06.06.1941
Sameinað þing: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

1. mál, fjárlög

*Finnur Jónsson:

Ég þarf ekki að hafa stóra samvizku af því að hafa lagt fram brtt., sem auka á. þann tekjuhalla, sem hv. fjvn. hefur skilað þessu fjárlagafrv. með, og ekki heldur fyrir það, að mitt kjördæmi sé svo þungt á fóðrum, að það auki verulega á þennan tekjuhalla.

Ég hef lagt þarna fram eina litla skrifl. brtt. við brtt. frá hæstv. atvmrh. á þskj. 638,XXIII. sem er aðeins orðabreyt., um það, að á eftir „50 þús. kr. komi: að fengnum tillögum fiskimálanefndar.

Það var upp tekið fyrir nokkrum árum að veita nokkurn styrk til mótorbátabygginga, og var þá farið eftir till. þessarar n. í því. Ég tel það rétt ráðið að hafa einhverja stofnun til þess að styðja sig við, ef þessi upphæð verður veitt til þessa nauðsynlega hlutar. Þess vegna hef ég gert þessa brtt.

Aðra brtt. á ég við fjárl., sem er á þskj. 638,XIX og hv. þm. Ak. (SEH) er meðflm. að, um það, að ríkisstj. heimilist að greiða stofnkostnað og styrk til húsmæðraskóla samkv. lögum um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum. Þessi brtt. er í raun og veru ekki um annað en staðfestingu á þeirri löggjöf, sem hæstv. Alþ. hefur nú afgr. Og mér hefur heyrzt á sumum hv. fjvnm:, að þeir teldu jafnvel, að þessi brtt. væri óþörf. Ég skal geta þess, að þegar ég flutti þessa brtt., bar ég sérstaklega fyrir brjósti húsmæðraskóla kvenfélagsins Ósk á Ísafirði, sem starfað hefur nú rúma tvo tugi ára, en við þröngan kost og miklar fórnir frá kvenfélaginu, sem rekið hefur skólann. Nú geri ég fastlega ráð fyrir, að gerðar verði þær breyt. á tilhögun skólans, sem þarf til þess, að hann komist undir nýsamþ. 1. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum nú þegar á næsta skólaári, 1941–1942. Og af því að mér hefur heyrzt á sumum hv. fjvnm., að þeir teldu þessa brtt. ástæðulausa, vildi ég spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann, að öllum skilyrðum uppfylltum, mundi greiða rekstrarstyrk til skóla þessa, svo og húsaleigustyrk, eða stofnkostnað fyrir skólaárið 1941–1942, hvaða afgreiðslu sem brtt. þessi annars fær, þar sem skoða má hana sem staðfestingu á l. þeim, sem þingið hefur samþ.

Mitt atkv. um brtt. hv. fjvn., sem þessi brtt. er við, um heimild til að greiða stofnkostnað fyrir héraðsskólana í samræmi við ákvæði héraðsskólalaganna, fer eftir því, hverja afgreiðslu mín brtt. fær. Því að ég skil ekki í öðru en að í þessu sem öðrum málum eigi að vera nokkurt samræmi í fjárveitingum milli sveita og kaupstaða.