06.06.1941
Sameinað þing: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

1. mál, fjárlög

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Það eru aðeins örfá orð almenns efnis, sumpart út af því, sem hefur komið fram hjá einstökum hv. þm. við þessa 3. umr.

Það er nú sannast mála, að talsvert óhugðarefni er það, ef fjárl. verða afgr. með verulegum halla, eins og nú er útlit fyrir. Ég verð að segja, að mér finnst það dálítið einkennilegt, að sumum hv. þm. virðist koma þetta á óvart, jafnvel þeim, sem setið hafa í þeirri n., er ráðið hefur meginstefnunni í afgreiðslu fjárl. Eftir því, sem ég veit til, hafa komið till. fram um það bæði við 2. og 3. umr., ekki eingöngu frá einstökum hv. þm., heldur líka frá fjvn., að bæta stórum upphæðum við fjárl., enda þótt þau hafi áður verið með halla. Mætti halda, að þetta hefði verið byggt á því, að tekjurnar væru svo varlega áætlaðar, að óhætt væri að koma með hækkunartill. við þær. Nú virðist mér hljóðið í mönnum vera það, að ekki sé ráðlegt að hækka tekjurnar, m. ö. o. meining þeirra, sem till. gera, er sú, að bæta ofan á þann halla, sem fyrir var, og menn séu með opnum augum að afgreiða fjárl. með tekjuhalla. Ég hef gert ráð fyrir því, að till. fjvn. væru byggðar á því, að hún treysti því, að tekjuáætlunin væri of lág, en ef dæma skyldi eftir ræðum hv. þm., hefur þetta ekki verið svo. Einstaka hv. þm. hefur fleygt því fram við umr., að þetta virtist ekki sem allra heppilegust skipan málanna. Ég vil spyrja þessa hv. þm.: Hvað hafa þeir þá gert á þessu Alþ. annað en koma á 11. stundu til þess að sýna fram á þetta? Hafa þeir yfirleitt verið á móti löggjöfum, sem náð hafa samþykki nú á þinginu, ef þær hafa haft útgjöld í' för með sér? Það þýðir ekki að einblína á útgjöldin í sambandi við fjárlögin, heldur verður þingið frá upphafi að afgreiða ekki meiri útgjaldalög heldur en fært er að bæta á fjárl. Eins og ég hef bent á, hefur talsvert verið samþ. af 1., sem heimila greiðslur úr ríkissjóði, án þess að þeim hafi enn þá verið bætt inn á fjárl. Ég vildi aðeins taka þetta fram, þó að ekki sé hægt að kippa þessu til baka á 11. stundu eða snúa við þeim öldum, sem hnigið hafa allt þingið. Hv. þm. hefðu þess vegna þurft að fara miklu gætilegar í afgreiðslu þeirra mála, sem útgjöld höfðu í för með sér, og fjvn. átti að reyna að lækka, en ekki hækka fjárl. frá því, sem þau voru lögð fyrir. En allir sjá, að ekki verður snúið aftur á þessari stundu. Mér virðist því ekki annað blasa við í þessu efni en að fjárl. verði afgr. með töluvert miklum tekjuhalla. Eina úrræðið verður að taka þau til rækilegrar endurskoðunar á næsta þingi, og útgjöldin miðuð við það viðhorf, sem þá verður. Mér virðast ekki önnur úrræði vera fyrir hendi, nema þá að fella þær útgjaldatill., sem ekki hafa enn þá verið settar inn á fjárlfrv. En það verður ekki farið að breyta öllu löggjafarstarfi þingsins héðan af. Ef okkur tekst ekki enn að breyta niðurstöðum fjárl. til bóta, þá verður að taka fjárl. til athugunar á næsta þingi. — Ég vildi láta þessi almennu orð falla út af því, sem komið hefur fram við þessa 3. umr.