19.05.1941
Efri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (2681)

136. mál, ófriðartryggingar

Frsm. (Magnús Gíslason) :

Hæstv. atvrmh. hefur í ræðu sinni gert ýtarlega grein fyrir efni og innihaldi frv., undirbúningi málsins og hvað fyrir n. vakti, er hún ákvað að bera slíkt frv. fram hér á þingi. Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þá hlið málsins, en skal eingöngu ræðu um afstöðu allshn., sem um málið hefur fjallað, til frv. í heild og eins þeirra breyt., sem n. leggur til, að gerðar verði á frv.

Það var ekki lítið vandamál fyrir n. að mynda sér skoðun um þetta frv., vegna þess að hér er um algert nýmæli að ræða og ekkert hliðstætt dæmi til í okkar löggjöf. Það munu hafa verið sett slík ákvæði í löggjöf annarra þjóða nú í seinni tíð, m. a. í Svíþjóð og Finnlandi, en n. hafði ekki tök á að afla sér neinna gagna, sem upplýst gætu, hvernig slíkum tryggingum er þar fyrir komið. Hins vegar hafði n. tal af sérfróðum mönnum í tryggingarmálum, sem stj. hafði kvatt sér til aðstoðar til þess að undirbúa málið, og hefur fengið ýmsar skýringar hjá þeim mönnum um ákvæði, sem hún taldi mest orka tvímælis, og hefur þetta að vissu leyti létt störf n.

Það fyrsta, sem n. reyndi að gera sér grein fyrir, var það, hvort nauðsyn væri á að setja 1. eins og þessi. Komst hún brátt að þeirri niðurstöðu, að eins og horfir nú með stríðið, einkum í seinni tíð, og með því að annar stríðsaðilinn hefur talið sér nauðsynlegt að hertaka landið og fá hér aðstöðu til sóknar og varnar og hinn aðilinn hefur lýst hafið í kringum land okkar hernaðarsvæði, þá mætti búast við, að til átaka kynni að koma hér, þó að við vonum í lengstu lög, að slíkt komi ekki fyrir, en af því gæti leitt stórkostlegt tjón á eignum manna hér á landi. En þegar þetta er athugað, þá er um tvennt að velja, annaðhvort að láta þá, sem fyrir tjóninu verða, bíða það bótalaust eða setja löggjöf, sem gerði mönnum mögulegt að tryggja eignir sínar gegn tjóni vegna hernaðar, því að eins og kunnugt er, geta menn ekki fengið eignir sínar tryggðar gegn slíku tjóni nema að því er snertir skip. Þá var það, að stj. komst að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að dreifa þessari áhættu yfir á alla landsmenn, þannig að tjónið yrði ekki eins tilfinnanlegt fyrir hvern einstakling eins og annars mundi verða. N. hefur fallizt á, að þessi skilningur væri réttur. Það er útlit fyrir, að ef til slíks kæmi, gætu margir orðið öreigar af þeim ástæðum, og þá er líklegt, að veðskuldir, sem hvíldu á eignum manna, sem þannig glötuðust, yrðu lítils virði, og gæti af því leitt stórfellt tjón fyrir banka og aðrar lánsstofnanir í landinu, sem kæmi svo óbeint niður á landsmönnum aftur, og það mundi hafa í för með sér, ef um mikið tjón væri að ræða, svo mikla truflun á fjárhagslegu lífi landsmanna, að til stórkostlegra óþæginda og til stórkostlegs almenns tjóns gæti leitt. Fyrir því hefur n. fallizt á, að þessi meginhugsun sé rétt. Vill hún því láta frv. ganga fram með þeim breyt., sem hún leggur til, að gerðar verði við það. Þó eru fleiri atriði í frv., sem henni virtist orka tvímælis, hvort rétt væri að láta standa óbreytt í frv., svo sem 4. gr., sem n. hefur ekki borið fram brtt. við, en hún er um það, að landið skuli vera allt eitt tryggingarsvæði; en ráðuneytið ákveða með reglugerð eða auglýsingu skiptingu fasteignanna í áhættuflokka með mismunandi iðgjöldum. Sú hugsun gæti líka verið rökrétt og afleiðing af þeirri stefnu, að allir landsmenn skuli taka þátt í að bæta tjónið, að iðgjöldin skuli vera þau sömu um allt land. Það má segja, að áhættan sé mismunandi á landinu, og því verður ekki neitað, að hún virðist vera mest þar, sem sá styrjaldaraðili, sem hefur fótfestu í landinu, hefur viðbúnað, en ef um innrás í landið yrði að ræða, er ómögulegt að vita, hvar tjónið yrði mest. N. hefur samt ekki hróflað við þessu ákvæði, en telur sjálfsagt, að ríkisstj. hafi athugað þetta vel og talið sanngjarnt, að áhættan væri ekki alls staðar jöfn, hvar sem er á landinu.

