05.06.1941
Neðri deild: 71. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

164. mál, vörumerki

Frsm. (Bergur Jónsson) :

Þetta mál er flutt, eins og grg. sýnir, samkvæmt ósk ríkisstj. Efni frv. er það að breyta þannig 10. gr. vörumerkjal., að ekki þurfi, meðan styrjaldarástand það helzt, sem nú er, að endurnýja vörumerki með tilkynningu innan 10 ára. Þetta er gert vegna þess, að póstsamgöngur og þess háttar við meginlandsríkin í Evrópu hafa að mestu eða öllu lagzt niður.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að þegar þetta ástand breytist, sé ekki ástæða til að hafa ákvæði 1. gr. lengur í gildi, — skal þá auglýsa ákveðinn frest til endurnýjunar í Lögbirtingablaðinu, til þess að hefja á ný endurnýjunarskylduna samkvæmt ákvæðum l.

Það þarf ekki að vísa þessu máli til n., af því að það er flutt af þeirri n., sem málið heyrir undir.