10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (2719)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Áður en Alþingi, sem nú situr, hófst, átti Alþýðublaðið stutt viðtal við mig um aðalmál Alþingis. Ég lýsti þá yfir því, að ég teldi eitt af aðalmálum þingsins að koma í veg fyrir, að dýrtíðin yxi og, ef unnt væri, að koma því til leiðar, að hún stöðvaðist algerlega, en verðlag í landinu jafnaðist, til þess að þegar hallaði undan fæti síðar yrði brekkan ekki eins brött upp að klífa fyrir atvinnuvegina.

Snemma á árinu 1939 var eins og hv. þm. er kunnugt, gengi íslenzkrar krónu lækkað með löggjöf. Samtímis voru gerðar ráðstafanir til að hafa hemil á verðlagi á íslenzkum framleiðsluvörum og á kaupgjaldi í landinu. Á Alþ. 1940 var þessari löggjöf breytt nokkuð, þó á þann veg, að kaupgjaldið var bundið og mátti ekki hækka yfir vissa hundraðstölu af auknum framfærslukostnaði, en það ákvæði, að verðlag á íslenzkum framleiðsluvörum skyldi fylgja kaupgjaldinu, var numið í burtu. Afleiðingin varð sú, eins og allir vita, að á árinu 1940 hækkuðu þessar vörur mjög verulega í verði, ekki eftir neinum sérstökum reglum, sem bundnar væru við kaupgjaldið, en kaupgjaldið fór eftir ákveðnum reglum í löggjöfinni, sem giltu til ársloka 1940.

Strax þegar þetta misræmi komst á milli kaupgjaldsins annars vegar og verðlags ísl. framleiðsluvaranna hins vegar, kom upp sú alda, að kaupgjaldinu yrði ekki haldið niðri samtímis því, sem unnt væri að hækka verð á þessum framleiðsluvörum eftir geðþótta. Um áramótin 1940–1941 gengu úr gildi þau ákvæði 1. um gengisskráningu, er náðu til kaupgjaldsins. Upp úr því voru gerðir kaupgjaldssamningar, um land allt með frjálsu móti, þar sem þeirri meginreglu var fylgt, að kaupgjald skyldi hækka í samræmi við vaxandi dýrtíð. Þar sem kaupgjaldið var mjög lágt fyrir, urðu nokkrar hækkanir einnig á grunnkaupi. Þó varð engin breyting á grunntaxta í Hafnarfirði eða Reykjavík, en þar giltu þau ákvæði, að kaupið skyldi hækka mánaðarlega eftir verðlagsvísitölu.

Um þetta leyti reið á vaðið Landsbanki Íslands um að hækka kaup hjá mönnum í þjónustu bankans í samræmi við þau kjör, er launastéttirnar fengu með samningum. Í bankaráði eiga sæti formenn tveggja stærstu þingflokkanna, þeir hæstv. atvmrh. (ÓTh) og hv. þm. S.-Þ. (JJ), og stóðu þeir að þessari fyrstu hækkun. (Atvmrh.: Ég var ekki á fundi, þegar þetta var samþ., en flokksbróðir hæstv. félmrh., Jónas Guðmundsson, var viðstaddur og greiddi atkv. með hækkuninni). Ég tek orð hæstv. ráðh. trúanleg, að hann hafi ekki verið á þessum fundi, en hitt veit ég, að hann á sæti í bankaráði Landsbankans ásamt hv. þm. S.-Þ. og hefur eflaust verið kunnugt um þessa ákvörðun þess, en annars var ég ekki að geta þessa hæstv. ráðh. til lasts, síður en svo.

Upp úr því myndast föst regla um að laun þegar almennt fái uppbætta mánaðarlega vaxandi dýrtíð, og var það viturlega gert.

Starfsbræður mínir í ríkisstj. eru mér kannske ekki sammála, en ég hygg, að þetta hafi orðið til þess, að ríkisstjórnin og löggjafarvaldið fara nú að líta í kringum sig, hvaða ráðstafanir megi gera til þess að halda niðri dýrtíðinni í landinu.

