07.06.1941
Efri deild: 73. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

70. mál, Háskóli Íslands

Frsm. meiri hl. (Árni Jónsson) :

Herra forseti! Ég tel ekki þörf að halda langa framsöguræðu um þetta mál. Bæði er, að málið er einfalt, og svo er hitt, að þótt það sé ekki meðal stórmála, þá hefur það þegar verið rætt almikið bæði utan þings og innan. Þykist ég því vita, að hv. dm. hafi áttað sig til hlítar á því, enda er það mjög óbrotið:

Frv. þessu fylgdi ýtarleg grg., þar sem gerð er grein fyrir, hvernig málið er til komið. En það er flutt að tilhlutun kennslumrh. Þá vil ég og aðeins vísa til álits meiri hl. menntmn., þar sem saga málsins er enn að nokkru rakin, og enn fremur prentað upp bréf, sem er undirritað af öllum nemendum, og rekja nemendurnir þar einnig sögu viðskiptaháskólans og viðhorf sitt til stofnunarinnar.

Þetta mál fór í gegnum Nd. með miklum atkvæðamun. Háskólaráðið er fylgjandi frv. Meiri hl. menntmn. er samþykkur því, að frv. verði samþykkt. Þá hafa og allir stúdentar viðskiptaháskólans lagt eindregið með málinu.

Í nál. segir, að í frv. felist 3 breytingar á háskólalögunum.

Ein breyt. er sú, að háskólanum er gefin heimild til að takmarka aðgang stúdenta að einstökum deildum. Þetta ákvæði stafar af því, að nú um sinn hefur stúdentaviðkoman verið svo geysimikil, að hún er orðin mörgum mönnum mikið áhyggjuefni.

Þetta er erfitt við að fást. Þeir stúdentar, sem annars gætu sótt til útlanda, verða flestir að sitja heima, og má heita, að þeim séu allar bjargir bannaðar. Með þessu frv. er verið að reyna að bæta úr því öngþveiti, sem skapazt hefur vegna fjölgunarinnar, með þessari takmörkun ásamt ýmsu öðru, sem upp hefur verið tekið. Með þessari takmörkun er þó einkum átt við Læknadeildina, þar sem aðsóknin er mest. En ég hygg, að það sé nokkurn veginn öruggt, að þessi heimild verði ekki misnotuð, þannig að mönnum verði ekki bægt frá námi að nauðsynjalausu.

Önnur breytingin, sem felst í þessu frv., er sú, að til þess að geta lokið fullnaðarprófi frá háskólanum, skuli stúdentar skyldir til að hafa notið kennslu í íþróttum um ákveðinn tíma.

Þetta ákvæði hefur valdið ágreiningi og sætt nokkrum mótmælum. Vil ég því leyfa mér að fara nokkrum orðum um það um leið og ég vík að áliti minni hl., hv. þm. S.-Þ., sem ég sé, mér til undrunar, að er ekki hér staddur.

Ég vil benda á, að þessi hv. þm. er í nál. sínu að brigsla okkur hv. 2. landsk. um það, að við höfum lítinn áhuga á þessu máli. Ég veit ekki hvernig hann ætlar að heimfæra það. Því við höfum báðir verið eindregnir fylgismenn málsins og einmitt sótt það fast, að því yrði hraðað bæði í gegnum n. og þessa hv. d.

Hins vegar tjáðist hv. þm. S.-Þ. lengi ekki hafa tekið fullnaðarafstöðu til málsins og reyndi að tefja afgreiðslu þess í menntmn. Enda mun hann meina hið gagnstæða með fullyrðingu sinni. Ég held, að hann þurfi ekki að saka okkur um, að við höfum ekki haft nægan áhuga fyrir málinu. Hann mun eiga við það, að við höfum ekki haft nægan áhuga gegn því.

