10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (2720)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Starfsbræður mínir tveir í ríkisstj. hafa nú talað alllangt mál, en ég læt mér nægja fá orð og tel, að meðan samningar standa yfir um málið innan ríkisstj. og flokkanna, fari bezt á því, að við, sem í samningunum stöndum, höldum öllum leiðum opnum. Vildi ég reyna að eyða misskilningi um málið án þess að fara um of út í einstök atriði þess.

Ég skal gefa hæstv. félmrh. öll hrósyrði fyrir hans ágætu og snjöllu ræðu, þótt ég vilji áskilja mér rétt til að taka allt aðra afstöðu í flestum atriðum og sé honum víst að engu leyti samdóma. Um undanfara þessa máls get ég vísað til ræðu hæstv. viðskmrh. og að nokkru leyti til félmrh. Höfuðatriðið ætti að vera öllum ljóst, að það þarf að berjast á móti dýrtíðinni með ráðum, sem eitthvað duga, og styðja þá framleiðslu, sem ekki svarar kostnaði í bráð, þótt lífvænleg sé í framtíðinni. Haldi kapphlaupið um að hækka alla hluti áfram, vitum við ekki, hve ört vísitalan getur stigið. Fyrr en varir kemst hún í 200, kannske litlu eftir það í 300, og enginn ræður við neitt, þegar svo er komið. Þjóðarógæfu þeirri verður að afstýra, annars bíður okkar sú barátta, sem ég efast um, að nokkur slétt þjóðfélagsins komizt yfir án þess að bíða ægilegt afhroð. Ef kaupgjald og vísitala hækka hvort annað með óstöðvandi þróun, bitnar það mest á verkalýðnum í landinu. Íslenzk framleiðsla á fyrir höndum að stórfalla í verði eftir þetta stríð. Þá kemur að því, að vísitöluhækkunin bætir ekki hag verkamannsins. Hann verður þá að mæta síversnandi árferði, sem hlýtur að leiða af sér minnkandi atvinnu. Það má segja, að það sé gott, meðan hann getur tekið kauphækkun í réttu hlutfalli við dýrtíðarvísitölu. En þegar atvinnuleysið heldur innreið sína og 2 vinnudagar eða 1 koma í stað hverra 4 daga áður, skaðast hann, ef að er gáð, á svo háum kauptaxta, sem lamar alveg mjög margar atvinnugreinar. Um embættismanninn er hið sama að segja. Við versnandi árferði neyðist löggjafinn til að taka af honum þá fullu dýrtíðaruppbót, sem nú hefur verið veitt, þótt dýrtíðin sjálf kunni þó að haldast óbreytt. Öll úrræði í þessum málum, sem ekki miða að því að draga úr dýrtíð, eru neyðarúrræði og skammgóður vermir. Ég er að einu leyti sammála hæstv. félmrh. í gagnrýni hans á frv. Áhrif þess á dýrtíðina eru ekki nógu vel tryggð. Í tillögum sex manna nefndarinnar var svo fyrir mælt, að úrskurðarvald um verðlagsákvæði skyldi vera í höndum ríkisstj. Það hefði ekki skipt mjög miklu í framkvæmdinni frá því, sem er. Því fer fjarri, að ríkisstj. sé áhrifalaus í nefndum þeim, sem ákveða verðlagið, því að hún skipar formann þeirra. Ef það er rétt hjá hæstv. félmrh., að samtímis þeim ráðstöfunum, sem nú er lagt til að gera, þyrfti að festa verð á íslenzkum vörum seldum innanlands, yrði ekki hjá því komizt að festa kaupgjaldið um leið, því að það er að verulegu leyti undirstaða verðlagsins og ógerningur að festa verð t. d. á mjólk og kjöti, nema bændum gefist kostur á vinnuafli án sívaxandi kauphæðar. Það hljóta allir menn að sjá, að ef kaupgjald lækkar ekki, verður að láta íslenzka framleiðsluvöru hækka að sama skapi. Ef þróunin færi þannig, að einhver nefndin, sem ríkisstj. hefur ekki áhrif á nema óbeint, margfaldaði verð vörutegundar, mjólkin yrði t. d. sett á 4–5 kr. lítrinn, yrði að greiða verðmismuninn á því og núv. verði úr þeim opinbera sjóði, sem frv. stofnar til. Hitt verður að segja, að ein slík nefnd gæti eyðilagt mikið og mætti ekki fá að leika lausum hala, ríkisstj. yrði þar að neyta íhlutunarvalds, sem hún raunar hefur, og taka fast í taum. Það er kannske of mikil bjartsýni að gera sér vonir um algera stöðvun dýrtíðarinnar, auk þess sem marga óvænta hluti getur borið að höndum. En mikið má, ef vel vill.

Ég er eindreginn stuðningsmaður þess, að sú tilraun sé gerð, sem frv. fjallar um. Ég áskil mér að sjálfsögðu rétt til þess að reyna að koma fram breytingum og mun snúast gegn því, ef nauðsynlegustu lagfæringarnar fást ekki, því að slík löggjöf gagnar aldrei ve1, ef þeir gallar fylgja, sem skapa henni fjandskap verulegs hluta þjóðarinnar.