Þá vil ég minnast á 23. gr. frv., sem n. hefur ekki heldur gert brtt. við, en var allrækilega rætt um í n. Þessi gr. er um það, að ef svo stórkostlegt tjón verður, að ekki er hægt eða eigi þykir fært að bæta það að fullu samkv. fyrirmælum 20. gr., þá skuli það bætt að því, sem á vantar, úr ríkissjóði, eftir því sem fé verður veitt til þess í fjárlögum.

Það, sem n. þótti einna varhugaverðast við þessa gr. frv., var það, að hér er tekin á ríkissjóð ótiltekin ábyrgð á að greiða allt það tjón, sem ekki verður bætt á þann hátt, er ég gat um áðan, og að það kunni að verða um svo mikið tjón að ræða, að þetta yrði e. t. v. ókleift eða a. m. k. örðugt fyrir ríkissjóð að inna af hendi. N. hefur ekki enn borið fram brtt. á þessari gr., en hefur haft til athugunar að bera fram brtt. við 3. umr., og mun þá fara í þá átt, að þetta stæði opið eða óafgert í þessum 1., en síðar kveðið á með 1., hvort eða hvenær slíkt yrði bætt og að hve miklu leyti.

Þær till., sem hér eru skráðar á þskj. 537, eru í raun og veru allar, nema tvær, þ. e. till. undir 8. og 10. lið, orðabreyt. eða breyt., sem raska ekki neitt verulega efni frv., og skal ég ekki rekja það nánar. Fyrsta brtt. er við 6. gr., að 1. málsgr. verði felld niður. Stafar það af því, að sams konar ákvæði er í kaflanum um almenn ákvæði, 6. kafla, og einnig í 24. gr., í kaflanum um lausafjártrygging, sem er óþarft að standi víðar en á einum stað. Þess vegna hefur n. lagt til, að þetta verði fellt niður úr 6. gr. og 2. málsgr. 20. gr. verði einnig felld niður.

Næsta brtt. er við 7. gr. og er aðeins orðabreyt. Upphaf gr. hljóðar svo í frv.: „Bætur, vextir og afborganir samkv. 6. gr.“ o. s. frv., en n. leggur til, að á eftir orðinu „bætur“ komi: þar með taldir vextir og afborganir, — því að það er auðvitað hluti af bótunum.

3. brtt. er við 9. gr., að á eftir orðunum „Ráðuneytið ákveður“ í 5. lið 2. málsgr. komi: að fengnum till. tryggingarsjóðs. — Þ. e. a. s., að ráðuneytið ákveður, hverjar bætur skuli greiddar, en þó ekki upp á sitt eindæmi. Þótti n. þetta réttara, með því að það getur haft verulega fjárhagslega þýðingu fyrir þá, sem verða fyrir tjóni, hvort eitthvað eða ekkert verður dregið af bótum, þegar mannvirki verða ekki endurreist.

