14.05.1941
Neðri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

128. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Pétur Ottesen) :

Ég hafði nú ekki lokið ræðu minni síðast sem frsm. landbn. að þessu máli, þegar umr. var frestað. Ég var kominn að þeim breytingum, sem felast í 5. kafla frv., um „almenn ákvæði“. — Það hefur nefnilega komið í ljós á mæðiveikisvæðum, að fjárstofnarnir hafa eftir kynferði reynzt nokkuð misjafnir til að standa gegn veikinni. Sumir þeirra hafa hrunið næstum alveg niður, en aðrir veitt meira viðnám. Þess vegna hafa menn af eðlilegum ástæðum leitazt við að halda í og reyna að ala upp undan þeim fjárstofnum, sem virðast hafa meiri mótstöðukraft gegn þessari veiki. Hér hafa því verið tekin upp í 36. gr. frv. ákvæði, sem veita mæðiveikinefnd nokkurn stuðning til þess að geta hjálpað bændum við að ná í lömb til ásetnings, einmitt af þessum stofnum. Í 36. og sömuleiðis 37. gr. frv. eru gerðar ráðstafanir til þess, að ef einhverjir erfiðleikar eru á að afla slíkra ásetningslamba, þá fái mæðiveikinefnd nokkuð aukið vald til þess að geta komið þessu í framkvæmd. Aðalatriðin í þessum nýja kafla frv. ganga sem sagt í þessa átt.

Mér þykir svo ekki ástæða til þess að rekja þetta nánar, en vil leggja áherzlu á það, að þetta er mjög mikilsvert, og að því leyti, sem reynsla er fengin fyrir þessu, þá virðist mér, að með þessum hætti sé fundin nokkur leið til þess að hamla upp á móti þessum mikla vágesti, Þó að engan veginn sé fengin reynsla fyrir því, að þetta muni reynast einhlítt í þessu efni. — Ég held, að það sé þá ekki fleira til viðbótar því, sem ég hef áður sagt í ræðu minni um þetta frv., sem ástæða er til að gera að svo vöxnu máli að frekara umtalsefni hér.

Ég get mjög stuttlega minnzt á brtt. á þskj. 311, sem hæstv. viðskmrh. minntist nú á í ræðu sinni áðan og hann taldi sig vera andvígan. Mér virðist, að það liggi í augum uppi, að það sé ekki nein sanngirni hjá flm. þessarar till., sem allir eru fulltrúar fyrir þau svæði, sem tekizt hefur að verja fyrir mæðiveikinni, að vera að skorast undan því að taka svo lítilfjörlegan þátt í þeim kostnaði, sem hér er um að ræða. Mér þykir satt að segja mjög einkennilegt, að þeir skuli fitja upp á þessu, þar sem þetta á eingöngu að ganga upp í þann kostnað, sem lagt er í vegna þeirra eigin hagsmuna, eða til þess að vega gegn þessum vágesti, sem er kominn langt á götur með að leggja fjárbúskap manna í rústir á stórum svæðum í landinu og grafa undan fjárhagsafkomu þeirra bænda, sem hafa orðið fyrir barðinu á þeim.

Ég vil þess vegna vænta þess, að þessi ákvæði verði látin standa óbreytt eins og þau hafa verið, og það sé ekki verið að breyta til í þessu efni, því að þessi till. virðist vera að ófyrirsynju fram komin. Ég get ekki einu sinni hugsað mér, að hún sé í samræmi við hugsunarhátt þeirra bænda, sem þarna búa og ég veit, að hljóta að skilja það, hve mikilsvert það er fyrir þá og þeirra afkomu, ef takast mætti að verja þá fyrir því, að þessi faraldur breiddist út til þeirra.

Viðvíkjandi þeirri brtt., sem hæstv. viðskmrh. hefur borið hér fram, þá get ég sagt það f. h. mína og þeirra nm., sem ég hef náð tali af, að við getum fallizt á hana. Það er alveg rétt, sem fram kom hjá hæstv. ráðh., að á slíkum óvissutímum eins og nú standa yfir, þá er mjög varhugavert að vera að binda þennan bjargráðasjóð við skilyrði, því að til hans var í upphafi stofnað í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hallæri, sem gæti leitt af ýmsum náttúrufyrirbrigðum hér á landi og orðið til þess að stefna afkomu búnaðarins í tvísýnu.

