12.06.1941
Neðri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

140. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Þorsteinn Briem) :

Hv. Ed. hefur gert tvær breyt. á þessu frv., síðan það var hér í d. síðast. Önnur breytingin gefur ekki beinlínis tilefni til aths., með því að efni greinarinnar eins og hún fór héðan mun hægt að fullnægja án lagaákvæða. Ég á hér við það, sem hv. Ed. hefur sniðið aftan af 18. gr. frv.

En hina breyt. Ed. hefur fjhn. ekki fallizt á, og því hefur n. borið fram þá skrifl. brtt., sem hæstv. forseti kynnti hv. dm. 23. gr. frv. hljóðar nú svo : „Fé ómyndugra manna og opinberra stofnana og sjóða má verja til að kaupa bankavaxtabréf þessara veðdeildarflokka, en þó eigi hærra verði en á skráðu gangverði þeirra.“ Fjhn. leggur til, að við gr. bætist fyrst og fremst orðin: „hjá Landsbanka Íslands“, og er sá hluti brtt. fluttar eftir ósk Landsbankans, sem hefur sölu þessara bréfa með höndum og mun hugsa sér að koma fastara skipulagi á skráningu gengis þeirra, eins og komið hefur fram í umr. um annað mál í hv. Ed. Enn fremur leggur n. til að við gr. bætist : „Eigi má þó verja fé ómyndugra til þess að kaupa bankavaxtabréf á hærra verði en ákvæðisverð þeirra er.“

Það hefur komið í ljós síðan Landsbankinn hætti að greiða vexti, eða svo til, af sparisjóðsinnstæðum, að stofnanir og sjóðir hafa orðið að kaupa bréf hærra en á gangverði: Hv. Ed. hefur viljað fallast á nauðsyn þessa. En fjhn. þessarar d. hefur ekki getað fallizt á þetta að því er snertir fé, ómyndugra, og ber í því efni fyrir sig reynsluna frá síðasta stríði.

Fyrir fjhn. vakti, þegar frv. var hér í d. til meðferðar í fyrra sinnið, að hafa svipað ákvæði og þetta, og enn fremur að athuga, hvort ekki mætti koma því til leiðar, að vextir af þessum bréfum yrðu lækkaðir nokkuð nú þegar, til þess að unnt væri að koma í veg fyrir óeðlilega hækkun á þeim nú. og þar af leiðandi verðfall síðar. Með þessu móti hefði skapazt nokkuð aðhald um hækkun bréfanna. Eftir síðasta stríð lækkuðu þau um ca. 20%. Og sama getur auðveldlega endurtekið sig nú, ef ekki reynist kleift að reisa við þessu skynsamlegar skorður í upphafi.

Vextir voru aðeins 4½% af fyrstu flokkum veðdeildarinnar, en voru síðan hækkaðir í 5%, þegar minna var um peninga og örðugt um sölu á bréfunum. Nú eru allt aðrir tímar en þá. Þess vegna vildi n. láta taka þetta til athugunar, a. m. k. að því er snertir fé ómyndugra, svo að því sé ekki, varið til þess að kaupa bankavaxtabréf á hærra en ákvæðisverði. Því að sama gildishrunið getur endurtekið sig.