10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (2721)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Haraldur Guðmundsson:

Ég get mjög stytt mál mitt eftir hina snjöllu ræðu hæstv. félmrh. En þar sem ég gat ekki tekið þátt í flutningi frv. sex manna nefndarinnar, verð ég að gera grein fyrir afstöðu minni. Okkur Alþflm. er fullkomlega ljóst, í hvert óefni dýrtíðin stefnir, ef ekki eru gerðar ráðstafanir til úrbóta. Ég hygg, að Alþfl. hafi fyrstur vakið máls á því og krafizt aðgerða á síðastl. hausti, þannig að kallað yrði saman aukaþing til þess að ná samkomulagi um framkvæmdir og fjáröflun. Ég harma það, að því var ekki sinnt, en ef nú er tekið í taum, er betra seint en aldrei. Fyrr hefði það verið miklu auðveldara.

Ég vildi ekki vera meðflm. að frv., ekki af því, að mér þætti lítil nauðsyn á, heldur af því, að eins og frv. er lagt fyrir, eru heimildir þess of víðtækar og óákveðnar — og sumpart svo ófullnægjandi, að ekki er nærri nóg trygging fyrir því, að þær komi að fullum notum. Um veilurnar í röksemdafærslu þeirra, er að frv. standa, get ég að mínu leyti vísað til þess, sem hæstv. félmrh. sagði. Fyrst er það, hve óhemjuvíðtækt vald á að gefa ríkisstj., hún getur með reglugerð ákveðið allt, sem henni sýnist um útflutningsgjaldið. Ég verð að segja, að þinglegra hefði verið að tiltaka þetta allt miklu nánar í l., en til þess skortir þetta seint útungaða frv. allan undirbúning. Til dæmis um verklagið á þessu má taka það, að útflutningsgjald á að taka af útfluttum landbúnaðarafurðum eins og öðrum útfluttum vörum til að bæta upp verðið á sömu útfluttu vörunum. Það væri ekki alveg handónýtt að styðja sem flestar atvinnugreinar með svona viturlegum ráðsályktunum. Um þessi efni er ég þó í aðalatriðum sammála hæstv. viðskmrh. í ræðu hans. En ég gæti hugsað mér, að hægt væri að fara hærra með gjaldið en í 10% í einstökum tilfellum. Ef siglingar með ísaðan fisk halda áfram og verð lækkar ekki, kæmi það t. d. þar til mála. En allt er það í óvissu, unz vitað er um samninga okkar við Breta, þá sem yfir standa. — Ekki er síður víðtæk heimildin, sem frv., sem hér liggur fyrir, veitir ríkisstj. til að leggja skatt á hreinar tekjur. Það tók 8–10 vikur af þingtímanum að koma sér saman um þau skattalög, sem nú eru nýgengin í gildi. Það var niðurstaða samkomulags með öllum flokkum. Því fór að vísu fjarri, að allir væru sammála og ánægðir, en menn beygðu sig fyrir nauðsyninni að lögfesta það, sem allir gátu sætt sig við í grundvallaratriðum: En ég vil mótmæla því hjá hæstv ráðh., að þm. hafi yfirleitt verið kunnugt um þær fyrirætlanir hjá ríkisstj. að knýja fram í flýti, síðar á þinginu skattalög, sem röskuðu öllum grundvelli hinna fyrri, gerðu m. ö. o. hið nýfengna samkomulag um skattalögin að engu. Þessu frv., sem nú er lagt fram, var ekki hreyft, fyrr en búið var að samþ. frestun kosninga til Alþ. Þá kemur frv. og er um skatt, sem enginn veit, hve hár verður, nema á ómagalausu fólki, viðskmrh. einn fær að vita, hver ómagafrádráttur á að vera, svo að enginn viti, hvað hér á að samþykkja. Með þessari óútreiknanlegu heimild á Alþingi nú tafarlaust að afsala sér árangri 8–10 vikna þingræðisstarfs. Slíka heimild getur þingið að minni hyggju ekki veitt.

Það verður ekki sagt, hve hár skatturinn á að vera nema fyrir einhleypinga og barnlaus hjón.

