10.06.1941
Efri deild: 74. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

70. mál, Háskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson) [Frh.] :

Ég hafði, áður en fundarhlé varð, vikið nokkrum orðum að meðnm. mínum til þess að geta fengið frá þeim skýringu um það, hvernig viðskiptamál Íslendinga stæðu, ef þau væru borin saman við þá kenningu, sem þeir halda fram. Ég hafði sér staklega snúið mér að fulltrúa Alþfl., hv. 2. landsk., og sýnt fram á, hversu mikið ósamræmi væri milli þess flokks og eins af fyrrv. forystumönnum hans, Jóns Baldvinssonar. Enn fremur minntist ég á það, að Alþfl. í heild sinni stæði illa að vígi með þessa kenningu, af því að svo margir menn hafa haft sig áfram í óvenjulegri fátækt og komizt í ábyrgðarstöður innan þjóðfélagsins.

Þá vil ég snúa mér að hinum flokknum, sem hv. aðalfrsm. telst til, og kem að þeim tveim fyrirtækjum, sem sjálfstæðismenn hafa mestar mætur á. Annað er Eimskipafélagið, sem þeir hafa sérstaklega kallað „óskabarn Íslendinga“. Þó að þeir eigi það ekki frekar en aðrir landsmenn, hafa þeir tæpt á þessu fallega gælunafni. Ég hef minnzt á það, að þeir tveir menn, sem mest starfa við Eimskipafélagið, Emil Nielsen og Guðmundur Vilhjálmsson, eru næstum algerlega sjálfmenntaðir menn. Nú finnst mér, ef hv. frsm. meiri hl. væri hér, þá ætti hann að gefa skýringu á því, hvernig hann geti hugsað sér, að hans nánustu vinir og þeir, sem stjórna Eimskip, ráði menn til forystu fyrirtækis fyrir 25 þús. kr. árslaun, sem eru með hæstu launum hér á landi, ef það væri ekki fyrir afburða hæfileika og yfirburði í viðskiptamálum. En ég tel, að svo sé háttað um þessa 2 menn við þetta fyrirtæki, sem svo sérstaklega hefur verið hampað af allri alþjóð, ekki síður en sjálfstæðismönnum. Annars hefur þessi flokkur líka afstöðu og Alþfl., þegar ráða skal menn til ábyrgðarstarfa, þá ganga þeir fram hjá mönnum með sömu einkunn og hv. 2. landsk. og leita til þeirra, sem hafa langa skólagöngu að baki og þykja þess vegna gjaldgengir í lífinu. Hitt fyrirtækið, sem hv. aðalfrsm. og sumum sjálfstæðismönnum þykir mikið til koma, er Kveldúlfur. Sá maður, sem stofnaði þetta fyrirtæki, Thor Jensen, hefur ekki gengið á nokkurn skóla, nema þá áberandi litið, hann hefur aðeins haft til brunns að bera meðfædda yfirburði og kunnað að læra af lífinu. Sá maður, sem nú stjórnar þessu fyrirtæki af röggsemi, Richard Thors, hefur einnig notið mjög takmarkaðrar skólagöngu og er að mestu leyti sjálfmenntaður maður. Þriðja stórfyrirtækið, sem stóð mjög nærri þeim mönnum, er hv. aðalfrsm. meiri hl. hafði samband við, er útgerðarfyrirtækið „Alliance“, og var það stofnað af Jóni Ólafssyni.

Ef svo er farið út í hina eiginlegu kaupsýslu, þá eru langmestu stórkaupmennirnir Ólafur Johnson og Garðar. Gíslason, þó að sá síðarnefndi sé sá elzti og þekktasti hér á landi. Garðar byrjaði sína starfsbraut á þann hátt, sem ég hef látið mig dreyma um, að menn úr viðskiptaháskólanum gerðu. Garðar Gíslason fór ungur til Englands og setti þar á stofn verzlun, sem hann starfaði við um stund. Hann fluttist svo heim aftur og hefur síðan verið með helztu stórkaupmönnum landsins.

Eins og kunnugt er, höfum við Garðar Gíslason ekki alltaf verið sammála, en þrátt fyrir það get ég látið hann njóta sannmælis og viðurkennt, að hann er einn af mestu núverandi stórkaupmönnum hér á landi og einn af forvígismönnum þess flokks, sem hv. aðalfrsm. telst til. Það lítur út fyrir, að sama sé, hvort lítið er til Alþfl. með Jón Baldvinsson eða Sjálfstfl. með Kveldúlf og kaupmenn eins og Ólaf Johnson og Garðar Gíslason. Alls staðar eru fyrir okkur menn, sem eru fordæmdir niður í kjallara viðskiptamálanna eftir kröfum og skoðunum hv. meiri hl. menntmn..

