08.05.1941
Efri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

140. mál, bankavaxtabréf

Magnús Jónsson:

Ég vil aðeins geta þess, að það er prentvilla í 1. gr. frv., að heimilt sé að hafa 2 flokka. Nú má gefa út bankavaxtabréf allt að 18 millj. kr., en ekki meira en 6 millj. í hverjum flokki. Flokkarnir eiga því líklega að vera 3. Ég vil skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki má leiðrétta þetta í prentun eða hvort réttara er, að fram komi brtt. fyrir 3. umr.

Það er nú komið svo, að 12. flokkur er að þrjóta, en inn streyma beiðnirnar um lán, og er auðséð, að gefa verður út nýja flokka. Það er mismunandi, hvað menn vilja helzt, hvort þeir vilja vaxtahærri bréf affallalaus eða lægri með afföllum.

23. gr. er að því leyti breytt frá því, sem var í l. frá 1935, að í l. frá 1935 er tekið fram um fé ómyndugra, að ekki megi verja því til að kaupa bankavaxtabréf hærra verði en skráðu gangverði og aldrei hærra en ákvæðisverði þeirra. Þessu er sleppt úr nú, því að það hefur komið í ljós, að veðdeildarbréf verður að kaupa gangverði, þó að það sé yfir nafnverði bréfanna.