14.05.1941
Neðri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

128. mál, sauðfjársjúkdómar

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég átti litla brtt. við þetta frv., og eru tildrög hennar sem hér segir. Þegar l. voru sett upphaflega um varnir gegn mæðiveiki, var svo til tekið, að ríkissjóður skyldi greiða ákveðinn hluta af kostnaðinum, en sá hluti bjargráðasjóðs, sem landsmenn eiga sameiginlega, skyldi bera nokkurn hluta móti ríkissjóði. Þegar þetta var gert, voru miklir erfiðleikar fyrir landið að afla peninga, og töldu menn það nægileg rök til þess að skerða bjargráðasjóðinn. Nú finnst mér öðru máli gegna, og má ekki við það una, að bjargráðasjóðurinn sé skertur í þessu skyni. Brtt. mín leggur það til, að ríkissjóður beri einn þann hluta kostnaðarins, sem greiðast skal af opinberu fé. Ég hef minnzt á þetta við hæstv. fjmrh., og hann er samþykkur því, að breyting þessi sé eðlileg eins og nú árar, og vona ég, að hv. þingdeild geti einnig orðið sammála um það, að eins og nú sé háttað, þá sé eðlilegast að breyta þessu á þann veg.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta, en vil aðeins minnast á það, fyrst ég er farinn að tala um kostnaðinn af þessum vörnum, að ég sé ekki ástæðu til þess að vera með þeirri till., sem hér er borin fram, að bændur, sem lausir eru við þessa sjúkdóma, leggi ekkert fé af mörkum, því að ég tel eðlilegast, að þeir geri það. Þess vegna hef ég stílað mína brtt. við frv. sjálft, en ekki við þá brtt., því að ég mun greiða atkv. á móti henni.