14.05.1941
Neðri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (2433)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Helgi Jónasson:

Eins og ég hef tekið fram, hef ég fallizt á að taka rökst. dagskrána aftur til 3. umr., svo þess vegna þarf ég ekki að fara að tefja málið.

En út af girðingarefninu vil ég segja, að þó að það hafi verið pantað, þá er það ekki enn þá komið til landsins, og þó að það komi og þó að langt sé síðan það var pantað, þá er flutningsþörfin það mikil, að ekki er að vænta þess, að það geti komið fyrr en svo seint á þessu sumri, að ekki verði unnt að notfæra sér það á þessu ári. Þess vegna er engin töf að því, þótt málið fái að ganga fyrst til héraðanna. Þar fær það einmitt þann nauðsynlega undirbúning, til þess að Alþingi geti svo byggt samþykktir sínar á honum.

Hitt er rangt að segja, að við viljum leggja stein í götu þessa máls. Þvert á móti. Við höfum alltaf sýnt þessum málum fullan skilning og greitt atkv. með fjárveitingum í þessu skyni hér á Alþ., og ég held, að mitt hérað hafi einmitt greitt gjald sitt samkv. þessum 1. með betri skilum en flest önnur héruð. Þessar ásakanir eru því algerlega óréttmætar að því er mig snertir. Annars orðlengi ég þetta ekki, því dagskráin hefur verið tekin aftur til 3. umr.