14.05.1941
Neðri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Frsm., (Bjarni Ásgeirsson) :

Ég verð að mæla eindregið á móti þessari rökst. dagskrá. Málið hefur fengið þann undirbúning og athugun, að ég tel, að það verði ekki um bætt, þótt því væri vísað frá nú. Það lá fyrir síðasta búnaðarþingi, og var um það fjallað af fulltrúum úr öllum héruðum landsins, er hér eiga hlut að máli. Það liggur í augum uppi, að engin þörf er að senda það sýslun. til athugunar, því þær mundu auðvitað mótmæla því, að sýslufélögunum yrði gert að greiða þennan hluta kostnaðarins; þær eru samþykkar framkvæmdunum, en vilja komast hjá að taka þátt í kostnaðinum. Þetta vita allir, en eina ástæðan, sem hv. 2. þm. Rang. virðist hafa til þess að æskja þess, að málinu sé vísað frá, er, að sýslunefndir fái tækifæri til að taka þessa afstöðu til málsins. Hefði því verið nær, að hv. þm. hefði borið fram brtt. við frv. þess efnis, að allur kostnaður skyldi greiddur úr ríkissjóði, en að tefja málið á þennan hátt. Annars á Alþ. sjálft að skera úr um það, hvort það sé ranglátt, að héruðin taki þátt í kostnaði við viðhald girðinganna, og er álits sýslunefnda ekki þörf hvað það snertir. Ég sé ekki, að eftir neinu sé að bíða með afgreiðslu málsins, og legg eindregið til, að dagskráin verði felld.