Ég gat þess í upphafi orða minna, að ég hafi sagt við Alþýðublaðið áður en þetta þing hófst, að það bæri að taka til vendilegrar athugunar, hvaða ráðstafanir Alþingi ætti að gera til þess að koma í veg fyrir, að dýrtíðin yxi óhæfilega. Þetta er meining allrar ríkisstj. og hefur hún oft rætt þetta mál. Það má líka segja, að allir stuðningsflokkar stjórnarinnar hafi verið á einu máli um, að brýn þörf væri aðgerða í þessu skyni og að þetta væri atriði, sem snerti ekki einungis þann tíma, sem nú er að líða, heldur engu síður framtíðina, þegar aftur hallaði undan fæti og atvinnureksturinn gæti ekki eins vel borið sig og áður. Þetta væri því sameiginlegt hagsmunamál atvinnurekenda og launþega.

Grundvöllurinn fyrir þessu máli er því vissulega sá, að allir vildu, að ráðstafanir væru gerðar í ákveðna átt, til þess að hamla á móti dýrtíðinni, og það þurfti ekki að leiða til þess, að allir væru sammála um leiðina að því marki. En af þessu, sem ég nú hef sagt, leiðir, að aðalatriði þessa máls, sem hér liggur fyrir í frumvarpsformi, er að gera ráðstafanir til þess, að verðlag á nauðsynjavörum almennings hækki ekki frá því, sem nú er. — Þetta er aðalatriðið, og að því ber að keppa. Nú hefur hæstv. viðskmrh. lýst yfir því, að þetta mál hafi verið mikið rætt innan ríkisstj. og að árangurinn af þeim umræðum — ef árangur skyldi kalla — væri frv. það, sem hér liggur fyrir.

Hann lýsti jafnframt yfir því, sem og rétt er, að hann hafi sent frv. til n. til þess að koma því á framfæri, og gerði þá grein fyrir málinu í bréfi til nefndarinnar og einnig í ræðu sinni, að um þetta mál væri ekki enn fullkomið samkomulag milli flokkanna, en hann hefði valið þá leið, sem hann teldi geta orðið grundvöll til þess að skapa samkomulag á Alþingi um lausn málsins. Ég legg engan dóm á það, hvort frv. er líklegt til þess að verða grundvöllur fyrir samkomulagi um málið.

Þess er getið í grg. frv. á þskj. 703, að það sé aðaltilgangur frv. að ná því marki, að verð á nauðsynjavörum hækki ekki. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það verður því að gera allt, sem unnt er, til þess að halda útsöluverði innlendrar og erlendrar nauðsynjavöru til neytenda sem stöðugustu og koma í veg fyrir, að þær hækki til neytenda, jafnvel þótt innflutningsgjald erlendrar vörn hækki og innlendir framleiðendur þurfi að fá hærra verð fyrir afurðir sínar.“ Hér er í grg. gripið á höfuðatriði málsins. En því miður er ekkert í frv. sjálfu, sem sé rökrétt afleiðing af því atriði grg., sem ég nú hef lesið, að reyna að tryggja, að verðlag á íslenzkum framleiðsluvörum hækki ekki. Það má segja, að það sé ekkert í frv., sem sé á þann veg, að Alþingi og landsmenn geti verið öruggir um, að með samþykkt frv. náist það mark, sem að er keppt.

Og þá er ég kominn að höfuðgalla frv.: Það eru engin sérstök ákvæði í frv., sem tryggja það, að verðlag á íslenzkum framleiðsluvörum og jafnvel verðlag á aðfluttum vörum hækki ekki. Um aðfluttar vörur gilda þau lög, að setja má hámarksverð á útsöluverð þeirra, og hér er starfandi verðlagsnefnd, sem nokkuð hefur neytt þeirrar heimildar, sem í þeim lögum felst, en mörgum virðist, að framkvæmd þessara laga sé ekki jafnröggsamleg og efni stóðu til.

