06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Ísleifur Högnason:

Mér þykir þetta frv. harla kynlegt, þar sem í því er kafli, sem er eins konar kosningal. Fólkið á í þessu efni að vera sinnar gæfu smiður, sem hlýtur að vera jafnfáfrótt um þessa hluti og hver annar leikmaður. Ég sé ekki betur en sérfræðingarnir séu í vandræðum með, hvað gera skuli, og séu með þessu að reyna að skjóta sér undan ábyrgðinni. Mér finnst algerlega rangt að setja þessa ábyrgð yfir á fáfrótt fólk um þessa hluti. Og sérstaklega finnst mér, þar sem þetta mál varðar alla þjóðina, þá sé það röng leið að láta aðeins fólkið á jöðrum sýktu svæðanna hafa atkvæðisrétt hér um. Þetta finnst mér vera aðalveilan í frv. Ég geri ráð fyrir, að óhætt sé að samþ. 1. kafla frv. og að hann hljóti að vera til bóta. Enda mun það hafa sýnt sig, að með girðingunum hefur verið hægt að tefja fyrir því, að veikin breiddist víðar út. Hitt álít ég ótækt, að setja fólkinu það í sjálfsvald, hvort taka skuli upp niðurskurð.

Ég vil svo aðeins benda á það, í sambandi við þessi kosningalög, að ég sé ekki réttlætið eða vitið í því, að þeir einir skuli hafa um þetta atkvæðisrétt, sem hafa átt 25 kindur eða fleiri við síðasta skattframtal. Ég sé ekki betur en að þeir, sem eiga 24 kindur, séu eins dómbærir um þessa hluti eins og hinir, sem eiga 25 eða fleiri. Auk þess getur það vel verið svo, að á einu heimili skiptist fjárstofninn milli fleiri manna, þótt heimilið allt sé framfært af honum. En samkv. frv. er slíkum heimilum varnað að láta sinna áhrifa gæta í þessu máli, ef hver einstaklingur á heimilinu á ekki 25 kindur eða fleiri. Ég bendi aðeins á þessa veilu. Annars teldi ég réttast, að ríkissjóður tæki á sig allan kostnað við slíkar tilraunir sem þessar, ef reynt yrði á þann hátt, án fjárhagslegrar áhættu fyrir íbúana, að þrengja smám saman að veikinni.