Þá skal ég snúa mér aftur að íþróttamálum háskólans. Stúdentar hafa um mörg undanfarin ár iðkað íþróttir í íþróttafél. sínu. Það hefur notið styrks til starfsemi sinnar úr Sáttmálasjóði og frá Alþ. Stjórn félagsins hefur kynnt sér fyrirkomulag íþróttakennslu við háskóla í Svíþjóð, Þýzkalandi og Ameríku. Einnig hefur stjórnin látið gera uppdrátt að fyrirhuguðu íþróttahúsi stúdenta.

Þær íþróttir, sem félagið hefur almennast iðkað, eru alm. leikfimi, knattleikar og sund.

Íþróttafélagið hefur fyrir sitt leyti tekið mjög vel í þau ákv. þessa frv., sem einkum snúa að því.

En samkv. frv. eru helztu íþróttagreinarnar: leikfimi, og margs konar sund, þar á meðal björgunarsund, og gert ráð fyrir íþróttaprófi.

Með ákvæðinu um íþróttaskyldu er verið að vinna að því að efla líkamlega heilbrigði stúdentanna. Og er svo kveðið á, að enginn líkamlega heilbrigður stúdent geti fengið námsstyrk né lokið fullnaðarprófi frá háskólanum, nema hann hafi sótt íþróttir og tekið íþróttapróf.

Það er algerlega rangt hjá hv. minni hl., að þetta mál sé ekki nægilega undirbúið. Nú liggur næst fyrir að koma upp góðu íþróttahúsi, fyrr má ekki búast við fullum árangri. Enda ber ríkinu að styðja þessa starfsemi eftir megni.

Ég held, að það sé ekki rétt að kasta hnútum að kennurum háskólans, og þó allra sízt núv. rektor, fyrir að þeir hafi staðið gegn því, að íþróttalíf stúdenta fengi að njóta sín.

Rektor beitti sér einmitt fyrir því í haust að útvega stúdentum styrk til íþróttanáms í vetur. Og þótt nokkur misbrestur hafi e. t. v. orðið á iðkun þeirra í vetur, þá stafar það fyrst og fremst af skorti á húsnæði og enn fremur af því, að íþróttakennslan varð af þeim sökum að fara fram á miður heppilegum tíma.

Og þótt þetta kunni ekki að þykja stórt atriði, þá vil ég benda á, að íþróttir þykja alls staðar nauðsynlegur þáttur í uppeldi ungra manna. Auk þess, sem viðurkennt er, að slík þjálfun eykur „reglusemi og karakter-styrk“.

Í þessu frv. má segja, að sé einn þáttur, sem ágreiningi valdi. En það eru ákvæðin um sameiningu hins svo kallaða viðskiptaháskóla og lagadeildarinnar.

Þessi skóli hefur starfað 3 undanfarin ár. Hann var upphaflega sóttur af 10 efnilegum stúdentum og síðan hafa nokkrir bætzt við á hverju ári.

En það er nú svo með þennan skóla, að hann hefur frá byrjun svifið í lausu lofti. Í þessu frv. er í fyrsta sinn reynt að koma honum á fastan grundvöll.

Nú hafa þessir stúdentar, sem þar hafa stundað nám undanfarið og verið í skólanum frá upphafi og áttu að ljúka burtfararprófi í vor, neitað að ganga undir prófið. Og ég held, að engum detti í hug, að þeir hafi neitað prófinu að ósekju, heldur skal ég nú sýna fram á, að þeir höfðu fulla ástæðu til þess.

Viðskiptaháskólinn svo kallaði, var stofnaður haustið 1938 án lagasetningar, en naut þó styrks úr ríkissjóði. Hann hefur verið algerlega utan háskólans frá byrjun, þar til hann fékk húsnæði í húsakynnum háskólans. Og eftir samtöl, sem fóru fram í haust milli ráðamanna háskólans og ríkisstjórnarinnar, og nemenda viðskiptaháskólans og ríkisstjórnarinnar, var ráðinn að skólanum fastur kennari, Gylfi Þ. Gíslason hagfr., sérfræðingur í aðalnámsgrein skólans. Hann var áður í fastri stöðu, en ef hann hefði ekki fengizt til að kenna við skólann, hefði horft til stórvandræða í fyrrahaust.