Hér er, eins og nú standa sakir, óvenjuleg velmegun meginhluta þjóðarinnar, og menn spyrja þá ef til vill ekki svo mjög, hvað nauðsynjavaran kosti, heldur hvort hún sé fáanleg. Þegar svo er, er eðlilegt, að eftirlit af hálfu þess opinbera geti slappazt, þar sem ekki kemur nein alda frá neytendum því til styrktar. Nú skortir ekki heimild í þessu skyni hvað snertir verðlag á aðfluttum vörum, og er því aðalatriðið, að því verði beitt sem skeleggast og af sem fullkomnustum skilningi. Vænti ég, að svo verði gert í framtíðinni. Þó hefur nokkuð skort á, að fullkomin yrði framkvæmd um þetta mál, þar sem ekki hefur verið heimild til að setja undir sérstaka verðákvörðun farmgjöld á aðfluttum vörum. Með frv. er lagt til, að svo verði gert.

Hvað verðlag á íslenzkum framleiðsluvörum snertir er það svo, að það hlítir ákvörðun vissra nefnda, sem starfa skv. gildandi lögum þar um. Þessar nefndir eru þannig skipaðar, að búast mætti við, að meiri hluti þeirra hefði tilhneigingu til að haga verðlaginu á þann veg, að þeir, sem vörurnar framleiða, bændurnir, hefðu sem mestan hagnað, án umhugsunar um neytendur yfirleitt.

Ekkert ákvæði er í frv., sem tryggi það, að verðlag á íslenzkum afurðum haldist stöðugt eða hækki ekki frá því, sem nú er á íslenzkum markaði. Ég verð að segja, að hvað þetta snertir hefur frv. verulega hrakað frá því, sem það var eins og 6 manna þingnefndin, sem um þetta mál fjallaði af mikilli árvekni, gekk frá því. Þessi n. starfaði í eina viku og kom sínum hugmyndum á framfæri við ríkisstjórnina, og gripu margar þær till. meira á höfuðatriði þessa máls en frv. gerir, sem nú liggur fyrir. — Í þessum till. var gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hefði lokavaldið um ákvörðun verðlags á ísl. afurðum. Þar var gerð tilraun til að færa málið í það horf, að sú stjórn, sem fara ætti með framkvæmd þessa máls, hefði það í sínum höndum og bæri á því fulla pólitíska ábyrgð gagnvart þingi og þjóð, en ákvörðunarvaldið yrði tekið úr höndum þeirra nefnda, sem enga pólitíska ábyrgð bera á því gagnvart alþjóð manna.

Þó að ég teldi, að unnt væri að koma þessu enn betur fyrir, var hér um merkilega tilraun að ræða.

Þó að ríkisstjórnin væri einhuga um að gera öruggar ráðstafanir gagnvart verðhækkun íslenzkra afurða, þá hefur hún samt ekki samkv. frv. fullt vald til þess. Það, sem skortir í þessu máli og er mjög stórt atriði, er, að ríkisstj. eða annar valdhafi í landinu, sem er sambærilegur við ríkisstj. á þessu sviði, hafi þetta í sínum höndum, og ákveði verðlag landbúnaðarafurða til almenningsþarfa í landinu sjálfu. Þetta er frá mínu sjónarmiði höfuðgallinn á frv. ef þétta verður látið óbreytt, opið og óráðið af hálfu ríkisvaldsins. Ef í málinu næðist samkomulag, sem tryggt gæti, að þetta vald væri í höndum manna, sem bera pólitíska ábyrgð gagnvart alþjóð, eða að verðlagið verði tryggt með lögum, svo það hækki ekki, því öryggi landsmanna felst í að halda því niðri, og að þessu marki eiga allir að stefna, — þá teldi ég náð mikilsverðu grundvallaratriði til þess að halda niðri verðbólgu í landinú. Þetta finnst mér skorta í frv., og vænti þess, að þessu verði breytt til bóta áður en frv. fer í gegnum þingið. Ef samkomulag næðist um það, þá þyrfti til þess allmikla fjárfúlgu til framleiðsluverðlauna og annarra ráðstafana í svipaða átt, og þá er ég kominn að því atriði, á hvern hátt sé bezt að afla fjár í þessu skyni.

