25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (2555)

70. mál, Háskóli Íslands

Bergur Jónsson:

Eftir minni skoðun hefði verið eðlilegt, að fyrri partur ræðu hv. þm. V.- Ísf. hefði verið haldinn fyrir þetta stríð. Hann sagði, að það mál hefði verið mikið á döfinni að takmarka stúdentum aðgang að ýmsum deildum háskólans. Jú. Það hefur verið talsvert talað um slíkt.

Það má deila um það endalaust, hvaða ákvæði í frv. séu mikilvæg. Það er oft þannig, þegar menn líta á mál, sem eru ekki því einfaldari, að sitt sýnist hverjum um það, hvaða atriði hafi mesta þýðingu. Og ég held, að það sé réttast að fara ekkert að dæma um það frekar en við færum að dæma um það, hvort heilinn eða hjartað væri þýðingarmeira í mannslíkamanum eða eitthvað slíkt.

Hv. 2. þm. Árn. neitaði alls ekki, að hann við 1. umr. hefði ekki gert grein fyrir sinni skoðun á þessu frv. Hins vegar vil ég enn taka það fram, að við þessa umr. hefur hv. menntmn. ekki sýnt það, að hún hafi álitið, að henni bæri að hafa neitt frumkvæði um að gera grein fyrir frv, almennt. Og upplýsingar, sem hv. þm. segir, að hann hafi gefið við 1. umr., hnigu í þá átt, að hann hefur aðeins talað um eitt atriði, sem hann vildi fella niður og hann flytur brtt. um ásamt öðrum nm. Það getur vel verið, að hv. þm. V.-Ísf. hafi fulla heimild til þess að neita því, að menntmn. tæki enn til rækilegrar yfirvegunar ýmis atriði þessa frv. Ég hef heldur engan rétt til þess að skipa henni að gera það, en mér hefði þótt það sæmilegri framkoma u. að gera það, a. m. k. eftir að búið er að benda henni á, að allmikil nýmæli eru í frv., sem sérstök ástæða er til að athuga nánar heldur en orðið er.

Ég tók það fram í fyrstu ræðu minni, að ég áliti, að í sjálfu sér væri það ekki nema sanngjarnt og eðlilegt, að þeir stúdentar, sem nú eru í algerlega ólögbundnum skóla eins og þessum skóla, viðskiptaháskólanum, fengju að ganga í Háskóla Íslands, í sérstaka deild þar. Þá hefði mér fundizt, að hefði átt að taka það atriði sérstaklega, þannig, að það hefði verið greinilegt, að hér væri um að ræða að setja lagasetningu um þennan skóla, sem hingað til hefur svifið í lausu lofti, hvort sem litið er á fjárhag eða menntahlið skólans. Við hv. þm. V.-Ísf. getum víst lengi deilt um það, hvort rétt sé að halda við prófi í heimspeki og forspjallsvísindum við háskólann. Ég veit, að það er skoðun margra stúdenta, að með þeirri grundvallarkennslu, sem þeir fengju. almennt í sálarfræði og rökfræði, hefðu þeir talið sig a. m. k. heldur betur menntaða menn eftir en áður, án tillits til þess, hvaða lífsstarf þeir ætluðu að leggja fyrir sig. Ég álít það illa farið, ef það er beinlínis tilgangur þessa frv. — ég skal ekki segja um það, það kemur ekki fram í frv. — að kippa því skilyrði burt fyrir háskólastúdenta, að þeir taki próf í forspjallsvísindum eftir einhvern ákveðinn tíma að þeir koma í skólann. Mín afstaða er þessi, að ég tel, að hér sé um mjög mikilvæg ákvæði viðvíkjandi háskólanum að ræða, og það sé ekki rétt að slá því fram sem neinni algildri reglu, að fyrir alla sé það aðalatriðið, ákvæðið, sem er í 1. gr. Þá er líka með því að takmarka stúdentafjöldann stórkostlegt nýtt skref stigið í menntamálum frá því, sem verið hefur. Ég vil vísa til þess, sem ég minntist á áður, að mér finnst það ranglátt einmitt nú, þegar við vitum, að hundruð stúdenta, sem hafa haft tækifæri til þess, með styrkjum hins opinbera eða aðstoð foreldra eða annarra, að sækja háskóla erlendis, en geta það ekki nú, að þeir geti þá ekki fengið menntunarþrá og menntunarþörf sinni fullnægt, og eigi einmitt nú að taka upp ákvæði um það, að háskólinn eða háskóladeildirnar geti lokað sér og útilokað stúdentana frá því að geta notið menntunar í háskólanum. Mér finnst, að varla hefði verið hægt að velja öllu óheppilegri tíma en nú til þess að koma þessum ákvæðum í 1., sem vitanlega veitir heimild til þess að fá að gera svona takmarkanir, eins og hér er um að ræða.

Ég skil ekki annað en að hver einasti maður skilji, að það getur verið alvarlegt fyrir hverja þjóð, sem getur búizt við áföllum á hverjum tíma, að á sama tíma sé verið að reyna að gera tilraun til þess að svipta menn í landinu aðstöðu til þess að fá þekkingu til þess að hjálpa þeim, sem sjúkir eru eða særðir.