25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (2534)

70. mál, Háskóli Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég hef flutt brtt. um tvö atriði frv. Fyrri breytingin, brtt. 1 og 2, er viðvíkjandi ákvæðinu um, að takmarka megi aðgang að deildum háskólans. Eins og ég hef rökstutt hér fyrr, er ég því algerlega mótfallinn og andstæður því yfirleitt, að farið sé að neita mönnum um aðgang að þeim menntastofnunum, sem völ er á hér á Íslandi. Þess vegna legg ég til að fella burt þá málsl., sem að þessu lúta í 2. og 3. gr. Loks legg ég til að fella úr 4. gr. orðin: „þar á meðal, að hann hafi notið kennslu í íþróttum ekki skemur en 4 kennslumissiri.“ Það er langt frá, að ég vilji á nokkurn hátt lýsa mig andstæðan íþróttum, heldur álít ég nægja, að íþróttanám stúdenta sé frjálst og unnið að því án þessarar þvingunar.

Ég veit, að nú eru miklar tilhneigingar til þess í Alþ. að gera íþróttir sem víðast að skyldu og höfuðnámsgrein. Mér virðist þar fara líkt og um verklegt nám, að stefna, sem er í sjálfu sér heilbrigð, fari í öfgar og sé notuð í varhugaverðum tilgangi. Það var ekki vanþörf að koma skólunum í fastara samband við lífið en þeir voru í og láta íþróttir vega móti óhollustunni af langri innisetu á skólabekkjum. En þegar íþróttir virðast eiga að vera uppbót fyrir skoðanafrelsið og hugsanafrelsið, sem nú er farið að reyna að taka af nemendum, og uppbót fyrir það, að jafnvel á að banna að læra erlend mál, fyrr en að undangengnum einhverjum prófum í öðrum greinum, — uppbót fyrir frelsið til að eiga heilbrigða sál —, er þá ekki snúið við merkingu gríska orðtaksins: Heilbrigð sál í hraustum líkama? — Tilgangur líkamshreystinnar var hraust sál: Sé tilganginum gleymt eða snúið við, er hætta á ferðum.

Að öðru leyti er ég alveg sammála aðalatriði frv. að bæta. við hagfræðideild og sameina hana lagadeildinni eða sameina viðskiptaháskólann lágadeildinni.