14.05.1941
Neðri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (2434)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég ætlaði ekki að lengja umr., en þó vil ég enn einu sinni undirstrika það, að þessar varnargirðingar eru fullkomin nauðsyn. En ég hefði samt ekki tekið til máls, ef ekki hefði verið vikið að því, að það hefði verið óverjandi ráðstöfun hjá mér að tryggja efnið í þessar girðingar. Um það atriði vil ég segja það, að málið fékk þann undirbúning, að mæðiveikinefnd, sem skipuð er fulltrúum allra aðalflokkanna á Alþ., var öll sammála um, að þessar ráðstafanir væru nauðsynlegar.

Það er vitað mál, að þessar girðingar gera hvort tveggja í senn, að koma í veg fyrir útbreiðslu allra sauðfjársjúkdóma til þeirra héraða, sem enn þá eru laus við þá, og jafnframt er svo ætlazt til, að ráðstafanir verði gerðar til að varna því, að mismunandi pestir breiðist út innan sama héraðs, svo ýmis héruð þurfi ekki að stríða við allar tegundir sjúkdóma samtímis. Loks er svo hugmyndin að skera niður Þar, sem vörnum verður ekki við komið, og flytja heilbrigt fé burt af svæðum, þar sem örðugt er til varna. Allar þessar ráðstafanir eru að dómi mæðiveikin svo nauðsynlegar, að n. taldi, að með þær mætti ekki bíða.

Í annan stað er rétt að undirstrika það, að Búnaðarfélag Íslands og þing þess hefur haft hönd í bagga um undirbúning málsins. Þar hafa kjörnir fulltrúar bændanna fjallað um málið, menn sem ætla má, að séu því eins kunnugir og sýslunefndirnar. Ég held, að heimsending þess í héruðin nú mundi aðeins valda hættulegum töfum og skapa nýtt reiptog, þar sem hver togar í sinn skækil. Eins og frv. ber með sér, er það eingöngu samið með heildarráðstafanir fyrir augum.

Af þessum ástæðum, sem ég hef stuttlega rakið, taldi ég sem landbrh. rétt að reyna að tryggja gaddavír í nauðsynlegar girðingar. Þær ráðstafanir voru nýlega gerðar, og þá var mér tjáð, að það mundu hafa verið síðustu forvöð að ná í efnið. Aðeins er nú spurning, hvenær er hægt að fá skiprúm fyrir það. Ég get ekki fallizt á, að sú ráðstöfun hafi verið óforsvaranleg, þegar svo margir aðilar stóðu að þessu og allir á einu máli um nauðsyn þessa. Og svo mikið er víst, að vilji hv. Alþ. ekki fallast á þessa ráðstöfun, þú má alltaf selja gaddavírinn, og það vafalaust með álitlegum hagnaði.