18.04.1941
Neðri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Gísli Guðmundsson:

Aðeins örfá orð. — Ég vil þakka hv. frsm. fyrir undirtektir hans um þetta mál, og vænti ég, að við 2. umr. geti hann gefið enn frekari upplýsingar viðvíkjandi skilningi á 24. gr. En þetta er vitanlega nokkuð stórt atriði, því að hér er um allmikið mál að ræða fyrir þá bændur, sem svo hefur staðið á fyrir, að ráðamenn þessara mála hafa fyrirskipað að skera niður hjá þeim féð að meira eða minna leyti. Er ástæða til að athuga meðferð þessara mála, hvernig rétt sé og sanngjarnt að taka á slíkum aðgerðum.

Um það, að hv. þm. fengju nánari upplýsingar um þetta, sem gert hefur verið í þessum málum, vil ég aðeins endurtaka það, sem ég sagði áðan, að mér finnst það eðlilegt — ég veit ekki, hvað öðrum finnst um það —, þar sem talsvert mikill kostnaður hefur verið í sambandi við þessi mál, að birt væri um það skýrsla í einn lagi, hvað þessi kostnaður hefur orðið mikill og hvernig fénu til þessara hluta hefur verið varið í einstökum atriðum. Það hefur ekki verið gefin út nein prentuð skýrsla um framkvæmd þessara mála. Ég vil halda mig við það, að þm. geti fengið nánari vitneskju um þetta allt saman, og helzt sem allra beinast frá þeim mönnum, sem með framkvæmdirnar hafa haft að gera, þannig að tækifæri væri til að leggja spurningar fyrir þá menn, ef mönnum þætti ástæða til að afla sér frekari vitneskju um málið. Hér er um að ræða eitt stærsta og afleiðingaríkasta mál, sem hæstv. Alþ. hefur haft til meðferðar. Og oft hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að þm. fengju að kynna sér mál, sem minna hefur verið um vert.