13.05.1941
Efri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (2655)

85. mál, tollskrá

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Ég bið hv. 11. landsk. að afsaka það, að ég minntist ekki á brtt. hans. Það var lítið um hana rætt í n., en það var af því, að fyrir lá ógurlegur sægur af till., sem sjálfsagt hafa margar verið eins þarfar eins og þessi. En n. ákvað að taka ekki afstöðu til neinna af þeim. Ég er ekki byggingarfróður maður og get því lítið sagt um þessa till., en hér í 58. kafla er mikið af þessum flögum, fyrst úr steini, svo úr steinhellum í sambandi við önnur efni, sem hér er um að ræða. N. sá sér ekki fært að taka þetta út úr og lækka toll á því verulega, því að n. tók ekki afstöðu til þessara brtt. yfirleitt, um þær verða atkv. að skera úr. Út af ræðu hv. 11. landsk. vil ég aðeins segja Það, að ég veit ekki nógu greinilega, hvernig vísitalan er útreiknuð til þess, að ég þori að andmæla því, sem hann hafði eftir hagstofunni. En mér finnst það skrýtin reikningsaðferð, ef það hefur engin áhrif á vísitöluna, þó að tollur lækki á einni vörutegund um 23%. Ég tel sjálfsagt, að hagstofan hafi á réttu að standa, — en er það ekki einkennileg aðferð í reikningi, ef það kemur ekki fram, þó að ein vörutegund sé lækkuð um 23%? Ég hafði hugsað mér, að þetta mundi vera reiknað í stuðlum, þar sem stór vörutegund eins og sykurinn væri einn stuðullinn, og þykir mér þá einkennilegt, ef þessi lækkun hefði engin áhrif, þó að hún nægði ekki til þess að lækka alla heildina. Hæstv. fjmrh. sagði, að margt smátt gerði eitt stórt í þessum efnum. Það er því enginn vafi á því, að þessi lækkun, sem hér er gerð, hjálpar til þess að lækka þennan eina stuðul vísitölunnar, þó að það nægi kannske ekki til að lækka hana um eitt stig. Annars vil ég taka það fram, að ef á annað borð á að fara að gera þessa breyt., þá verður að gera hana verulega. Örsmáar breyt. geta verið hættulegar, af því að þær koma ekki fram nema að óverulegu leyti við ákvörðun tollsins. Það er því um að gera að hafa þessa breyt. verulega, til þess að hún hafi veruleg áhrif á verð vörunnar, svo sem sykurs og hveitis.