06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (2414)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Jón Ívarsson:

Þetta mál, sem hér er til umr., er að sjálfsögðu mikið stórmál og þýðingarmikið fyrir landbúnaðinn, hvernig úr rætist um lausn þess. Það skiptir miklu máli alla þjóðina, hvort takast megi að hefta útbreiðslu þessara sauðfjársjúkdóma. En þótt svo sé, verður Alþ. samt að fara gætilega í að leggja mjög þung gjöld á umfram það, sem brýnasta nauðsyn krefur. Hér er gert ráð fyrir, að gerðar verði margar varnarlínur, sem hljóta að kosta stórfé. Í því kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir, hefur mæðiveikinnar ekki orðið vart, en þó er gert ráð fyrir í frv., að lagðar verði í því þrjár varnarlínur; sem ríkissjóður að vísu kostar uppsetningu á, en sýslan kostar að 1/3 viðhald og endurbætur á. Og þegar litið er á það, að þessar girðingar á að setja á svæði, þar sem hætt er við, að þær verði viðhaldsfrekar, þá getur hér orðið um svo þungar álögur að ræða, að ofviða verði litlum sýslufélögum. Ég teldi þess vegna mjög æskilegt, að þetta frv. fengi nánari athugun, áður en það er afgr. Virðist mér ekki ósanngjarnt, að frv. yrði sent öllum sýslunefndum til umsagnar. Það eru engin líkindi til, að þessar girðingar verði settar upp á þessu sumri vegna skorts á efni. Það er því nægur tími til þess að bera málið undir þá aðila, sem mest eiga að þessu að búa. Ég vildi þess vegna mælast til, að hv. landbn. vildi taka þetta til athugunar fyrir 3. umr., eða jafnvel, að hún fái málið tekið út af dagskrá nú strax til að athuga þetta. Ég geri ráð fyrir, að einhverjir fleiri óski eftir, að málinu verði vísað þessa leið, en ef landbn. heldur fast við að drífa málið áfram, þá muni slík rökstudd dagskrá verða borin fram við 3. umr.

Ég vildi sem sagt mælast til þess, að landbn. athugaði, hvort ekki væri rétt að fara þessa leið, að senda málið til umsagnar allra sýslunefnda, áður en því verður ráðið til lykta.