10.06.1941
Efri deild: 74. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (2497)

140. mál, bankavaxtabréf

Magnús Jónsson:

Frv. þetta er ekkert deilumál. Í rauninni er hér aðeins um að ræða löggjöf, sem er alkunn, því að veðdeild Landsbankans hefur áður fengið leyfi til að gefa út nýja og nýja flokka bankavaxtabréfa. Málið hefur ekki valdið ágreiningi hér í hv. d., og í hv. Nd. hefur það einnig orðið ágreiningslaust, og hafa Þar aðeins komið fram tvær litlar brtt. við frv. Önnur brtt. er við 18. gr. frv., sem hljóðar svo: „Höfuðstóll og vaxtafé, sem komið er í gjalddaga til útborgunar, rennur í varasjóð hlutaðeigandi veðdeildarflokks, sé þess eigi vitjað innan 20 ára frá gjalddaga“. Við þetta vill fjhn. Nd. bæta þessu: „enda auglýsi veðdeildin, á 5 ára fresti, skráð nafn, flokk, töluröð og upphæð bankavaxtabréfa, sem ekki er vitjað vaxta af“. Og á eftir 23. gr., sem er þannig: „Fé ómyndugra manna og opinberra stofnana og sjóða má verja til að kaupa bankavaxtabréf þessara veðdeildarflokka“, — vill n. bæta þessum orðum: „en þó eigi hærra verði en á skráðu gangverði, og aldrei hærra en ákvæðisverð þeirra er“. Þessar brtt. við frv. voru samþ. í hv. Nd., en teknar út úr frv. aftur hér í hv. d., og þó reyndar ekki nema síðari hluti viðbótarinnar við 23. gr., eða orðin: „og aldrei hærra en ákvæðisverð þeirra er“. Það er nú svo komið í landinu, að veðdeildarbréf fást ekki nema við hærra verði en ákvæðisverð er, og var því talið rétt að taka þessa viðbót út úr frv. aftur, til þess að unnt verði, hér eftir sem hingað til, að ávaxta fé opinberra sjóða o. s. frv. í veðdeildarbréfum, einnig meðan þau þarf að kaupa hærra verði en nafnverð þeirra er. Ég held, að það hafi verið af athugaleysi, að þetta var sett inn í frv., en ekki af því, að hér hafi verið um deiluatriði að ræða. Hv. fjhn. þessarar d. hefur fært þetta í horfið aftur með brtt. sinni á þskj. 709, og leggur n. þar reyndar aðeins til, að síðari hluti viðbótarinnar sé felldur niður. Það má segja, að orðalagið „en þó eigi hærra verði en á skráðu gangverði“ sé nokkuð undarlegt, það sem hér er ekki starfandi neitt kaupþing eða önnur stofnun, sem skráir þessi bréf, en svona hefur nú verið tekið til orða hingað til. Hins vegar er ekki hægt að binda þetta við ákvæðisverð, því að nú er ekki hægt að fá bréfin við ákvæðisverði. Var því sjálfsagt að breyta þessu aftur, og býst ég ekki við, að af því rísi ágreiningur.

Þá er hin brtt., þar sem svo er mælt fyrir, að auglýsa skuli á 5 ára fresti „skráð nafn, flokk, töluröð og upphæð þeirra bankavaxtabréfa, sem ekki er vitjað vaxta af“. Ég veit satt að segja ekki, hvað þetta á að þýða, því að á hverju ári er auglýst, hvaða útdreginna bréfa hafi ekki verið vitjað. En það væri skrítin ráðstöfun að fara að auglýsa það sérstaklega, þó að einhverjir vitjuðu ekki vaxta af einhverjum bréfum. Þetta horfir öðruvísi við en um þá, sem vitja ekki útdreginna bréfa. Um vextina vita menn alltaf að þeir falla til, og er ekki ástæða til að skuldbinda veðdeildina til að stofna til þess kostnaðar að auglýsa þetta á 5 ára fresti, og þeir, sem ekki vitja þeirra í 20 ár, geta þá tapað sínum rétti. En auglýsing er ekki líkleg til að breyta nokkru um þetta, því að maðurinn , vissi alltaf, að hann átti vexti af bréfunum. Ég hef átt símtal við annan bankastjóra Landsbankans, og óskaði hann þess, að veðdeildin væri losuð við þetta. Ég kvaðst mundu bera fram skrifl. brtt. um þetta hér í hv. d., ef hæstv. forseti vildi taka við henni. Þetta hefur ekki verið borið undir hv. fjhn., og ber ég því brtt. fram á eiginn reikning. En fyrir n. hönd mæli ég með því, að frv. verði samþ. með brtt. þeirri, sem prentuð er á þskj. 709.