Í frv. er bent á þrjár leiðir. Fyrsta leiðin er, að ríkisstj. sé heimilað að verja ákveðinni fjárupphæð af tekjum ríkissjóðs til þessara þarfa. Í öðru lagi, að ríkisstj. sé heimilað að leggja sérstakt útflutningsgjald á íslenzkar afurðir, sem fluttar eru úr landinu. Í þriðja lagi með því að leggja skatta á hreinar tekjur ársins 1940.

Fyrir réttum mánuði síðan afgreiddi hv. Alþ. skattalöggjöf, sem var ávöxtur af samkomulagi milli flokka þeirra, er að ríkisstj. standa. Að vísu voru menn ekki alls kostar ánægðir með frv., en samkomulag tókst þó eftir nána yfirvegun af ríkisstj., Alþ. og n. þeim, er með málið höfðu að gera. Þá var lagður grundvöllur að skattalöggjöfinni, og sýnist næsta óeðlilegt og óviðeigandi, að þeim grundvelli væri breytt eftir aðeins einn mánuð. Grundvallarröskun á þessu samkomulagi á sér engan rétt, nema aðstæður væru gerbreyttar, eða aðrar stefnur í skattamálum væru ráðandi á Alþingi, og þá eðlilegast eftir nýjar kosningar. Af þessu leiðir, að mjög yrði óeðlilegt, ef sama Alþ., sem setti þessa löggjöf, færi að umturna henni mánuði síðar. Ef brýna nauðsyn ber til þess, þá er það neyðarúrræði, sem er lítið skemmtilegt fyrir alla, sem hlut eiga að máli.

Nú er það svo, að tekjur ríkissjóðs eru óvenjulega góðar. Um framtíðina fær enginn spáð, því að hún er hulin meiri þoku en nokkru sinni fyrr. Þó er varla hægt að slá því föstu, að nánasta framtíð verði verri, þó ekki sé heldur hægt með nokkurri vissu að spá fram í tímann. Í þeirri skattalöggjöf, sem nýlega var samþ., voru sett ákvæði um stríðsgróðaskatt, sem er mjög eðlilegur skattur. Í hlut ýmissa stétta hefur fallið gróði. Það má segja, að utanaðkomandi áhrif hafi hrúgað auðnum á vissar stéttir; því er hið eðlilegasta og sjálfsagðasta, að hluti af þessum gróða renni í almenningsþarfir. Þennan skatt á að nota til að koma á jafnvægi í verðlagi hér, og sex manna nefndin hafði opin augu fyrir því og benti á þetta atriði í till. sínum. Búast má við, að tekjuafgangur verði hjá ríkissjóði á yfirstandandi ári, og því er það sanngjarnt að nota þær tekjur ríkissjóðs, sem ekki verða notaðar til lögbundinna útgjalda, til að halda niðri verðlaginu og stemma stigu fyrir hinni geysilegu verðbólgu, sem nú á sér stað.

En ef þetta fé reynist nú ekki nægilegt, hvar á þá að fá fé til viðbótar? — Við vitum ekki, hvort þetta muni vera nægilegt, og hæstv. fjmrh. gæti að öllum líkindum ekki gefið upplýsingar um það, enda þótt hann hafi manna bezt yfirlit yfir það, hversu mikið fé væri handbært úr ríkissjóði í þessu skyni.