Hitt er ljóst mál, að þessar till. rekast hver á aðra, og þess vegna er enginn grundvöllur undir því að samþ. þær báðar, og þar með fellur mín stoð undir það, að till. á þskj. 311 verði vikið til hliðar.

Ég skal ekki fara langt út í að minnast á ræðu hv. þm. Ak., sem talaði hér út frá sjónarmiði þeirra faglærðu manna, sem eins og kunnugt er og ég minntist hér á á dögunum, að aðstaða þeirra öll og skoðanir hafa stangazt svo greinilega og óþyrmilega á við reynslu þá, sem fengizt hefur í málinu almennt, þar sem veikin hefur gengið, og auk þess við reynslu og þekkingu ýmissa annarra fræðimanna á þessu sviði, að bæði bændur út um sveitir landsins og þessir fræðimenn og enn fremur Alþingi hafa fundið sig knúð til þess að ganga fram hjá þeim skoðunum, sem þessir menn hafa haldið fram og hv. þm. Ak. virðist nú tala hér fyrir.

Mér þykir svo ekki ástæða til þess að fara nánar út í þetta, en vil bæta því við, að af þeirri reynslu, sem fengizt hefur í þessu efni, þá mundi nú vera svo komið, ef farið hefði verið að ráði hv. þm. Ak. og dýralæknanna, sem hann telur sér vera sammála um þetta efni, að mæðiveikin mundi nú vera komin um allt land og öll sauðfjárframleiðsla landsmanna undir þessa sök seld. — Það er harla einkennilegt, að þessir menn skuli binda sig svo fast við þessar andvanafæddu kenningar, sem þeir halda fram, að þeir skuli ekki sjá og viðurkenna, hvað hér er að gerast í þessu efni.

Hv. þm. var að minnast á ýmsa aðra sjúkdóma, sem þyrfti að gera ráðstafanir gegn. En það er nú svo, að mæðiveikin og garnaveikin eru þeir sjúkdómar, sem skera sig svo úr í þessu efni, að þar er ólíku saman að jafna. Þess vegna er ekkert undarlegt, þó að gerðar séu alveg sérstakar ráðstafanir gagnvart þeim háska, sem af þessum sjúkdómum stafa, þó að ekki sé farið út í það að gera sams konar ráðstafanir gagnvart því, sem miklu minna tjóni veldur.

Hv. þm. V.-Sk. minntist á það, að það væru ýmsir aðrir sjúkdómar, sem væru á ýmsum svæðum, og nefndi hann t. d. bráðapest og skitu og þess háttar sjúkdóma. Hér er ekki líku saman að jafna, auk þess sem þessir sjúkdómar ganga jafnt á mæðiveikisvæðunum og þeim svæðum, sem enn eru ósnert af mæðiveikinni. Auk þess má benda á það, að sá vísindamaður, sem mest hefur lagt sig fram um að finna ráð við mæðiveikinni, próf. Níels Dungal, hefur fundið upp ráð við þessum tegundum sjúkdóma. og má með þeim halda þessum sjúkdómum í skefjum, svo að enginn verulegur háski stafar af þeim fyrir afkomu landbúnaðarins.

Úr því að minnzt er hér á útbrotaveiki, þá skal ég taka það fram, að ég fór fram á það við hv. 3. landsk. við fyrri hl. þessarar umr., að hann tæki aftur till. sína, þangað til landbn. gæfist færi á að athuga þetta atriði nánar.

Hv. þm. V.-Sk. talaði sem sá, er óskeikull væri og gæti því í nafni réttar og laga fellt dóma um þá, sem undir þá sök eru seldir, að þeim geti skjátlazt. Við, sem þessu var beint til, verðum sjálfsagt að viðurkenna okkar veikleika, og hann getur þá vitanlega gert sig að því meiri manni, sem munurinn er á þeim óskeikula og hinum, sem getur yfirsézt.