04.06.1941
Neðri deild: 70. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

140. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Þorsteinn Briem) :

N. hefur athugað þetta mál, um að stofna til útgáfu þriggja nýrra flokka bankavaxtabréfa. Frv. er komið frá Ed., og þar var aðeins gerð á því lítils háttar orðabreyt. Fjhn. þessarar hv. d. hefur og lagt til, að frv. verði samþ. og aðeins gert við það tvær brtt. Sú fyrri er við 18. gr., en 18. gr. hljóðar um það, að ef vaxta eða höfuðstóls af bankavaxtabréfum er ekki vitjað í 20 ár samfleytt, verði upphæðin ásamt vöxtum eign varasjóðs veðdeildarinnar. N. leit svo á, að þetta væri allstrangt ákvæði, ef ætti að framfylgja því fyrirvaralaust, og telur betra, að veðdeildin auglýsi á 5 ára fresti skráð nafn, flokk. töluröð og upphæð þeirra bankavaxtabréfa, sem ekki er vitjað vaxta af. Vel getur verið, að vegna dauðsfalla eða annarra atburða liggi ekki alltaf ljóst fyrir, hvar bréfin eru niður komin. Enda mun það fyrirkomulag, sem n. gerir till. um, ekki fordæmalaust í öðrum l., t. d. í l. um söfnunarsjóð var gert ráð fyrir slíkum auglýsingum.

Seinni brtt. fjhn. er við 23. gr. 23. gr. er um, að fé ómyndugra manna og opinberra stofnana og sjóða megi verja til að kaupa bankavaxtabéf. N. leggur til, að þarna verði sett um það ákvæði, er segir, að ekki megi kaupa bréfin hærra verði en á skráðu gangverði, og aldrei hærra en ákvæðisverð þeirra er.

Nú á tímum er það ekki dæmalaust, að verðbréf komist yfir ákvæðisverð. N. þykir því réttara að hafa þetta ákvæði í 1., til að koma í veg fyrir, að þeir, sem með fé ómyndugra fara, geti leiðzt út í að spekúlera með það á þennan hátt.

N. væntir, að frv. verði samþ. með brtt. hennar.