Um sama leyti mun það og hafa verið ráðið að fela þessum manni forustuna fyrir viðskipta

deild í háskólanum, ef viðskiptaháskólinn yrði sameinaður háskólanum 1940. Auk þess hefðu verið fengnir 1 eða 2 fastir kennarar, en farið eftir till. Gylfa um tilhögun kennslunnar.

Þannig er saga þessa fyrsta undirbúnings. Hv. minni hl. hefur fundið að því, að í frv. er lagt til að sameina þennan umrædda skóla lagadeildinni. Sú mótbára er í mínum augum lítils virði. Það skiptir minnstu máli, hvað deildin er kölluð.

Það er kunnugt, að árið 1938 voru 18 íslenzkir stúdentar við hagfræði- og verzlunarnám í erlendum skólum.

Talað er um, að það sé nokkuð hart aðgöngu, ef ekki komist aðrir en stúdentar að viðskiptaháskólanum til náms, en ég vil benda á það, að ekki hafa aðrir komizt þar að á meðan hann hefur starfað. Þeir 25 menn, sem nú eru þar við nám, hafa allir stúdentsmenntun. Og ég hygg, að ekki sé rétt að draga úr þeim kröfum, sem gerðar hafa verið um undirbúningsmenntun þessara manna. Tilgangurinn með skóla þessum var upphaflega sá, að búa unga og efnilega menn undir það að geta verið fulltrúar landsins í vandasömum stöðum erlendis og rækt ýmis mikilsverð störf hér heima. Ég sé ekki, að nokkuð það hafi komið fram, síðan málið var rætt hér á lokuðum fundi, sem breytt hafi þessu. Ég tel því, að sjálfsagt sé, að háskólinn

krefjist stúdentsprófs, eða annars sambærilegs prófs, til upptöku í þessa deild.

Mál þetta hefur verið nokkuð rætt við aðstandendur verzlunarskólans hér, en þeim er málið nokkuð skylt. Kváðust þeir vera fúsir til að reyna að koma þar upp undirbúningsdeild, sem útskrifað gæti nemendur með prófi, er jafngilti stúdentsprófi, svo að þeir gætu fengið upptöku í viðskiptadeildina. Ég held því, að ekki muni standa á viðleitni til að uppfylla þær kröfur, sem háskólinn gerir um það, að nemendur séu sem bezt búnir úr garði, áður en þeir ganga inn í skólann.

Ég ætla svo, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp bréf til skólastjóra viðskiptaháskólans frá nemendum þeim, sem ætlazt var til, að útskrifuðust þaðan í vor. Bréfið er skrifað 24, maí 1941 og hljóðar svo :

„Herra skólastjóri!“

Eins og yður mun kunnugt af margítrekuðum tilmælum vorum undanfarin þrjú ár, um að sett yrði reglugerð um viðskiptaháskólann, höfum vér talið lítt viðunanlegt, að ekki hafi verið til nein reglugerð, né yfirleitt nein yfirlýsing komið fram af hálfu viðkomandi handhafa ríkisvaldsins, Alþingis eða ríkisstjórnar, um tilgang skólans og fyrirkomulag.

Undanfarið hefur, sem kunnugt er, legið fyrir Alþingi frv. til laga um sameining viðskiptaháskólans og Háskóla Íslands. Teljum vér það langsamlega beztu lausn málsins vegna þess, að á þann einn hátt virðist tryggt, að ekki verði slakað á kröfum um inntökuskilyrði og brottfararpróf.