Nú ætla ég að gefa skýringu á hvaða afstöðu við samvinnumenn höfum í þessum málum. Við erum undir öllum kringumstæðum á móti þeim hugsunarhætti, sem kemur fram í frv. og nál. hv. meiri hl., og þetta stafar af okkar eigin reynslu. Við höfum í 70 ár verið að byggja upp verzlunarstétt í landinu, sem hefur nú með höndum verzlun fyrir næstum annað hvert heimili í landinu. Ef maður tekur þá 200 mest áberandi menn, sem staðið hafa að þessu fyrirtæki í þessi 70 ár, þá er aðeins um einn stúdent að ræða í þeim hóp, séra Sigfús Jónsson. Náttúrlega hafa margir góðir menn, bæði prestar og nokkrir lögfræðingar, stutt samvinnufélagsskapinn, en þeir hafa ekki verið þar í fremstu röð. Nú langar mig til að varpa einni spurningu til hv. aðalfrsm., sem er sonur eins af okkar gáfuðu, sjálfmenntuðu mönnum, sem hafa látið til sín taka í lífinu og orðið gagnmenntaðir, þrátt fyrir enga skólagöngu. Hvernig getur hv. aðalfrsm. dottið í hug, að við samvinnumenn, sem höfum notið starfskrafta Jóns í Múla og Sigurðar Kristinssonar, göngum inn á þá vitleysu, að viðskiptanám hér á landi sé bundið við langa skólagöngu, sem þessir menn hafa ekki haft aðstöðu til að veita sér? Ég get þess vegna sagt þeim það fyrirfram, hv. 2. landsk. og hv. aðalfrsm., hvernig sem afgreiðslan gengur nú um þetta mál, þá er þeirra máli engin lífsvon. Það mætti kalla þetta „Alexanderisma“ á hæsta stigi, og við verðum að loka verzluninni fyrir þeim mönnum, er gert hafa óþolandi axarsköft í sínu starfi. Ég hef áður sýnt fram á, að sá maður, sem stendur fyrir þessari fáránlegu vitleysu, dr. Alexander Jóhannesson, hefur verið að gera axarsköft allt lífið, og eftir þessa frammistöðu er næsta ótrúlegt, að hv. þm. láti hann hafa áhrif á sig við afgreiðslu þessa máls: Það, sem á að gera með þessu frv., er svo mikil fjarstæða, að það er eins og að veita læk upp brekku, það stríðir á móti öllum náttúrulögmálum og þess vegna verður aldrei hægt að koma því í framkvæmd. Um leið og ég legg frá mér blað, þar sem ég hef skrifað á, eftir því sem þau komu í huga minn, nöfn 20 þekktustu manna á þessu sviði, verð ég að reyna að útskýra, af hverju ég álít það ekki neitt höfuðskilyrði, þó að megi vera jöfnum höndum, að menn við þessi störf séu stúdentar. Ég held, að eins muni verða í framtíðinni og áður hefur átt sér stað, að það verði ekki stúdentar, sem mest skari fram úr á viðskiptasviðinu. Ég álít, að þetta stafi af því, að við höfum reynt að líkja eftir öðrum þjóðum og komið skyndilega upp ýmsum skólum, sem hafa tekið af alla sjálfsmenntun fyrri alda. En töluvert af þessum skólum okkar, bæði barnaskólar og menntaskólinn í Rvík, eru ekki að öllu leyti heppilegir til að auka fjör og þekkingu manna. Það var rangt hjá hv. 1. þm. N-M., þegar hann vék inn á það að fella niður íþróttakennslu í háskólanum, af því að sæmilega væri séð fyrir þessum hlutum í öðrum skólum. En nú er langt frá að svo sé. Ef við tökum til dæmis skóla hér í bænum, svo sem barnaskólana og menntaskólann, þá hafa þeir haft mjög léleg íþróttahús, þar til núna nýlega, að einn duglegur íþróttakennari kom upp góðu húsi, sem barnaskólar bæjarins hafa aðgang að. Menntaskólinn hefur líka lítið og gamalt hús til íþróttaiðkana, og má það heita ónothæft. Þess vegna er það, að þegar það er tekið saman, að okkar skólar eru mjög einhliða og vanrækja líkamsuppeldið mikið, sumpart af fátækt og sumpart af hirðuleysi, verður niðurstaðan sú, að nemendur hafa lítið annað eftir en leiðinlegar endurminningar um 7 ára barnaskólanám, lítið skemmtilegri endurminningar um 6 ár í menntaskólanum, að viðbættum 7 árum í háskólanum. Enda segir rektor, að lærisveinarnir í háskólanum vilji ekki sinna íþróttum, jafnvel þó að hann hafi boðizt til að borga fyrir þá. Þeir eru heldur ekki undir það búnir. Þeirra uppeldi er mótað á annan veg, en það þýðir það sama og vera minna mótaður í dugnaðaráttina. Ég hef hér nærtækt dæmi, sem ég held, að ekki sé gott fyrir hv. nefndarmeirihl. að komast undan. Okkar núverandi forsrh., sem er mjög þróttmikill íþróttamaður, er einn af þeim fáu stúdentum hér, sem komast í fremstu röð í íþróttum, og enginn vafi er á því, að hæstv. forsrh. er velviljaður Háskóla Íslands, þar sem hann hefur stundað nám. Þegar að því kom, að hann þurfti að velja mann í það embætti, sem hann hafði haft með höndum, prófaði hann 2 menn, sem ekki höfðu hans einkenni. Þeir höfðu ekki þá orku og það fjör, sem núverandi dómsmrh. áleit, að þyrfti að hafa í Því sambandi. Hann hefur ekki sagt þetta, en óbeinlínis látið það í ljós með því að láta ungan íþróttamann taka við lögreglustjórastarfinu hér í bænum, þó að þessi maður væri ekki lögfræðingur. Nú er svo stuttur tími liðinn síðan hann tók við störfum, að ég skal ekki segja um, hvernig hann reynist, en röskur maður hygg ég, að hann sé, og ég geri mér miklar vonir um hans hæfileika. Hvernig finnst nú hv. aðalfrsm. að skilja beri þetta dæmi? Ekki er hægt að skilja það sem árás á núverandi lögregluráðherra: Hann er áreiðanlega velviljaður sinni stétt, eins og gerist um flesta menn, og þykir mikið í hana varið. Ég er viss um, að hann mundi vilja, eins og hann að vísu hefur sýnt með forgöngu sinni að íþróttalögunum, haga uppeldinu í landinu þannig, að æskan fengi betri undirstöðu til þess að láta fjör og þrótt koma fram í gerðum sínum. Þegar hæstv. forsrh. þurfti að fá mann til þeirrar stöðu, sem hann hafði sett metnað sinn í, reyndi hann að fá sem beztan og duglegastan mann, án tillits til þess, hvort hann væri lögfræðingur eða ekki.