Ég vil nú taka dæmi um hann á misháum tekj um, samanborið við núgildandi tekjuskatt:

Einhleypir:

Nettó- Nýr Tekju- Álag á

tekjur skattur skattur tekjuskatt

2000 5 7.92 63 %

4000 35 44.88 78 –

6000 105 147.84 71–

8000 205 325.38 63 –

10040 305 551.76 55 –

12000 405 808.50 50 –

15000 555 1407.12 39 –

Hjón:

2000 5 0

4000 35 18.48 189%

6000 10.5 76.56 137 –

8000 205 214.60 96 –

10000 305 412.50 74 –

12000 405 650.10 62 –

15000 555 1122.00 49–

Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það, að þessi skattur er fyrst og fremst á lagður sem sérstakur skattur á lágtekjur og miðlungstekjur, þar sem nokkur ívilnun var veitt við breyt. þær, sem þingið samþ. fyrir nokkru.

Að því er ómagafólk snertir, er ekki hægt að sjá, hvaða skatt því er ætlað að greiða. Hæstv. viðskmrh. hefur það vinsæla hlutverk að úthluta því fólki sinn skammt, af sinni náð og mildi.

Ég álít að slík afgreiðsla sem þessi sé alveg óhugsandi og ósæmileg fyrir þingið eftir það, sem hér er á undan gengið í skattamálunum.

Ég sagði, að ég hefði ekki viljað bera frv. fram, af því að sú heimild, sem það veitir, sé ófullnægjandi. Stj. er ekki veitt heimild umfram það, sem nú er, til að ráða verðlagi í landinu. Samkv. l. um meðferð og sölu mjólkur og rjóma skal útsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum ákveðið af 5 mönnum, 2 frá mjólkursamlögunum, 2 frá bæjar- eða sveitarstjórn og oddamanni, skipuðum af landbrh. Í kjötverðlagsn. eru skipaðir 5 menn til eins árs. Landbrh. skipar einn mann, sem er formaður, 2 velja seljendur og framleiðendur og tveir eru valdir af bæjarstj. eða sérstökum stofnunum með hliðsjón af sjónarmiðum neytenda, eins og í mjólkurverðlagsn. En reynslan er sú í báðum þessum n., að oddamaðurinn hefur talið sig fyrst og fremst umboðsmann og fulltrúa annars aðilans, þ. e. a. s. bændanna. (PO: Þessu mótmæli ég). Það er nú samt satt. Síðastl. haust kom upp deila um verðlagið. Meiri hl. n. samþ. ákveðið verð, og hækkunin nam frá 60 til 100% á kjötinu. Á sama tíma var bannað með l., að kaupgjald hækkaði um meira en 27%. Um þetta var ágreiningur í n. og blaðaskrif. Ég minnist þess, að meiri hl. kjötverðlagsn. kom á framfæri greinargerð í útvarpinu, og var þar talið svo, að fulltrúar bænda skipuðu meiri hl. n., og ég man ekki betur en að hið sama kæmi fram í grein í Tímanum eftir sjálfan landbrh. Þetta er kannske ekki óeðlilegt, því að n. var skipuð með það fyrir augum, að nauðsynlegt væri að tryggja bændum hærra verð, en þetta er engu að síður herfilegur misskilningur á hlutverki n. Hún á bara að hafa alþjóðarhag fyrir augum og ekkert annað.

Svipað er það í mjólkurverðlagsn.

Nú má enginn skilja orð mín svo, að mér finnist ekki sjálfsagt, að bændur fái það verð, sem gerir þeim mögulegt að halda áfram búrekstri sínum, en það mega ekki vera einhliða ákveðnir fulltrúar þeirra, sem ráða öllu um verðið.

Í stuttu máli tel ég, að í þessu efni skorti skynsamleg ákvæði um, hversu skuli fara að við ákvörðun verðlags í landinu.

Ég skal reyna að stytta mál mitt, en ég vil aðeins drepa á það, sem frá mínum bæjardyrum séð er gerlegt að framkvæma í þessu efni. Ég fellst á það, sem í frv. stendur um framlag ríkissjóðs og einnig um útflutningsgjald. Ég tel sjálfsagt, að sú heimild sé veitt, vegna þess að þeir, sem höfðu mestar tekjur og gróða síðastl. ár, eru útflytjendurnir, og þeir eru líka í fremstu víglínu, þegar verðfallið skellur á. Ég tel einnig, að ef með öllu verður ókleift að fá nægilegt fé eftir þeim leiðum, sem drepið hefur verið á, sé ekki ógerlegt að byggja á nokkrum tekjuskatti í sama skyni, en þó því aðeins, að grundvellinum undir skattaákvörðununum sé í engu raskað frá því samkomulagi, sem orðið hefur hér á Alþingi. Það er í l. heimild til að innheimta tekjuskatt með 12½% viðauka, og ef til vill mætti hækka þann viðauka nokkuð.

