23.05.1941
Efri deild: 66. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

128. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti! Þetta frv. var lagt fram í Nd. af landbn., en var samið af mæðiveikinefnd.

Í þessum lagabálki er steypt saman öllum þeim ákvæðum, sem áður hafa gilt um þetta efni, en þau voru, með áorðnum breytingum, prentuð á þrem stöðum í stjórnartíðindum.

Frv. þetta er í 2 atriðum frábrugðið gildandi l. Í 1. lagi er sleppt hér upptalningum á varnarlínum. Hins vegar er heimilað að leggja slíkar línur í samráði við ráðherra. Orsökin til þess, að upptalningunni er sleppt, er sú, að fyrir þessu þingi liggur annað frv., þar sem línurnar eru taldar. Hins vegar má geta þess, að það frv. er ekki í samræmi við þetta, því þar er ætlazt til, að kostnaður við girðingar greiðist af öðrum aðilum en gert er ráð fyrir samkv. þessu frv.

Í 2. lagi er hér gert ráð fyrir, að n. geti gert ráðstafanir til, að alin verði upp lömb af þeim stofni, sem bezt þoli pestirnar, og þeim svo dreift. Þetta hefur ekki verið gert áður, vegna þess að menn vissu ekki, að til voru slíkir stofnar. En nú er a. m, k. vitað um einn slíkan stofn, sem þolir mæðiveikina miklu betur en annað fé, og yfirleitt að fé er misþolið gegn veikinni.

N. hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með nokkrum breytingum.

1. brtt. er við 2. gr. Gr. er orðuð upp, eins og sést á brtt., og við hana bætt.

Efnið er nú, að 5 manna framkvæmdanefnd hafi starfið með höndum, skipuð af ráðh. eftir tilnefningu landbn. beggja d. Alþingis. Áður voru engin ákvæði um, hversu að skyldi fara, ef nm. forfallaðist. Nú er bætt úr þessu. Enn fremur er lagt til, að ráðh. skipi form. n., en hún velji sér sjálf framkvæmdastjóra til að annast allar framkvæmdir.

2. brtt. er við 4. gr. frv., og upp úr henni legg ég mikið.

Þessi framkvæmdanefnd, sem upphaflega var valin, var skipuð 5 mönnum. Þegar landbn. benti á þessa menn, var lögð áherzla á að velja Þá menn, sem kunnugastir voru á þeim svæðum, er veikin náði til þá. Þessir menn áttu að vera nokkurs konar útverðir, til að gæta þess, að varnarlínur yrðu sem traustastar.

Nú hefur sú veiki, sem þá var verið að verjast, breiðzt út til nýrra héraða, og upp hafa komið nýjar pestir. N. brestur því kunnugleiku um staðhætti og aðstæður til varna mjög víða, eins og nú er komið, sérstaklega á Austurlandi. En það er erfitt fyrir hana að þurfa að fara eingöngu eftir sögusögn annarra.

Í samræmi við þetta ástand er brtt. við 4. gr. Þar er landbrh. gefin heimild til að kveðja til ráða til viðbótar mann eða menn, þegar n. hefur til meðferðar efni, sem hana brestur kunnugleika til að leysa. Er t. d. þá gengið út frá, að ráðh. kalli til 1 eða 2 menn úr Múlasýslum, ef svo ber undir. Fylgi mitt við þessa brtt. er alveg háð því, hvort hæstv. landbrh. lýsir því yfir, að hann muni vilja nota þessa heimild. Ef hann sér sér það ekki fært, þá mundi ég vilja leggja til, að fjölgað yrði í n. úr 5 upp í 6 eða 7, og 1 eða 2 af þeim séu sérstaklega kunnugir á Austurlandi.

3. brtt. er við 34. gr. frv. Er sú till. svo auðskilin, að hún skýrir sig sjálf. En aðalefnið er, að fé, sem drepið er að vetrarlagi, skuli bæta þannig, að tillit sé tekið til fóðurs yfir veturinn í bótunum.

Með þessum breytingum vona ég, að frv. verði samþ. og því fylgi jafnframt yfirlýsing hæstv. ráðh. um, að hann muni nota þá heimild, sem ég gat um.