Þá kem ég að því, sem ég álít undirstöðuvilluna á afstöðu hv. meiri hl. til þessa máls. Þeir skilja ekki, að það er ekki hægt að fá stór átök í iðnaði, verzlun eða útgerð, nema frá mönnum, sem eru hreystimenn, bæði andlega og líkamlega. Ég hef lesið það nýlega í amerískri hagfræði, að venjulega sé hægt að sjá, þegar maður heimsækir stór fyrirtæki í Ameríku, hver sé þar hinn leiðandi maður, á því hve hann sé föngulegur og hreystilegur og beri orkuna og þróttinn með sér. Ég held, að ómögulegt sé að neita því, að það er ekki bein tilviljun, að öll þessi miklu átök í verzlun Íslendinga síðan 1870 hafa verið framkvæmd af mönnum, sem ekki hafa langa skólagöngu að baki. Og úr því að menn með langa skólagöngu hafa ekki staðið framarlega í þeim málum, hlýtur orsökin að vera sú, að þeir hafa fengið skakkt uppeldi og orðið þreyttir á of löngu námi. En auðvitað eru margir af helztu mönnum landsins embættismenn, og þeir hafa heldur viljað ganga embættisleiðina heldur en þessa skapandi leið. Ef þetta er rétt, virðist það vera fásinna að hætta við að taka þessa sjálfmenntuðu menn í verzlunarstétt landsins, en leyfa þeim einum að fara þessa leið, sem eru stúdentar og foreldrarnir hafa kostað til margra ára menntaskólanáms, í því skyni að gera þá að „businessmönnum“. Ég býst við, að afleiðingin mundi verða sú, að alls staðar spryttu upp „businessmenn“ með svo takmarkaða hæfileika, að þeir gætu aldrei orðið annað en undirtyllur við ýmsar stofnanir, líkt og nú á sér stað með hagfræðingana íslenzku. Ég man ekki eftir neinum hagfræðing, sem hefur komizt í fremstu röð, heldur starfa þeir flestir sem undirtyllur við ýmis fyrirtæki bæjarins. Það er búið að þjaka þeim með of löngu námi og svipta þá möguleikanum til að þroska þá orku, sem nauðsynleg er til forystu.