Að því er snertir ráðstafanir til verðlækkunar og festingar verðlagsins væri eðlilegt að taka inn í þetta frv. ákvæði um afnám tolla á þeim vörum, sem hafa mest áhrif á vísitöluna, og að gefa ríkisstj. heimild til að ákveða flutningsgjaldið með íslenzkum skipum. Gróði Eimskipafélags Ísl. síðastl. ár hefur verið 200% af hlutafénu, eða yfir 3 millj. kr. Til viðbótar má telja h. u. b. eina millj., sem telst sjóðsmyndun með eigin ábyrgð. Eimskipafélagið hefur nú ekki alla flutninga hér, en á öðrum skipum er eflaust eitthvað hliðstæður ágóði. Þetta veldur miklu um verðlag í landinu. Það fer mjög miður, að ekki skuli fyrr hafa verið reynt að hafa hönd í bagga með þessu. Eimskipafélagið er að vísu þjóðþrifafyrirtæki og alls góðs maklegt, en hagur félagsins er svo eftir síðasta reikningi þess, að skipin eru öll skrifuð niður í sama og ekkert. Þess fjárhagur er því tryggur, og að láta það halda áfram á gróðabrautinni er óeðlilegt eins og á stendur.

Varðandi verðlagið á útlendum vörum get ég sagt það, að ég tel tvímælalaust bezt að taka upp landsverzlun á helztu nauðsynjum og fela bæjar- og sveitarfélögum úthlutun þeirra með vissri álagningu. Mikið umstang og mikill kostnaður yrði á þann hátt sparað.

Það hefur komið í ljós, að allmikið skortir á, að það hafi lánazt að safna birgðum innanlands, en það hefði þó verið hægt, ef í tíma hefði verið tekið það ráð. En allar líkur til birgðasöfnunar eru betur tryggðar með landsverzlun.

Ég er enginn ofsatrúarmaður í þessu efni, en á þetta vil ég benda, og ég efast ekki um, að margir munu vera mér sammála.

Ef þessi leið verður á hinn bóginn ekki farin um ákvörðun verðlags á útlendum vörum, verður að fella burt þau ákvæði, sem nú eru í 1. og fella niður ýmsa vöruflokka.

Það eru mér og fleirum vonbrigði, að ekki hefur náðst meiri árangur af starfi verðlagsn. en raun er á. Ég hygg, að við hennar ákvarðanir sé ekki alltaf tekið tillit til aukinnar veltu. Ég hygg, að með því fengist aukið öryggi, að skipuð verði sérstök ríkisverðlagsn., jafnt fyrir útlendar og innlendar vörur, sem kosin væri af þinginu eftir flokkum. Það má segja, að ekki sé um stóran mun að ræða frá því, sem er, sem sé að fela ríkisstj. æðsta valdið. En ríkisstj. er svo störfum hlaðin, að þetta er örðugt fyrir hana, að fylgjast til fulls með öllu. Hún yrði að hafa sérstaka menn fyrir sig og gæti ekki fullkomlega kynnt sér rök þeirra í hverju máli, en yrði hins vegar að bera ábyrgðina gagnvart Þinginu. Þá væri eðlilegra að skipa sérstaka n., sem væri sjálf ábyrg gagnvart þinginu.

Um annan þáttinn á þessari hlið málsins, nefnilega að ákveða uppbætur á framleiðsluvörur, tel ég, að til þess að ákveða þær, verði að fela sér fróðum mönnum að búa til grundvöll, sem hægt er að byggja á við að brúa bilið á milli framleiðslukostnaðar á innlendum vörum og útsöluverðs. (Viðskmrh.: Hverjir eru sérfróðir?) Hér er til búreikningaskrifstofa, landbúnaðarins, hagfræðingar, mjólkurverðlagsn. og kjötverðlagsn. Þessar n. ættu að hafa einhver gögn í höndum, sem hagfræðingarnir gætu unnið úr. Ef grundvöllurinn er fundinn, er auðvelt að fylgjast með breyt. og reikna út eftir þeim. Hér er um miklar fjárhæðir að ræða, og ef allar þessar aðgerðir eiga að koma að gagni, er nauðsynlegt, að þeir, sem fé leggja fram, viti, að það sé notað til þess að lækka dýrtíðina, en ekki til að greiða óþarfar uppbætur ýmsum stéttum í landinu. Allt á að gera eftir ákveðnum reglum, að undangengnum nákvæmum rannsóknum.

Þá hef ég gert grein fyrir, af hvaða ástæðum ég gat ekki verið meðflm. þessa frv., og í samræmi við það hef ég drepið á ýmis úrræði til þess, að tilganginum geti orðið náð.