Heimildin, sem talað er um í frv., er 5 milljónir kr. Eru 5 millj. nóg? Um það er ekki hægt að segja. Órannsakað er að miklu leyti, hvað mikið þyrfti til að halda nauðsynjavörum niðri. Greinagóðir merin hafa látið í ljós það álit, að til þess að stöðva verðbólguna, þyrfti að verja fé til verðuppbóta á mjólk og kjöt, sem selt er í landinu, að afnema toll á kornvörum og að hálfu leyti af sykri, og síðan þyrfti að greiða til skipafélaganna fé, til að halda við óbreyttum farmgjöldum á nauðsynjavörum til landsins. — Áætlað var af þessum mönnum, að framangreindar ráðstafanir mundu kosta rúmlega 6 millj. kr., eða dálítið meira en heimild ríkisstjórnarinnar er ákveðin til ráðstöfunar á fé úr ríkissjóði samkv. 3. gr. frv. Vegna þess þarf ríkisstjórnin væntanlega að fá rýmri heimildir til tekjuöflunar og fjárframlaga, og þá er komið að því, á hvaða hátt hún geti aflað fjár til viðbótar. Í frv. var minnzt á tvær leiðir. Í fyrsta lagi útflutningsgjaldið, sem áður hefur verið drepið á, og í öðru lagi með því að leggja skatt á nettótekjur. Hvað útflutningsgjaldið snertir, þá er það gamalt mál, sem hefur verið rætt fyrr bæði á Alþingi og einnig á opinberum vettvangi, og tel ég eðlilegt, að þeirrar leiðar verði leitað. Verðlag á mörgum útfluttum afurðum hefur verið á árunum 1939, 1940 og það, sem af er árinu 1941, mjög hátt, svo ástæða er því fyrir hendi til að leggja útflutningsgjald á þessar vörur. Framtíðin er mjög óviss eins og stendur, en hv. þm. vita, að nú standa yfir samningar milli íslenzku og brezku ríkisstj. um sölu sjávarafurða í Bretlandi. Um þessa samninga er ekkert hægt að segja að svo komnu máli, en ég tel ekki ástæðu til að örvænta og vona, að verðlag á útfluttum vörum verði þannig, að ástæða sé til að nota útflutningsgjald að allverulegu leyti. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. fallist á að veita ríkisstj. heimild til að leggja á útflutningsgjöld, en vera má, að ágreiningur verði um það, á hvern hátt beri að leggja á þessi gjöld, á hvaða vörutegundir og hversu hátt á hverja fyrir sig. Aftur á móti gæti komið til mála, að ekki væri hægt að leggja útflutningsgjald á. sumar íslenzkar afurðir, t. d. íslenzkt kjöt, sem selt yrði á brezkum markaði, því að verðlag á því gæti orðið svo, að útflutningsgjald yrði útilokað. Enn fremur eru fullar líkur til þess, að sumar sjávarafurðir þoli ekkert útflutningsgjald, t. d. niðursuðuvörur, fiskiflök og sumar síldaraf- urðir. Á sumar þessar vörur þyrfti ef til vill, í stað þess að leggja gjald á þær, að greiða á þær verðuppbætur, og þyrfti þess vegna að hafa handbært fé í þessu skyni. — En ég er því fylgjandi, að ríkisstj. hafi fulla heimild í þessu atriði, en gætti þess um leið, að útflutningsgjaldið yrði sem réttlátast.

Þá er það þriðja leiðin til tekjuöflunar, nefnilega skattaleiðin. Ég tel það mjög skynsamlegt hjá sex manna nefndinni, að taka fram, að fyrst skuli nota fé úr ríkissjóði vegna aukinna tekna hans. Í öðru lagi, ef það nægði ekki, að grípa þá til útflutningsgjaldsins á þann hátt, sem sanngjarnt teldist, og ef það yrði ekki nægilegt, þá væri spurning um, hvort ekki beri að leita fjár með sköttum. Ég tel ekki alveg útilokað, að það, yrði gert, en þó þannig, að fjárins væri aflað réttlátlega. Þó er það neyðarúrræði að þurfa að fara að breyta skattalöggjöfinni svona fljótt, enda þótt allt stæði nú ljósar fyrir augum manna en þegar þessi löggjöf var sett fyrir mánuði síðan. Það hefur verið talað um launaskatt. Ég tel það hina mestu fjarstæðu, því þá yrðu teknar út úr vissar stéttir þjóðfélagsins, en öðrum sleppt, og í því felst hið mesta óréttlæti. Launastéttirnar hafa ekki fengið neinn stríðsgróða. Fastlaunamennirnir fá ekki meira en áður, — þeirra grunnlaun hafa ekki hækkað, en þeir hafa fengið dýrtíðaruppbót vegna stríðsins, og mér er óhætt að fullyrða, að sú uppbót sé ekki svo há, að þeir standi jafnvel að vígi og áður. Einhleypir launamenn bera kannske meira úr býtum með uppbótinni, en ég fullyrði, að fjölskyldumenn fá ekki borið uppi dýrtíðina. Nú er fjöldinn allur fastlaunamanna, sem eru illa launaðir, t. d. barnakennarar og ýmsir innan verzlunarstéttarinnar, og ef fara á að leggja skatt á það fólk vegna stríðsgróða, þá er það að fara aftan að siðunum. Það er að níðast á fólki, sem var áður illa statt, og er jafnvel enn verr statt nú. Ég vil því slá föstu, að launaskatturinn er hin ranglátasta leið til tekjuöflunar. Hann kemur með ofurþunga á mikinn hluta launastéttanna, sem ekki geta borið uppi skattinn.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að skattar væru nú mjög lágir. Þeir eiga líka að vera lágir. Beinir skattar hafa verið háir hér á Íslandi undanfarin ár, enda hefur verið erfitt að afla fjár til almenningsþarfa. Við þessu er ekkert að segja, þegar þannig árar, að annað er ekki mögulegt.

