18.04.1941
Neðri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Viðvíkjandi þeirri fyrirspurn, sem hv. þm. N.-Þ. beindi til mín út af 3. tölul. 24. gr. frv., vil ég segja það, að ég tel það vafalaust, að þær bætur, sem rætt er um í þeim lið, séu miðaðar við þær bætur, sem veittar verða eftir að l. þessi öðlast gildi. Ég hygg, að í hvert skipti sem niðurskurður hefur farið fram á einstaka bæjum, þá hafi bætur verið ákveðnar við viðkomandi fjáreigendur og veittar þá þegar, og yfirleitt hafa þessi mál verið leyst á einn eða annan hátt í hvert skipti, sem niðurskurður hefur farið fram. Þess vegna eru þau ákvæði, sem hér eru sett, um það, hvernig bótum skuli hagað eftir að niðurskurður hefur farið fram. En hins vegar er ég ekki það fróður, að ég geti gefið upplýsingar um það, hvort þessar bætur eru miðaðar við þær bætur, sem hingað til hafa verið ákveðnar í þessum tilfellum. En þær upplýsingar er sjálfsagt hægt að fá hjá þeim aðilum, sem hafa farið með þessi mál.

Þá er það líka rétt og sjálfsagt að taka það til athugunar, hvort ekki væri rétt að fella í einn lagabálk öll þau ákvæði, sem á þessu þingi yrðu lögfest í þessu máli. Við í landbn. höfum hugsað okkur að taka hin eldri l. um varnir gegn útbreiðslu mæðiveikinnar og fella þau saman í ein l., því að þau eru nú í nokkuð mörgu lagi. En af því að þetta er nýtt mál og órannsakað, hvaða fylgi það hefur hjá Alþingi, þá þótti okkur rétt að bera það fram sem mál út af fyrir sig, því að vel gæti svo farið, að það fengi ekki fylgi hjá þinginu, og meðan ekki væri sýnt um það, er ekki rétt að blanda því saman við önnur lög um svipað efni. Hins vegar get ég fallizt á það, að ef það sýndi sig, að þetta mál gengi gegnum 2. umr. hér í hv. d., þá væru líkur fyrir því, að þá mætti fyrir 3. umr. fella þau saman í einn kafla, sem sendur yrði frá d. til Ed. og gæti orðið að 1. í einu lagi, ef Ed. féllist á það. Það má vel vera, að það færi að ýmsu leyti betur á því.

Það getur vel verið, að þm. hafi minni upplýsingar um þessi mál en vera skyldi. En samt sem áður hafa ýmsar upplýsingar komið fram um þessi mál að undanförnu, bæði í ræðu og riti, og hefðu menn því átt að geta aflað sér þeirra. En þm. geta ekki verið með eyru og augu alls staðar, og þess vegna hefur líklega mikið af þessum upplýsingum farið fram hjá þeim.

Landbn. hefur kvatt á sinn fund þá menn sem hafa haft framkvæmdir þessara mála með höndum, og fengið hjá þeim allar nauðsynlegar upplýsingar. Og ef almennur áhugi er fyrir því að fá nánari upplýsingar, þá mun ekki standa á landbn. að fá þessa menn til að koma til fundar v ið hv. þm. En það þarf að koma fram á einn eða annan hátt, að almennur áhugi sé fyrir því að fá þessar upplýsingar, og þá mun ég vinna að því, að þessar upplýsingar fáist, ef ég verð var við áhuga fyrir því máli hjá hv. þm.