25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (2549)

70. mál, Háskóli Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég hafði ekki tækifæri til þess að vera viðstaddur, þegar umræður hófust, því ég þurfti að vera við afgreiðslu mála í ráðuneytinu.

Um mál þetta er það að segja, að ríkisstj. hafði ekki forgöngu um stofnun viðskiptaháskólans, heldur utanrmn.

Ég ætla mér ekki að rekja starfsemi skólans í þessari d. — Það hafa alltaf verið skiptar skoðanir um, hvort hann skuli starfa sem sérstakur skóli, eins og hann hefur gert, eða sameinaður í eina deild háskólans, og er þá, eins og frv. ber með sér, aðeins um lagadeild að ræða.

Um þetta er nokkur ágreiningur, en háskólaráð, eða meiri hluti þess, er því meðmælt, að viðskiptaháskólinn verði sameinaður háskólanum og að háskólinn. taki að sér stjórn hans. — Þetta frv. er samið af Háskóla Ísl. eða mönnum kjörnum af honum, og sent ríkisstj. síðastliðið haust. — Þá fór háskólaráðið fram á að ríkisstj. gæfi út brbl. um þetta atriði. En ríkisstj. vildi ekki verða við ósk ráðsins, þar sem hún taldi þetta ekki svo aðkallandi, en háskólaráði var skýrt frá því, að frv. yrði sent Alþ., svo að það gæti tekið afstöðu til þess á þessu þingi. — Eins og frv. ber með sér, þá er það borið fram af menntmn., og ég hygg að loforð hafi verið efnd við háskólaráð. Ég álít, að skiptar verði skoðanir um, hvort málið verði afgr. á þessu þingi, og ef svo verður, þá hvernig. En um það atriði mun ég ekki fjölyrða, — það koma e. t. v. fram raddir um það við þessa umr., hvort ekki mundi eðlilegast að fresta málinu. Sem kennslumrh. læt ég afskiptalaust, hvað deildin gerir við málið. Hvort hún telur frekari rannsóknar þörf eða vísar málinu til milliþn., sem á að rannsaka allt skólakerfi landsins. (GSv: Er hún komin á laggirnar?) Ég geri ráð fyrir, að samþ. verði að skipa hana. Viðvíkjandi fyrirspurn hv. 7. landsk. um, hvort nemendur, sem kynnu að vilja sækja nám í viðskiptaháskólanum, eftir að hann hefur verið sameinaður, fengju inngöngu þar nema samkv. lögum háskólans, þá er því til að svara, að eigi aðrir en stúdentar kæmu til með að fá þar inngöngu samkv. reglugerð háskólans, það er að segja, ef frv. yrði samþ. óbreytt.

Hingað til hafa einungis stúdentar stundað nám við viðskiptaháskólann. S. 1. haust sótti piltur um inngöngu í skólann. Hann var ekki stúdent. Vegna þess að engin afstaða hefur verið tekin til þessa máls hér á Alþ., vildi ég ekki skapa fordæmi um það, heldur halda þeirri venju, að aðeins stúdentar yrðu í viðskiptaháskólanum, enda þótt ekkert sé því til fyrirstöðu samkvæmt reglugerð hans. — Aftur á móti mundu einungis stúdentar fá inngöngu, ef viðskiptaháskólinn yrði sameinaður háskólanum.

Ég tel eðlilegt, að breyt. yrðu gerðar á frv., þannig að þeim mönnum, sem vildu stunda nám við viðskiptaháskólann, yrði gefinn kostur á að taka próf, er samsvaraði stúdentsprófi. Þá mundi auðvelt að koma því fyrir, að við menntaskólann yrði tekin þriðja tegund stúdentsprófs. Þeir, sem tækju það próf, fengju rétt til að stunda nám við viðskiptaháskólann, þó að hann yrði sameinaður.

Mér er kunnugt um, að ef viðskiptaháskólinn yrði ekki sameinaður, þá er fyrirhugað í reglugerð, að þeir, sem ekki eru stúdentar, fái tækifæri á að taka próf, sem leyfði þeim inngöngu í skólann eins og hann er nú.

Ég held að ég hafi þá gert grein fyrir, hvernig þetta mál liggur fyrir og jafnframt svarað fyrirspurnum, er beint var til mín.