Í sambandi við aukna beina skatta af tekjum manna hefur það verið flutt fram til stuðnings, að margar stéttir hafi fengið sérstakan gróða af stríðsástæðum, og fyrir þessar sakir sé sérstakt góðæri í landinu. Menn gera sér ekki grein fyrir, hve aðstaða stéttanna til að hagnast á þessarar tegundar góðæri er geysilega mismunandi. Hjá vissum vörumiðlunarstéttum og iðnrekendum í landinu hefur orðið mikill gróði, og þeir, sem framleitt hafa og selt á brezkum markaði ísfisk og fleiri sjávarafurðir, hafa hagnazt vel. Það er gott. Þessar stéttir þola þá mestan þungann. Hins vegar eru launastéttirnar. Þær bera nokkru meira úr býtum en stundum áður, og þó takmarkað. Sumt lausavinnufólk hefur borið nokkuð meira úr býtum vegna óvenju mikillar vinnu, einkum í sambandi við verklegar framkvæmdir brezka setuliðsins, — í hinni svonefndu Bretavinnu. Og menn verða að gæta þess, þegar þeir sjá ofsjónum yfir, að vinnandi menn hafi nóga atvinnu og menn streymi að þeirri atvinnu austan úr Rangárvallasýslu, ofan úr Borgarfirði og allt norðan úr Skagafirði og hafi gott kaup, að því fer fjarri, að þeim sé tryggð atvinna til langframa. Þeir, sem hafa haft mestar tekjurnar, hafa unnið helga daga jafnt sem virka og oftast langan vinnutíma. Og get ég ekki skilið, hví menn þurfa að telja eftir, að þeir njóta þarna um takmarkaðan tíma þeirrar atvinnu, sem þá hefur löngum skort á undanförnum árum, og noti kaupið til að rétta sig úr kútnum. Það er þröngsýni að einblína á það eitt, að þarna komi inn nokkrar krónur, sem klófesta megi með þessum skatti. Uppbót þessara láglaunamanna fyrir árin öll, síðan kreppan hófst, er ekkert um of. Það er kunnugt, að margir fjölskyldumenn hafa orðið að safna skuldum, eftir því sem lánstraust leyfði, hafa ekki getað haldið við húsbúnaði sínum, fötum heimilisfólks né staðið í skilum án mikilla örðugleika með afborganir húskofa síns eða. íbúðar, sem þeir hafa ráðizt í að kaupa. Aðkomumenn, sem hér hafa vinnu, eiga ekki síður þörf fyrir sína peninga. Ég þarf ekki að rekja dæmi um þetta. Ekki þarf mjög að fjölyrða um þann augnabliksgróða, sem vissar stéttir í námunda við Bretavinnuna hafa fengið. Það er á hinn bóginn satt, að sjómenn á bátum hafa haft góðar tekjur. En þeir hafa verið niðri við sultarmark mikinn hluta síðasta áratugs, og nú, er þeir hagnast, kemur ríkisvaldið með sinn hramm að taka þessa aura, sem þeim áskotnast.

