25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (2535)

70. mál, Háskóli Íslands

Steingrímur Steinþórsson:

Ég vil leyfa mér að gera grein fyrir atkvæði mínu, þótt það sé yfirleitt ekki venja mín, þegar ég er ekki beinlínis viðriðinn mál. Till. þeirra hv. samþm. míns og hv. 2. þm. Árn. get ég ekki fylgt. Mun ég ekki rökræða það frekar, en mér hefði þótt betur hlýða, að þeir hefðu borið fram rökstudda dagskrá um að vísa málinu til væntanlegrar milliþn. í kennslu- og uppeldismálum, og hefði ég getað fylgt þeirri afgreiðslu málsins. Verði hins vegar samþ. till. þeirra um að viðskiptaháskólinn skuli ekki sameinaður háskólanum, sé ég ekki hver er meiningin með frv., því að engin önnur ákvæði felast í því, sem ástæða sé til að flýta sérstaklega, úr því að í ráði er að kjósa milliþn. í kennslumálum, er sennilega verður einnig kosin á þessu þingi, þar sem hæstv. forsrh. hefur lýst sig því fylgjandi.

Ég mun því greiða atkv. gegn. brtt. á þskj. 234, en mundi hins vegar fylgja rökstuddri dagskrá um að vísa málinu til væntanlegrar milliþn., enda er það í samræmi við stefnu þá, sem ég og landbn. hefur tekið að því er snertir bændaskólana.

Ég vildi ekki láta, hjá líða að lýsa afstöðu minni, áður en gengið væri til atkvæða.