24.05.1941
Efri deild: 67. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

128. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti! Milli umr. höfum við tveir úr landbn., sem aðallega höfum haft þetta mál til meðferðar, athugað frv. og teljum, að það sé betra, til þess að fyrirbyggja misskilning, að gera á því tvær litlar breyt., sem þó má kannske deila um, hvort í raun og veru eru nokkrar breyt. Í raun og veru er svo fyrir mælt í frv., í 10. gr. þess, 1. málsgr., að nauðsynleg varzla samkv. 8. gr. frv. og 9. gr. 1. málsgr. greiðist úr ríkissjóði. Með ákvæðum frv. er ætlazt til þess: Svo er ætlazt til þess, að ríkissjóður fái 2/5 hluta af þessu endurgreitt með 10 aura gjaldinu á hverja kind, sem leggst á þá menn, sem búa á ósýktu svæðunum. Í 26. gr. frv. er talað um, að „allur kostnaður við girðingar og vörzlur, sem um ræðir í 8.–11. grein, sem ekki greiðist af viðkomandi héruðum, greiðist að 3/5 hlutum úr ríkissjóði, en 2/5 sé jafnað niður á alla sauðfjáreigendur á ósýktum svæðum“. Nú mætti líta svo á, að það væri mótsögn í þessum tveimur gr. Þess vegna hefur n. lagt til að gera smábreyt. á frv., að aftan við 10. gr. bætist: samanber 26. gr. En í 26. gr. er ákveðið, að ríkissjóði skuli endurgreiddir 2/5 hlutar af þeim kostnaði við girðingarnar, sem viðkomandi héruðum ekki ber samkv. því, sem tekið er fram í 8.–11. gr., að greiða. Þetta þykir okkur skýrara. Og til þess að það komi fram, að um endurgreiðslu sé að ræða, þá er í brtt. okkar gert ráð fyrir, að 26. gr. frv. verði breytt, svo að hún verði þannig, að orðuð verði byrjunin á henni svo : „Allur kostnaðar við girðingar og vörzlur, sem um ræðir í 8.–11. gr. og viðkomandi héruðum er ekki gert að standa straum af, greiðist úr ríkissjóði. Ríkissjóður fær síðan 2/5 hluta kostnaðarins endurgreidda, og sé því gjaldi jafnað niður á alla sauðfjáreigendur á ósýktum svæðum. Landbúnaðarráðuneytið“ o. s. frv. Með þessu eru tekin af öll tvímæli um þetta atriði, sem ég gat um, og þá er þetta alveg eins og það hefur verið haft í framkvæmdinni til þessa og eins og ætlazt er til með frv., að það sé í l. En eins og þetta er orðað í frv., gæti það kannske misskilizt.

Það var ekki fyrr en í morgun, sem við fórum í að semja þessar brtt., og þess vegna eru þessar brtt, skrifl.