06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (2413)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Helgi Jónasson:

Það er rétt hjá hv. þm. Mýr., að samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, er ætlazt til, að ríkissjóður greiði kostnað við lagningu þeirra girðinga, sem ekki hafa enn verið settar, en í frv. segir, að sýslusjóðir skuli greiða viðhaldskostnað þeirra að 1/3. Og við vitum, að girðingarnar inni á afréttunum ganga mjög úr sér yfir veturinn. Og það getur orðið mjög þungur baggi að þurfa að halda slíkum girðingum við um aldur og ævi. Nú er það svo t. d. um girðinguna við Þjórsá, að stór hluti Holtamannaafréttar er utan við girðinguna. Ég geri ráð fyrir, að okkar sýslufélagi þyki hart að þurfa að halda við girðingu, sem tekur stóra sneið af okkar afréttarlandi. Þótt menn sætti sig við þessa girðingu vegna þeirrar nauðsynjar, sem talin er fyrir hana nú, þá veit ég, að menn yrðu ekkert hrifnir af henni, ef slík nauðsyn væri ekki fyrir hendi, og þá allra sízt að vera skyldaðir til að halda henni við að 1/3 sjálfir.