Ég er þeirrar skoðunar, að hækka ætti íslenzka krónu, ef unnt væri. Ég stóð fast með því að verðfella hana 1939, því að þá sá ég ekki önnur ráð til hess, að framleiðsla til útflutnings gæti borið sig. Þeir, sem þá vildu fella, hljóta nú, þegar flest er gerbreytt, að hneigjast að því að hækka krónuna. Meginhluti íslenzkrar framleiðslu stendur nú þannig, að hann mundi fá borið hækkun, og þann skell, sem hann fengi af henni, mundi hann hljóta að fá fyrr eða síðar, þegar verðlag. hrapar. Þegar vel árar þannig, er tíminn til að bæta þeim tjónið aftur, sem biðu það við gengislækkunina, og það er ekki margt auðmanna í þeim hópi, heldur oft peningalitlir menn, sem mega ekki við því, að spariskildingarnir rýrni, og þjóðfélagið má ekki við því, að menn missi trúna á, að eitthvað þýði að spara. Ég skal játa, að þótt Bretinn vildi heimila okkur sjálfræði um hækkun krónunnar, væri eftir að ráða fram úr ýmsum vandamálum í því sambandi. Við megum ekki alveg gleyma þeim 5–6 millj. £, sem við eigum frystar í Bretlandi, og getum engu breytt, nema við treystum okkur til að verðfella þær.

Um þær leiðir, sem liggja til fjáröflunar í þessu máli, skal ég vera stuttorður. Ég vildi lýsa yfir því, að mér var ljóst, þegar við afgreiddum skattalögin á þessu þingi fyrir 4 vikum, að eftir var að ganga — frá þessum dýrtíðarmálum og tekjuöflun þeirra vegna, og ég hélt, að öllum hv. þm. hefði verið það ljóst, að. þau mál lágu fyrir til athugunar og hlutu að koma til kasta þingsins á eftir. Ég vil einnig taka fram, að ég vissi vel, að það gat komið til mála að leggja á nýjan tekjuskatt, alveg eins og komið gat til mála að leggja nýtt gjald á útfluttar vörur. Ég hélt, að allir hefðu fylgzt með því nokkurn veginn, hvað undirbúningi þessa máls leið, og koma því á óvart ýmsar raddir, sem nú heyrast. — Með þessu er ég enga yfirlýsing að gefa um það, hvort ég vilji leggja á einhvern tekjuskatt eða ekki. Ég geng ekki að því atriði frv. eins og það er og áskil mér rétt til að reyna fyrir mér um brtt. í ríkisstjórn og þingflokkum, áður en málið verður afgr. til 3. umr.

Þó að mér beri sem fulltrúa eins helzta fiskútflutningskjördæmis á landinu að gæta þess, að álögur á þann útflutning séu ekki þörfum meiri, tel ég svo mikla þjóðarnauðsyn á fjáröflun þessa frv., að hagsmunir einstakra kjördæma megi þar engu ráða. Vonir eru nú um þann fiskmarkað erlendis, að menn þoli nokkurt útflutningsgjald. Það er miklu betra, að menn verði að eftir láta ríkinu þannig hluta hagnaðar síns en fá í hendur fulla greiðslu og verða svo seinna að borga því þennan hluta í hækkuðum beinum skatti. Hið opinbera segir í síðara dæminu: Þú hefur ástæðu til að halda, að reikningur þinn sé upp gerður, en það er misskilningur, hluta minn úr tekjum þínum á ég eftir að taka. — Ég er ekki í vafa, hvor leiðin er heppilegri, en sínum augum lítur hver á silfrið.

Ég hef af ásettu ráði sneitt hjá að ræða mjög einstök atriði, til þess að loka ekki fyrir mér neinum leiðum í samningatilraunum þeim, sem yfir standa um málið. Ég vil þó taka fram vegna greinargerðar frv., að ég er ekki sammála um það, að því fé, sem aflað verður eftir þessum tekjuöflunarleiðum, verði varið til verðuppbóta á marga útflutningsliði íslenzkra afurða. Ég vil t. d. láta verðuppbæta mjólk af þessu fé og geri það að ófrávíkjanlegu skilyrði fyrir fylgi við frv., að þeir framleiðendur fái vissulega rétt sinn, hvort sem verðjöfnunarnefnd sýnist svo eða ekki. Verði nú þetta frv. að lögum í einhverju formi, tel ég, að eftir sé að ákveða nánar innan ríkisstj., hvernig þessu fé skuli verja og til hverra hluta. Það má búast við, að með breyttum kringumstæðum komi alveg ný viðhorf í þessu máli og breytingarnar taki bæði til innheimtu teknanna og framkvæmda. Ég skil þessa löggjöf svo, að framkvæmd hennar verði í einstökum atriðum borin undir hina ýmsu ráðherra og um flest atriði verði teknar sameiginlegar ákvarðanir í ríkisstj.

Að öðru leyti vil ég koma brtt. mínum á framfæri við hv. fjhn. beggja þd., sem ég tel eðlilegt, að fjalli um málið, og síðan verði leitað samkomulags.