25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

70. mál, Háskóli Íslands

Garðar Þorsteinsson:

Þegar fyrst kom til umræðu í utanrmn. að stofna viðskiptaháskóla, lýsti ég yfir því, ásamt einum nm., er sæti á hér í hv. deild, að ég mundi óska þess, að sú kennsla, sem hér yrði komið á, yrði innan lagadeildar háskólans, þ. e. að í sambandi við lagadeildina væri stofnuð sérstök deild, sem kenndi þessar sérstöku greinar, sem gert var ráð fyrir að viðskiptaháskólinn hefði með höndum. Hins vegar gerði ég ráð fyrir, að strax yrði sett reglugerð um, hvernig kennslu skyldi hagað, hvað væru aðalnámsgreinar og hvað aukanámsgreinar o. s. frv. Voru á því þingi veittar 10 þús. kr. til þess að standa straum af kennslunni. Nú var viðskiptaháskólinn stofnaður, en utan vébanda háskólans, og stúdentspróf ekki gert að skilyrði til innritunar, heldur skyldu þeir nemendur hafa aðgang að skólanum, sem hefðu til þessa náms sérstaka hæfileika og þroska. Það hefur þó sýnt sig, að eingöngu stúdentar hafa innritazt í viðskiptaháskólann, þótt stúdentsprófs sé hins vegar ekki krafizt.

Ég vildi nú leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. að því, hvort hann teldi óviðeigandi, ef viðskiptaháskólinn sameinast lagadeild háskólans, að leyfa mönnum inntöku í skólann án þess að stúdentsprófs sé krafizt, þar sem skólinn veitir sérstaka menntun þeim mönnum, sem ætla sér að ganga út í viðskiptalífið, en takast ekki á hendur sér stök embætti eins og þeir, sem útskrifast úr öðrum deildum háskólans.

Ég hygg, að öllum þm. sé kunnugt um, að í menntaskólunum eru tvær deildir, máladeild og stærðfræðideild. Báðar deildir útskrifa stúdenta, en þeir hafa fengið tvenns konar menntun, þ. e. sérmenntun í málum og sérmenntun í stærðfræði. Er nú ekki mögulegt, að þriðja deildin, t. d. verzlunarskólinn útskrifi menn, sem séu kvalificeraðir til þess að innritast í viðskiptaháskólann?

Álítur hæstv. forsrh. útilokað, að ungir menn, sem fengju sérstaka menntun samkv. reglugerð, er ráðherra setti þar um, gætu fengið inngöngu í viðskiptaháskólann? Ef hæstv. ráðh. og menntmn. álíta, að hægt sé fyrir unga menn að öðlast nægilega menntun í verzlunarskólanum til þess að geta hagnýtt sér þetta háskólanám, hvers vegna skyldi þá sú stofnun ekki mega útskrifa menn til framhaldsmenntunar í háskólanum alveg eins og hinar tvær deildir menntaskólanna gera? Mér finnst ekkert því til fyrirstöðu, að sams konar undirstöðuþekking geti fengizt í þriðja skólanum, verzlunarskólanum, og það því fremur sem vitað er, að sú kennsla, sem verzlunarskólinn veitir, er sú eðlilega undirstaða fyrir þá, sem ætla sér að ganga út í viðskiptalífið og fá æðri menntun í verzlunar- eða viðskiptaháskóla.

Að mínu áliti skiptir það ekki sérstöku máli, hvort sá maður heitir stúdent eða ekki, sem hefur aðgang að háskóla, heldur hitt, að hann hafi nægilega menntun og þroska til þess að hagnýta sér hina æðri menntun.

Ég mun því láta mitt atkv. fyrir brtt. á þskj. 234 velta á því, hvort hæstv. ráðh. treystist að lýsa yfir því, að menn, sem ekki hafi stúdentspróf, en með sérstöku prófi, skuli hafa jafnan aðgang að viðskiptaháskólanum og stúdentar.

Ef hæstv. ráðh. segir, að deildin verði eingöngu ætluð stúdentum, mun ég greiða atkv. með brtt. á þskj. 234, en ef hæstv. ráðh. lýsir yfir því, að hann álíti heimilt, að mönnum með sérstöku prófi samkv. þar um settri reglugerð sé veitt inntaka í deildina, mun ég greiða atkv. gegn brtt.