16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

128. mál, sauðfjársjúkdómar

Steingrímur Steinþórsson:

Ég vil aðeins segja örfá orð út af því, sem sessunautur minn, hv. 3. landsk., minntist á. Þetta frv. tekur ekki til annarra sjúkdóma en þeirra, sem talið er, að flutzt hafi til landsins með karakúlfénu. Og það er af þeirri ástæðu, eins og frsm. n. hefur skýrt frá, að við leggjum til, að 4. tölul. 5. gr. sé tekinn út, eða riðuveikin. Og eins og hann tók fram, lítum við svo á, að ekki sé um innfluttan sjúkdóm að ræða. Auk þess er það rétt, að þar er ekki um neitt fár að ræða, sem nein hætta virðist á, að geti gereytt bústofni eða valdið svo miklu tjóni að til stórvandræða leiði. En um hinar pestirnar er a. m. k. talið svo, jafnvel þó menn greini nokkuð á um það.

Sá fræðimaður, sem við höfum hér í d., hefur viljað bera á það brigður, að þeir sjúkdómar, sem l. taka til, séu innfluttir með fé því, sem flutt var inn fyrir nokkru. En þó er það svo, að mjög margir fræðimenn aðrir halda hinu mótsetta fram. Og það þýðir ekki að loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að það virðist alltaf hægt að rekja pestina í för karakúlfjárins, sem sett var hér á allmarga staði í landinu.

Ég skal ekki fara að rökræða þær tvær skoðanir, sem uppi eru, hvort eigi að fá inn á mæðiveikisvæðin fjárstofn, sem hefur þolað veikina, eða hvort eigi að skera algerlega niður. En það, sem þetta frv. stefnir að fyrst og fremst, er að hindra útbreiðslu veikinnar, og í öðru lagi að gera tilraunir til að uppræta þessa sjúkdóma, þar sem svo er ástatt, að þeir eru á takmörkuðum svæðum og unnt er að gera slíkar tilraunir án Þess að allt of mikill kostnaður eða tjón hljótist af fyrir þá, sem féð eiga.

Nú þekki ég af eigin reynd þann sjúkdóm, sem hv. 3. landsk. talar um, með því að hann hefur verið í fé, sem ég hef stundað. Ég veit mjög vel, hvernig hann hagar sér og að hann er hættulegur. Ég veit líka, að hann hefur valdið meira tjóni í Svarfaðardal en nokkurri annarri sveit landsins. En þetta er sjúkdómur, sem til er um allt land, og því finnst mér ekki koma til mála að gera ráðstafanir til að hefta útbreiðslu hans með sömu lagaákvæðum og þær þrjár pestir, sem þetta frv. ræðir um. Ég veit af eigin reynd, að riðuveikin leggst mjög misjafnlega á fjárstofna. Sumir hrynja niður, en aðra sakar varla. Nú vil ég taka undir það með hv. 3. landsk., að eitthvað verði reynt til þess að rannsaka eðli þessarar veiki og finna einhver ráð til þess, að úr megi bæta. Ég býst við, að menn í Svarfaðardal þurfi að útvega sér nýjan fjárstofn af einhverju svæði, þar sem það hefur sýnt sig, að féð þolir þessa pest betur. Því að mér þykir ólíklegt, að náttúruskilyrðin í Svarfaðardal geri það að verkum, að veiki þessi leggst svo þungt á; hitt sé líklegra, að fjárstofninn sé móttækilegur. Ég veit, að fé úr Svarfaðardal var flutt vestur í Skagafjörð og hrundi þar niður. En þegar búið var að skera þann stofn niður, varð lítið vart við riðuveiki, eða aðeins í einni og einni kind, eins og algengast er með þessa veiki.

Ég vil geta þess, að Búnaðarfél. hefur óskað eftir því við þá fræðimenn, sem hafa verið að fást við þessa fjársjúkdóma, að þeir tækju riðuveikina til meðferðar, reyndu að finna einhver ráð við henni og aðstoða bændur um að minnka tjónið af henni sem mest. Þetta hefur lítinn árangur borið enn. En ég fyrir mitt leyti vil ekki skorast undan því að leggja mitt lið til þess; að eitthvað yrði frekar gert til þess að bæta úr þessu. En það virðist mér ekki rétt, sem hv. þm. fer fram á, að taka riðuveikina inn í þetta frv., sem hér er um að ræða. Því að hún á þar alls ekki heima samkv. eðli málsins og samkv. því, hvernig að því er unnið nú að reyna að hefta útbreiðslu sjúkdómanna, sem frv. fjallar um, og jafnvel gera tilraun til að útrýma þeim alveg.

Það væri ástæða til að taka ýmislegt fleira fram um þetta; en bæði eru fáir í d. og komið að því, að fundi verði slitið. Þetta er vandræðamál, og má sjálfsagt segja, að margt af því, sem verið er að gera í því, sé háfgert fálm. En allt miðar þetta að því að reyna að ná tökum á þessum stórhættulegu sjúkdómum. Og ég er ekki í neinum minnsta vafa, að mikið hefur áunnizt. Það eru góðar fregnir í skýrslu Ágústs í Hofi um garnaveikina á Austurlandi, ef hún er nú ekki nema á 4–5 bæjum á Héraði. Þetta sýnir, að það, sem gert var til að varna útbreiðslu garnaveikinnar þar, að skera niður sjúkt og grunað fé, hefur borið árangur. Er það betri árangur en búast hefði mátt við, áður en byrjað var á því verki, og sönnun þess, að farið hefur verið inn á rétta leið.