07.04.1941
Neðri deild: 32. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

70. mál, Háskóli Íslands

Einar Olgeirsson:

Ég vil lýsa yfir fylgi mínu við þetta frv., ekki vegna íþróttaákvæðanna, heldur vegna aðalákvæðanna, að setja viðskiptaháskólann inn í háskólann. Það er mál til komið að tryggja það, að menn geti yfirleitt, þeir, sem námsskarpastir eru, komizt að menntastofnununum, en um það hefur ráðið það pólitíska hugarfar þeirra manna, sem þar hafa haft yfirráðin, enda hefur það verið svo, að fjöldi manna hefur verið hindraður í því að komast inn í skólann vegna þeirra takmarkana, sem eru um inngöngu í menntaskólann, og börnin á efnaheimilunum hafa fengið sérréttindi til að komast inn í skólann, og um leið er komið í veg fyrir, að margir af efnilegustu nemendunum fái að komast þar að. Það er þarna, sem fyrst og fremst er að finna undirrót þeirrar meinsemdar, sem hv. frsm. talaði um. Í staðinn fyrir að útiloka þá fátæku og um leið mikið af þeim, sem eru efnilegastir, vegna þess að þar er fjöldinn, þá á að styðja að því, að þeir geti komizt inn í skólana í staðinn fyrir að takmarka aðgang að menntaskólanum, setja svo og svo þung próf og koma upp sérstakri fabriku í sambandi við prófið handa þeim, sem hafa betri aðstæður og geta borgað svo mikið sem vera vill með sínum krökkum. Það er undarlegt að bera það fram sem rök á móti háskólanum, að það skuli vera til svona ómögulegt skipulag í sambandi við uppeldi og menntun æskulýðsins. Það, sem væri rökréttast, væri að flytja frv., sem bannaði að setja þessar takmarkanir, svo að hinn íslenzki æskulýður fengi að öðlast menntun, því að ef þessi stefna heldur áfram, þá er það ekki aðeins menntaskólinn, sem líður undir því, heldur háskólinn líka og þar með meginhluti alls þjóðfélagsins, og það er þarna, sem á að segja stopp við.

Ég sé ekki ástæðu til að fresta þessu frv. út af þeim ástæðum, sem hv. frsm. minntist á. Ég álít þvert á móti nauðsynlegt að koma þessum breyt. sem fyrst á: Annars er undarlegt, að hér skuli koma fram tilmæli um, að þetta mál sé látið bíða, þangað til eitthvert bréf kunni að koma frá utrmn., því að það er vitað, að formaður þeirrar n. berst af einhverjum undarlegum ástæðum manna harðast á móti háskólanum og því, sem mætti verða til þess að auka hans veg og sameina viðskiptaháskólann og háskólann og enn fremur sá maður, sem hefur unnið manna mest að því að eyðileggja það, að útskrifazt gætu verulega góðir stúdentar, með þeim takmörkunum, sem hann hefur látið setja á menntaskólann. Og svo ætti þessi hv. formaður utrmn. með því að draga að senda eitthvert svarbréf að ráða, hvenær málið kæmi hér fyrir aftur. Ef á að bíða eftir slíku svari, þá vil ég fyrir mitt leyti, að tilskilið væri, að það kæmi fyrir einhvern ákveðinn tíma.

Svo er eitt, sem ég vil minnast á, fyrst verið er að ræða um háskólann, þó að það komi ekki beinlínis þessu máli við, en það eru launakjör prófessoranna. Eins og þeim málum er nú komið, þá eru laun þeirra allt of lág. Það virðist vera svo, að háskólinn sé ekkert annað en biðskóli fyrir unglinga, þannig að þeir taki að sér þessi störf, á meðan þeir eru að bíða eftir betur launuðum embættum. Í þessar stöður eru settir kornungir menn, og svo fara þeir eftir 2–3 ár, og þá koma í staðinn aðrir ungir menn, sem bíða þarna líka eftir öðrum betri stöðum. Þetta er þveröfugt við það, sem farið er að við háskóla annars staðar um heim. Þeir, sem stefna að því að komast í prófessorsstöður, skoða það sem takmark, þangað komast ekki nema mjög reyndir menn, og er gengið út frá, að þeir verði síðan í því starfi, meðan starfskraftar þeirra endast. En vegna þess, hvað prófessorar hér eru lágt launaðir, tolla þeir ekki í stöðunum, alltaf að koma aðrir og aðrir menn, og það getur orðið til að eyðileggja allt vísindastarf, því að þá verða menn aldrei það vel að sér, að þeir geti afrekað það, sem til er ætlazt.

Ég vil því alvarlega mælast til þess, ekki sízt ef menntmn. gefur sér tóm til að athuga þetta mál betur, að hún gerði gangskör að því að hækkuð yrðu verulega laun háskólakennaranna, því að það er ekki aðeins til minnkunar, heldur einnig til skaða fyrir þau störf, sem þeir eiga að vinna, og fyrir þjóðfélagið í heild, að þessir menn séu svo lágt launaðir, að þeir geti ekki við það unað.