Þegar svo viðskiptaháskólinn verður settur sem deild inn í Háskóla Íslands og ákveðið verður fast skipulag fyrir hann, verður að miða við þá reynslu, sem við höfum fengið í þessum efnum.

Nú finnst mér það mjög undarlegt, þar sem Sjálfstfl. er ekki aðeins flokkur allra stétta, heldur sérstaklega verzlunarstéttarinnar, sem fylgir honum trúlega, að þessum hv. frsm. Sjálfstfl. hér í deildinni hefur fundizt rétt að útiloka verzlunarstéttina frá þeim skóla, nema með því, að þeir leggi á sig mikið undirbúningsnám. Ég ímynda mér, að hv. frsm. átti sig ekki á því, að verzlunarmennirnir ala sig upp í starfinu við ýmiss konar verzlunarstörf, á meðan þeir eru ungir og geta því ekki stundað langa skólagöngu.

Ég álít, að hér komi ekki til greina sá atvinnuklofningur, sem er á milli kaupmanna og samvinnumanna, því að um þau atriði geta þeir verið sammála. Það er staðreynd, að samvinnufélögin hafa enn helming verzlunarinnar, og þetta mun ekki breytast stórvægilega. Þess vegna má heita furðulegt hjá hv. frsm., að hann skuli gera beina árás á þá stétt, sem hann telur sér skylt að verja.

Það lítur út fyrir, að hv. 1. þm. N.-M. sé ekki nærstaddur, svo ég verð að gera mínar aths. án hans. Ég býst við, að honum finnist, að með sinni seinni till. komi hann til móts við okkur, sem álítum, að ekki sé rétt að útiloka frá viðskiptanámi sjálfmenntaða menn. Ég efast um, að hv. l. þm. N.-M. viti, að þegar menntaskólapiltar komu í haust suður í háskólann, þá neitaði rektor háskólans þeim að ganga inn um aðaldyr skólans, og urðu þeir að fara inn um bakdyr til að komast upp á loft.

Hvað liggur nú í þessu? Liggur í því ákaflega mikið traust á því, að þessir nemendur séu mikil og góð mannsefni? — Nú eru þeir það margir.

En það var ekki einungis þetta atriði. Í fyrra vetur, þegar þessi ágæti rektor háskólans var að biðja um framlengingu á happdrættisleyfinu, þá hafði hann brugðizt þeirri skyldu sinni að útbúa kennarastofur, en vísað upp á efsta loft, að þar væri pláss fyrir þær, en þó að hér væri um fullorðna menn að ræða, þá máttu þeir ekki heldur ganga inn um aðaldyrnar.

Nú var það hv. 1. þm. Rang., sem tók málstað Alexanders hér í hv. Nd., og lét gera yfirlýsingu um það, að fallið yrði frá þessari óvirðingu við kennara og þeim yrði leyft, ekki aðeins að ganga inn um aðaldyr skólans, heldur fengju þeir einnig stofur á aðalhæðinni til umráða.

Fyrir 30 árum kynnti ég mér barnaskóla, bæði í Þýzkalandi og Englandi, og ég man eftir því, hvað börnin gengu fallega út. Í Þýzkalandi í þrísettum röðum, eins og hermenn, og í Englandi í einsettri röð eftir músík með mjög skemmtilegum hreyfingum, og maður sá engar skemmdir. Og þetta mun sennilega hafa tekið meiri bótum síðan.

Ég er viss um, að ef það er rétt, að börnin hér í Reykjavík séu verri en börnin í stórlöndunum voru fyrir 30 árum síðan, þá er meira en lítið athugavert við það fyrirkomulag, sem hér er haft á þessu. En ef börnin í Reykjavík, sem fara í menntaskólann frá 13–18 ára aldri, ef þau eru ekki hafandi, nema með því að ganga inn um bakdyr, þá er ekki ástæða til þess að veita þeim yfirburðaréttindi í þjóðfélaginu. Ef till. hv. 1. þm. N.-M. verður samþ., þá tel ég, að hugsunarháttur Jóns Sigurðssonar sé ekki kominn í skólann og búinn að útrýma hugsunarhætti Alexanders Jóhannessonar.

Ég þarf svo ekki að sinni að snúa máli mínu meira að hv. 1. þm. N.-M., vildi aðeins bregða þessu upp fyrir honum, og kem ég nú að niðurlagi máls míns um þetta efni.

