mundi traust mitt á þeim ekki vera mikið.