Ég hef sagt, að það sé athugavert, hvernig hækka mætti beina skatta. Þó þætti mér það sæma því Alþingi bezt, sem eytt hefur 4 vikum eða meira af þingtímanum til að semja og setja nýjar og betri reglur en áður um skattlagning, að það færi ekki nú þegar að gerbreyta þeim grundvelli og leggja á tekjuskatt, sem þverbrýtur bæði orð og anda laganna um tekju- og eignarskatt. Mig furðar þess vegna satt að segja á því, að ábyrgir menn skuli láta leiðast til að koma fram með sumt, sem er í þessu frv. Hinn nýi skattstigi var samningsmál milli flokka og samþykktur, að ég held, mótatkvæðalaust. Það má því fullyrða, að Alþingi sé sammála um þann grundvöll skattlagningarinnar og beri á honum sameiginlega ábyrgð. Þess vegna er eðlilegt, að mönnum hafi flogið í hug að heimila ríkisstj. álag á þann skatt, sem ákveðinn er samkvæmt honum, vitanlega þannig, að ríkisstj. notaði ekki þá heimild nema að því leyti, er nauðsyn krefur. Ég hika ekki við að fullyrða, að þetta væri eðlilegasta leiðin. Ég skal ekki segja, hve miklar tekjur það muni gefa og færi það að sjálfsögðu eftir því, hvað hundraðsgjald álagsins væri hátt, en þó held ég, að þær gætu skipt milljónum, ef álagið væri verulegt. Með því væri ekki raskað þeim grundvelli, sem skattalögin ákveða og ég tel afar þýðingarmikinn.

Í frv. hæstv. viðskmrh. er grundvellinum öllum raskað og á þá lund, sem er mjög leiðinleg fyrir löggjafarþing. Þar er ekki tiltekinn ákveðinn hundraðshluti, er skatturinn skuli nema, heldur mjög mismunandi og allt upp í 78% af tekjuskattinum á lágum tekjum og hvergi lægri en 50% af tekjuskatti, ef miðað er við einhleypa menn. Á hjónum getur hann farið upp í 190%. Ef þetta nær samþykki, má heita, að ekki standi steinn yfir steini í nýju skattal.; og hvar er virðing þess þings, sem veltir þannig óðar því, sem það læzt hafa verið að byggja?

Þá er að snúa að hinni hlið frv., notkun fjár, sem aflað er í því skyni, sem frv. tiltekur. Það á að nota það til að halda niðri verðlagi í landinu og í öðru lagi til að styrkja framleiðslu þeirrar útflutningsvöru, sem ber sig ekki sem stendur, þótt lífvænleg sé til frambúðar. Í þriðja lagi er heimildin fyrir beinum sköttum og er réttlætt með því, að þeir gangi til að lækka neyzluvörur þeirra, sem skattinn greiða. Ég er hræddur um, að menn fái enga fullvissu í því efni, að skattgreiðsla þeirra komi þeim sjálfum beint að gagni í nauðsynjakaupum. Þó að landsmenn létu af höndum bæði útflutningsgjaldið og hinn sérstaka tekjuskatt, fyndist mönnum það svipað og hverjar aðrar opinberar álögur, meðan ekki er greinilegar kveðið á um notkunina en gert er í frv. Af því leiðir, að fólkið verður óánægt, og setning og framkvæmd slíkra laga mundi jafnan orka mjög tvímælis.

Tvennt er það, sem fullnægja þarf með 1. um dýrtíðarmálin. Það þarf að vera öruggt, að framkvæmd 1. verði til að hindra vöxt dýrtíðarinnar, halda henni niðri. Og í öðru lagi verður fjárins til þess að vera aflað á réttlátan hátt. Að þessari lausn málsins vill Alþýðuflokkurinn vinna. En hann vill ekki vinna að því að afla fjár á óréttlátan hátt og án þess, að því fylgi nokkurt öryggi um, að dýrtíðinni verði haldið niðri.