14.06.1941
Sameinað þing: 26. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

140. mál, bankavaxtabréf

Magnús Jónsson:

Síðasta breyt., sem gerð var á þessu frv. og gerði það að verkum, að það kemur nú í Sþ., var gerð í Nd. Ágreiningur var um það, hvort í 23. gr. frv. ætti að banna að kaupa veðdeildarbréf í því skyni, sem þar um ræðir, ef verð þeirra væri yfir ákvæðisverði. Og það var Ed., sem óskaði eftir því, að það mætti, en Nd. vildi ekki að það væri leyfilegt. Nú hefur í raun og veru náðst samkomulag um þetta mál. Og sú breyt., sem gerð var í Nd., er svo smávægileg, að allshn. hefur ekki séð ástæðu til að gera neina brtt. til að færa ákvæðið aftur í sama form. En ég vil benda á það aðeins, að ég tel þessa litlu breyt. ekki til bóta, þar sem bætt er við, að skráning þessara skulda sé miðuð við skráð verð hjá Landsbanka Íslands. Og það er vegna þess, að það hefur legið fyrir þinginu frv. um stofnun kaupþings. Enda þótt það næði ekki afgreiðslu þingsins nú, er það mál, sem búast má við, að þingið afgr. innan skamms, enda þótt Landsbankinn taki upp svipaða starfsemi fyrst um sinn. Þetta ákvæði gæti komið einkennilega út, ef komið væri á kaupþing og ætti samt að binda sig við skráningu í Landsbankanum. En ef til vill verða þessir flokkar útgengnir, sem hér er um að ræða, áður en til þessa kemur, og er því engin ástæða til að amast við þessari viðbót, sem hefur verið nánar skýrð af fjmrh.