Höfum vér fram á síðustu daga vænzt þess, að frv. þetta næði fram að ganga, einkum vegna þess, að í vor eiga fyrstu nemendurnir að útskrifast frá skólanum og ekki hefur fram komið neitt annað frv., er fjallar um viðskiptaháskólann, en það virðist liggja í augum uppi, að ekki er hægt að útskrifa nemendur frá ríkisskóla, sem ekki hefur neinn grundvöll að byggja á og allt er í óvissu um, þar eð Alþingi hefur ekki tekið neina afstöðu til hans.

Kynni að verða lítill ávinningur af prófvottorði frá slíkum skóla, ef honum yrði breytt í framtíðinni.

Verði því ekki áður nefnt frv. samþykkt á Alþingi og fáist ekki önnur jafngóð lausn málsins, munum vér ekki sjá oss fært að ganga undir próf.

Svo er ráð fyrir gert, að brottfararpróf hefjist miðvikudaginn 28. þ. m., og verðum vér því að æskja þess, að afstaða hafi verið tekin til málsins og tilkynnt okkur eigi síðar en á þriðjudag 27. þ. m.

Virðingarfyllst.

Svavar Pálsson, Jón G. Halldórson, Pétur Thorsteinsson, Kristján Bjarnason, Hjálmar Finnsson, Hilmar Kristjánsson, f. h. Sig. Hafstað Pétur Thorsteinsson e. u., Bergur Vigfússon, Hörður Þórhallsson, Friðf. Ólafsson.

Til Steinþórs Sigurðssonar, skólastjóra, Rvík.“

Þetta bréf lýsir því nú kannske nánar en nokkuð annað, hvernig málum þessum er komið fyrir þá menn, sem gengu inn í þennan skóla fyrir þrem árum og eru vafalaust úr hópi efnilegri námsmanna. Og þó að ekki væri nema vegna þessara ungu manna, væri ekki vansalaust, að þetta mál fengi ekki afgreiðslu hér á þingi. Þessir menn verða að fá að vita, hver aðstaða þeirra er.

Að endingu vil ég geta þess, að allir nemendurnir, bæði þeir, sem áttu að útskrifast í vor, og aðrir, sem nám stunda við skólann, óska þess, að frv. nái fram að ganga. Hið sama er að segja um alla aðstandendur háskólans og verzlunarskólans, sem talað hefur verið við. Meiri hl. ríkisstj. óskar þess. Í hv. Nd. voru ekki greidd nema 4 atkv. á móti frv., að mig minnir. Og þegar er ráðinn kennari til að kenna við deildina frá næsta hausti, svo að allt ber að sama brunni, að frv. skuli ganga fram. Ég held, að óhætt sé að segja, að ef frv. nær ekki fram að ganga, þá sé stopult að treysta því, að þessi þarfa stofnun muni eiga sér nokkra framtíð.

Ég hef ekki vikið nema með óbeinum hætti að till. þeim, er hv. 1. þm. N.-M. ber hér fram. Ég fæ ekki séð, að þær séu til bóta, og af þeim ástæðum einum mundi ég ekki geta greitt þeim atkv. mitt, en auk þess er það, að mjög er nú áliðið þingtímans. Ef svo er sem ég held, að hv. þm. sé frv. fylgjandi, vil ég biðja hann að hugleiða, hvort hann vilji stofna málinu í hættu á því, að það nái ekki fram að ganga, því að ef það fer enn til hv. Nd., eru allar líkur til, að það fái ekki afgreiðslu. Vil ég því spyrja hv. þm., hvort hann vilji halda þessum till. sínum til streitu.

Að því er snertir hina rökstuddu dagskrá frá minni hl. menntmn., er augljóst, að með henni er verið að reyna að koma málinu fyrir kattarnef. Þar er lagt til, að málinu sé vísað til n., sem ekki er til. Væri hreinlegra að drepa málið beinlínis en koma því fyrir kattarnef á þennan hátt.