Á 10. gr. vill n. gera þá breyt., að í staðinn fyrir orðin „eða fullnægjandi tryggingar“ komi: enda sé réttur veðhafa að fullu tryggður. — Frv. gerir ráð fyrir, að ef einhverjar upplýstar kröfur hvíla á fasteign, sem orðið hefur fyrir tjóni, skuli eigandanum greiða bætur, og enda þótt þinglýstar veðskuldir séu, ef eignin er endurreist eða fullnægjandi tryggingar hafa verið settar fyrir kröfum. Þessu vill n. breyta. Ég hygg, að fyrir þeim, sem sömdu frv., og n. vaki sama hugsun, að þótt heimilað sé að greiða ekki út bætur, sé ekki meiningin, að veðhafi eigi ekki samt sem áður að vera tryggður að fá sínar veðkröfur greiddar. En það verður skýrara og ákveðnara að taka upp orðalag n. í þessari brtt.

5. brtt. fer í þá átt, að 12. gr., um tilkynningu á ófriðartjóni, falli niður. Sams konar ákvæði er einnig sett í 21. gr. frv. að því er snertir lausafjártryggingu. Þessi ákvæði, sem eru almenns eðlis, er réttara að hafa í almennum kafla heldur en á tveimur stöðum hér inni í sjálfu frv. Leggur n. til, að þessi ákvæði 12. og 21. gr. verði tekin upp í önnur ákvæði. Þá hefur n. lagt til, að fyrirsögn IV. kafla. „Vörubirgðatryggingin“, verði: Lausafjártryggingin, — af því að vörubirgðir eru auðvitað lausafé og kaflanum er ætlað að ná til tryggingar á öllu lausafé í landinu, bæði vörubirgðum og öðru.

Við 18. gr. hefur n. viljað gera 2 brtt. Gr. heimilar ríkisstj. að leggja aukaverðtoll á allar íslenzkar vörur, til þess að bæta ófriðartjón, sem verða kann á vörubirgðum eða öðru lausafé í landinu, sem ekki telst til véla og tækja samkv. III. kafla, eins og stendur í frv. En í III. kafla er gert ráð fyrir, að vélar og tæki, sem ekki eru 2 þús. kr. virði, verði ekki tryggt sem þar segir. En þá verður að ganga út frá, að meiningin sé, að slíkar vélar og tæki, eins og hvert annað lausafé, verði tryggt eins og samkv. IV. kafla frv. Og til þess að taka af öll tvímæli um þetta, vill n. breyta orðalaginu þannig: sem ekki er tryggt samkv. III. kafla þessara 1.

Í sömu gr. er brtt. um það, að í staðinn fyrir orðið „aukaverðtollur“ skuli koma: aukagjald. — Segja mætti, að það væri sama, hvað gjaldið er kallað. En það er alveg víst eftir grg. frv.; að ætlazt er til, að þetta 2% gjald sé lagt á allar þessar vörur, sem til landsins flytjast. En nú eru allmargar vörutegundir, sem enginn verðtollur er greiddur af, og gæti því orðið „aukaverðtollur“ misskilizt.

Þá kemur breyt. við 24. gr., sem er veruleg efnisbreyt. Frv. gerir ráð fyrir, að frá matsupphæð tjónsins á vörubirgðum og lausafé skuli ávallt dreginn einn fjórði hluti, þó svo, að frádrátturinn nemi eigi hærri upphæð en 5 þús. kr. hjá sama manni eða fyrirtæki, þannig að af öllu lausafé upp í 20 þús. kr. virði skuli dregið frá allt að 5 þús. kr., en af því, sem þar er fyrir ofan, skuli ekkert dregið frá. N, þótti ekki rétt að láta þetta ákvæði haldast, m. a. fyrir þá sök, að oft mundi erfitt að fá úr því skorið, hvert hið raunverulega tjón væri, sem maður hefði orðið fyrir við það, að slík eign hefði skemmzt eða eyðilagzt. En n. þótti fullviðurhlutamikið gagnvart smærri verzlunarfyrirtækjum í landinu, ef þessi regla gilti um vörubirgðir, með því að tjón gæti orðið mjög tilfinnanlegt fyrir mann, sem ætti aðeins 20 þús. kr. í vörubirgðum eða minna og fengi ekki bætt nema að þrem fjórðu hlutum. Auk þess, sem það er vitanlega fullkomið misrétti í því, að vörubirgðir, sem eru miklu verðmætari, t. d. 140 þús. eða ein milljón, skuli samt vera bættar að fullu.

