25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

70. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Bjarni Bjarnason) :

Menntamál eru ekki svo mikið rædd hér í þessari hv. d., að ég sjái eftir þeim tíma, sem fer til umr. um þetta mál.

Orð hafa fallið frá einstökum hv. þm. í þá átt, að hæstv. forsrh, hafi beinlínis lofað því að verða meðmæltur þessu máli. Þó skal ég ekkert um það að segja, hvað gerzt kann að hafa utan þingveggja, en það kom fram við 1. umr. málsins og einnig í umr. í dag, að hann hefur sent menntmn. þessarar d. frv., með ósk um að hún flytti málið. Menntmn. hefur ekkert í höndunum, sem sannar, að hæstv. ráðh. eða ríkisstj. hafi óskað eftir, að málið kæmist fram. Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins dags. 27. febr. s. 1. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Hér með sendir ráðuneytið hinni heiðruðu menntmn. Nd. Alþ., samkvæmt beiðni háskólarektors, frv. til 1. um breyt. á 1. nr. 21, 1. febr. 1936, um Háskóla Íslands, ásamt bréfi rektors dags. 28. des. f. á., til skýringar frv.“ Enn fremur fylgir bréfinu afrit af bréfi háskólarektors til forsrh., og undir þetta er skrifað af skrifstofustj. ráðuneytisins, en ekki ráðh. sjálfum, svo sem venjulegt er þó um erindi, sem send eru til menntmn. og flutt eru eftir beinni ósk hans.

Ég vildi láta þetta koma hér fram, vegna þess að því hefur hvað eftir annað verið haldið fram, að hann hafi lofað að styðja málið.

Þá hafa komið fram athugasemdir frá einstökum ræðumönnum um það, að n. hafi ekki gert grein fyrir skoðunum sínum á málinu. Þessar fullyrðingar koma sennilega frá mönnum, sem ekki sækja þingfundi og vita ekki, hvað hér hefur verið sagt. Við 1. umr. málsins gerði ég grein fyrir því atriði í þessu máli, sem ég er andvígur, og ég hef fulla heimild til, því í nál. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Nefndarmenn eru óbundnir um einstök ákvæði frv.“ Þetta er sett með samkomulagi okkar allra, því við vildum vera frjálsir að því, hvort við flyttum brtt. eða ekki, og einmitt vegna þessa frelsis hef ég og hv. fyrri þm. Skagf. flutt brtt. á þskj. 234. Hvað við kemur því, sem snertir 1. gr., gerði ég grein fyrir því við 1. umr., og ætla ég ekki að endurtaka það hér að öðru leyti en því, að ég gat þess þá, að háskólarektor hefði sagt, að allur þorri háskólakennaranna ætlaði að halda sér við það „princip“ að hafa ekki aðrar deildir innan háskólans heldur en fyrir stúdenta. Ég hélt því aftur á móti fram, að ég væri algerlega andvígur því að lögskipa, að ekki mættu aðrir menn nema innan háskólans en þeir, sem hefðu stúdentspróf.

Vegna þess áhuga, sem háskólakennarar hafa á þessu máli, var ekki óeðlilegt, að umr. færu fram á Alþ., enn fremur telja nemendur viðskiptaháskólans úrlausn þessa máls hafa mikla þýðingu fyrir sig. Jafnvel andstæðingar þeirrar stefnu, sem fram kemur í þessu frv., eins og t. d. ég, vilja þó ekki beita sér gegn því, að málið sé rætt.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram. Þess skal enn fremur getið, að hv. fyrri þm. Skagf. gerði mjög rækilega grein fyrir sinni skoðun, sérstaklega á 2. gr. þessa frv. Ég get enn bætt því við, að ég talaði um það í framsöguræðu minni við 1. umr., að ég teldi sum ákvæði 4. gr. frv. svo mikils virði, að málið væri vel þess vert, að það væri rætt. Það er því alrangt hjá þeim hv. þm., sem halda því fram, að við höfum ekki gert grein fyrir okkar skoðun í þessu máli.

Ég get vel fallizt á þau ummæli, sem hnigið lafa í þá átt, að rétt væri, að þetta frv., eða þau atriði, sem hér eru til umr. og snerta háskólann, kæmu til þeirrar nefndar, sem væntanlega verður skipuð í skólamálum samkv. till., sem fram hefur verið borin í sameinuðu Alþingi. Ég tel einmitt, að það væri mjög æskilegt, að þetta mál yrði athugað, eða m. ö. o., að háskólinn og deildir hans yrðu athugaðar gaumgæfilega eins og allt okkar skólakerfi. Hins vegar mun það verða svo, að þessi till. á þskj. 234 komi nú til atkv., og þegar séð er, hvernig fer með hana, þá má vitanlega ráða ráðum sínum. Verði till. samþ., telja sennilega ýmsir hv. þm., að það, sem eftir er, sé ekki svo mikils virði, að rétt sé að láta málið halda áfram. Verði hún aftur á móti felld, má að sjálfsögðu athuga, hvort önnur ráð eru til þess að koma þessu máli til athugunar hjá milliþn.