16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (2337)

128. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Pétur Ottesen) :

Það er óþarfi að eyða mörgum orðum um þetta mál við hv. 3. landsk. þm. Þegar hann áleit, að aðaltill. hans næði ekki samþykki þingsins, notaði hann önnur úrræði, sem sé að hvetja til rannsóknar á þessari veiki eða frekari aðgerða. Og í þessu fólst fullkomin viðurkenning af hans hálfu á því, sem rétt er, að þessi veiki eigi ekki samleið með þeim þrem sjúkdómum, sem ákvæði þessa frv. taka sérstaklega til. Hv. 2. þm. Skagf. hefur svo greinilega skýrt þetta mál, að ég hef ekki miklu við það að bæta. Það getur vel verið, að þessi veiki geri skaða á þessum sérstaka stað, en auk þess er hún útbreidd um allt land, en hefur ekki valdið því tjóni, sem í neinu er sambærilegt við það tjón, er leiðir af pestum þeim, er um ræðir í þessu frv. í sambandi við útbreiðslu garnaveikinnar talaði þm. um, að sú veiki væri ekki nema á 5–6 bæjum á Austurlandi. Þetta skýtur mjög skökku við og er því miður gripið úr lausu lofti. Veikin er mjög útbreidd í Múlasýslum og Norður-Þingeyjarsýslu auk þess, sem hennar hefur orðið vart austur í Hreppum, og nýlega er búið að gera tilraun til niðurskurðar vegna garnaveikinnar í Skagafirði, á allstóru svæði austan Héraðsvatna, þannig að það dregur engan veginn úr því, að það sé fullkomlega réttmætt að gera þær ráðstafanir gagnvart garnaveikinni, sem lagt er til í þessu frv. Hv. þm. vék sér persónulega til mín út af því, að fyrir nokkru hefði þáltill. verði vísað til fjvn., en hún hefði ekki komið þaðan aftur. Ég veit ekki betur en að formanni rannsóknarstofu háskólans hafi verið falið að sjá um, að rannsókn færi fram á riðuveikinni, og hefur verið og er enn unnið að þessum rannsóknum, þó að enn þá hafi ekki fundizt nein ráð við henni. Ég skal að sjálfsögðu verða við tilmælum hv. þm. um það að athuga, hvað líður þessum rannsóknum að því leyti sem þær koma fram.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um ræðu hv. þm. Ég tel ræðu hans viðurkenningu á því, sem landbn. heldur fram, að veikin eigi ekki heima í þessu frv., eins og til þess er stofnað.