Ástæðan til þess, að þetta mál vakti töluverða eftirtekt, er, að menn fundu, að hér er í raun og veru um stefnumál að ræða. — Það skiptir ákaflega litlu máli í þessu efni, hvort fáeinum piltum í viðskiptaháskólanum er kennt í þessu eða hinu húsinu, en það, sem gerir það að verkum, að menn fylgjast með þessu máli, er, að hér eru átök um það, hvort sá andi, sem frelsishetjur okkar um 1840 byggðu á nýtt líf á Íslandi, hvort hann sigrar, eða hvort á að vera andlegur kotungsskapur, sem illa menntaðir menn halda fram, samhliða hugsjónum þess manns, sem lagði hinn stóra og víða grundvöll. Það er sama, á hvaða hlið litið er, það ber allt að sama brunni. Það er þá fyrst og fremst, hvort háskólinn og verzlunarmannafélagið geti átt samleið. Að því leyti er brtt. hv. 1. þm. N.-M. á sandi byggð, því að þótt hún verði samþykkt, þá getur enginn sagt um, hvort háskólinn sættir sig við þetta eða misnoti það ekki, þannig, að hann kæmi fram með ósanngirni við þá menn, sem þurfa að taka sérstakt inntökupróf. Það getur einnig vel verið, og mér þykir það trúlegt, að háskólinn vilji miklu heldur vera út af fyrir sig, en ekki vera að fá viðskiptaháskólann inn í. — En verði þessu skipulagi breytt, þá er sjálfsagt að gera það meðan mannfélagið vill það. En það er engum til bóta að þrýsta inn á þá mönnum, sem svo yrðu látnir sitja í öskustónni.

Það er ólíklegt, að upp úr þeim jarðvegi kæmi sá þroski, sem ætlazt er til hjá þeim mönnum, sem þetta hafa undirbúið.

Yfirleitt er viðskiptanám alveg aðskilið frá öðru námi í flestum löndum, eins og t. d. verkfræðinám. — T. d. er aðalviðskiptaháskóli Noregs í Bergen, og Kaupmannahafnarháskólinn er laus við viðskiptaháskóla.

Það lítur út fyrir, að þetta hafi farið fram hjá forgangsmönnum málsins, og ég hygg, að það sé vegna þess, að þeir hafa ekki vitað um þetta.

Mér finnst, að meðnefndarmenn mínir í menntmn. og aðrir hv. deildarmenn, þeir líti á þessa umr. eins og lítilfjörlega byrjun á miklu stærra máli, og hvernig það fer, skiptir engu verulegu í þessu efni. Átökin verða um þetta, hvort í framtíðinni eigi að meta menn hér á landi eftir þeirra verkum og eftir því, hvernig þeir standa sig, eða eftir vissum ytri titlum. —

Ég held, að sá skoðunarháttur, sem dæmir Alexander Jóhannesson, með sinn þýzka doktorstitil og íslenzku prófessorsnafnbótina, meiri mann en Jón Sigurðsson, sem ekki hafði embættispróf, og Jónas Hallgrímsson, sem ekki hafði heldur embættispróf, hann sé ekki byggður á heilbrigðum grundvelli. Ef mat manna fer eftir því, að t. d. Alexander Jóhannesson, með þessa, titla sína, sé skipaður hærra en hinir mennirnir, sem háskólinn hefur sérstaklega heiðrað, þá verð ég að segja, að það er nokkuð út af fyrir sig, en ef um er að ræða menn eins og t. d. Alexander Jóhannesson, sem í raun og veru er lítils metinn, þrátt fyrir þessa titla, þá er ekki til batnaðar fyrir háskólann að leggja á þessi innantómu orð, því að þá eru þeir komnir út í það, að fjöldinn allur af háskólamönnum eru undirtyllur með lágum launum og litlum trúnaði.

Það eru menn eins og einmitt Emil Nielsen, sem með sínum dugnaði skapa sér traust og tiltrúnað án tillits til þess, hvernig þeir hafa fengið álit sitt. — Þess vegna álít ég, að það sé mikils vert fyrir málið og þjóðina, að tekin sé sú dagskrá, sem ég flutti fram og flutt var af hv. þm. V.-Húnv. í Nd., því að það er eftir að velta því fyrir sér, hvernig þessi mál koma fyrir, og ég veit, að það líður að minnsta kosti eitt ár, án þess að menn geri ráðstafanir, sem þeir svo síðan sjá eftir að hafa verið of fljótir með.