Þá er eftir að minnast á brtt. við 22. gr., sem mér skildist á hæstv. ráðh., að hann gæti engan veginn fellt sig við. Till. er allvíðtæk. Í frv. er gert ráð fyrir, að tjón á „öðrum lausafjármunum en vörubirgðum“ skyldi að jafnaði ekki bætt nema að hálfu; m. ö. o., tjón á vörubirgðum skyldi bætt að fullu strax eftir að uppgerð hefur farið fram. N. fannst þetta í of mikið ráðizt um almenna skyldu ófriðartrygginga. Í frv. er gert ráð fyrir því, að það gjald, sem á að notast til að bæta þetta tjón, verði ekki innheimt fyrr en tjónið er orðið. Það hlýtur því að fara svo, þegar Ófriðartryggingin tekur til starfa, að hún hefur sáralítið fé fyrir hendi að greiða nokkurt tjón. Ef ætti þá að fara eftir þessum fyrirmælum frv., yrði að taka lán til þess. Það gæti orðið þegar í byrjun svo stórfellt tjón, að erfitt yrði að fá lán, sem nægði. Gæti því þetta ákvæði, að dómi n., orðið óframkvæmanlegt í fyrstu, eða þangað til liðinn væri svo langur tími, að nokkurt verulegt fé hefði safnazt af inn- og útflutningsgjöldum. Auk þess sýnist það ekki vera í öllum tilfellum nauðsynlegt að bæta tjón að fullu þegar í stað. Í fyrsta lagi má gera ráð fyrir því, að banki, sem hefur lánað út á þessar vörubirgðir, þurfi ekki að fá þetta greitt þá þegar. Það er gert ráð fyrir því í frv., sem við hofum tekið óbreytt upp í till., að veittur sé gjaldfrestur með þær skuldir, sem hvíla á vörubirgðum. Og það sýnist ekki ástæða fyrir Ófriðartrygginguna að bæta það þegar, a. m. k. er gert ráð fyrir því í frv., að bankanum verði veittur slíkur gjaldfrestur. Í öðru lagi má ganga

út frá því, að til séu svo efnum búnir menn, að þeir þurfi ekki að bíða verulega stórfellt tjón fjárhagslega við það að geta ekki fengið tjón sitt bætt þegar í stað. Það, sem ég hygg, að vakað hafi fyrir þeim, sem frv. sömdu, og kom fram í viðtali við þá menn, sem n. ræddi þetta. við, var það, að það, gæti orðið svo erfitt að fá vörubirgðir í skarðið frá útlöndum, og væri því nauðsyn að greiða bætur þegar í stað. Og það eru vissulega mikil rök í þessu fólgin. En við gerum líka ráð fyrir því, að þetta tjón megi bæta fyllilega, sérstaklega þegar svo stendur á, að ekki er hægt að fá vörur í skarðið nema tjónbætur séu allar greiddar þegar í stað. Ég held nú, að mismunur á frv. og till. sé ekki eins ýkjamikill eins og í fljótu bragði kann að virðast, vegna þess að heimildin er alltaf fyrir hendi, ef tryggingin er á annað borð fær um það. En viðvíkjandi innlendu vörubirgðunum vil ég taka fram, að þetta ákvæði á einnig að ná til þeirra. Það er ekki víst, að nauðsynlegt sé að bæta þessar birgðir í krónutali þá þegar. En það þarf að vera alveg tryggt, að framleiðendur fái svo mikið greitt, að þeir geti haldið atvinnurekstri sínum áfram óhindrað.

Loks er hér 11. brtt., sem ég hef minnzt á, ákvæðið, sem á að koma í almennum kafla, en var á tveimur stöðum í frv.

Ég vil svo ekki fjölyrða um málið, en vænti þess, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, því að það er álit n., að það sé nauðsynlegt mál og eigi að vera í sem líkustu formi og n. hefur lagt til.