16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

128. mál, sauðfjársjúkdómar

Steingrímur Steinþórsson:

Ég skal aðeins geta þess hér, að hv. 3. landsk. skýrði mjög fljótfærnislega frá., er hann sagði, að garnaveikin væri á þrem bæjum á Austfjörðum. Það er vitað, að Vopnafjörður og Breiðdalur eru undirlögð héruð af garnaveiki, svo að ég er hræddur um, að hv. þm. hafi farið nokkuð fljótt yfir. Ummæli þau, er ég hafði eftir Ágúst á Hofi, áttu eingöngu við Héraðið. Hv. þm. rangfærði orð mín viðvíkjandi riðuveikinni, og munu hv. dm. hafa heyrt, hvað ég sagði; og þarf ég því ekki að leiðrétta það. Ég sýndi fram á, að riðuveikin gæti ekki átt heima í þessu frv., vegna þess að hún fyndist í öllum byggðarlögum landsins án þess að hún gerði tjón. Við getum því gengið út frá því, að það sé alveg óþarft að grípa til þeirra ráðstafana gagnvart riðuveikinni, sem gert er gagnvart öðrum sauðfjársjúkdómum í þessu frv.