10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (2725)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Finnur Jónsson:

Ég vil þakka formanni „vandræðanefndarinnar“, sem starfaði hér yfir hátíðina, hv. þm. V.-Sk., fyrir þá ágætu skýrslu, sem hann gaf um störf n., sem hefði þó gjarnan mátt koma fyrr við umr.

Ég þarf sem Alþfl.-maður litlu við það að bæta, sem hæstv. félmrh og hv. þm. Seyðf. hafa sagt um þetta mál.

Það hefur verið á það bent, að þetta frv. hafi að áliti n., komið til hennar mjög illa undirbúið. N. hefur hins vegar reynt að gera sitt til að bæta úr þessu. En hæstv. viðskmrh. hefur ekki litizt á brtt. n. og breytt frv. aftur, að því er ég tel í áttina til hins verra, eða nokkuð í þá átt, sem hann hafði til ætlazt í fyrstu. Eins og frv. var, þegar það kom til n., var það í raun og veru miðað við gullaldartímabil í okkar framleiðslu, sem sennilega er nú hjá liðið. Ég ætla, að frv. hafi aðallega verið miðað við það, að unnt væri að taka a. m. k. 10% af útflutningsverðmæti og ná á þann hátt í ríkissjóð einhverju af þeim háu togarasölum, sem áttu sér stað aðallega á tímabilinu frá því í sept. 1840 og þangað til flutningar stöðvuðust nú í vor, og svo hitt, að jafna að einhverju leyti þann halla, sem landið kann að hafa orðið fyrir með því að kaupa pundin raunverulega á of háu verði. (Viðskmrh.: Er pundið of hátt keypt í dag?). Ég geri ráð fyrir því. (Viðskmrh.: Þá þolir framleiðslan eins þetta gjald nú). Það er annað mál. Það er ekki víst, að framleiðslan þoli gengishækkun. Það geta legið ýmsar ástæður til þess, sem ég ætla, að ég þurfi ekki að skýra fyrir hæstv. ráðh. Við vitum það allir, að það hafa verið gerð tilboð ekki alls fyrir löngu um sölu á öllum íslenzkum sjávarafurðum til Bretlands. Í þessu tilboði hefur verið miðað við núverandi gengi. Ég er alveg í vafa um, að þetta tilboð sé á þann veg, að þessar afurðir þoli nokkurt útflutningsgjald til viðbótar. Um eina vörutegund a. m. k. er mér kunnugt, að svo lágt verðtilboð er gefið, að ráðh., sem hlut átti þar að máli, lofaðist til að heita sér fyrir því, að útflutningsgjöld þessarar vöru yrðu lækkuð um helming, til þess að hægt yrði að halda framleiðslu hennar áfram.

Þetta frv., eins og það var lagt fyrir n. og eins og það liggur hér fyrir, hefur valdið mér miklum vonbrigðum. Ég hef ekki vitað til þess fyrr, að hæstv. viðskmrh. hafi lagt fyrir þingið illa undirbúin frv. í stórmálum, en það hefur honum nú orðið á. Og þetta er því alvarlegra, þegar litið er á það, um hversu stórar fjárhæðir hér er rætt. Ef þetta frv. gæfi eitthvað svipaðar tekjur sem ætlazt mun vera til, þá væri það fast að því jafnmikið og áætlað er, að ríkissjóður fái í tollum og sköttum á næsta ári. Raunar virðist það vera svo, að enginn viti, hvað mikið fé er tilætlunin að innheimta, og það virðist enginn vita, hve mikið er ætlunin að borga út samkvæmt frv. Ef reiknað er með þeim 5 millj., sem gert er ráð fyrir, að teknar verði úr ríkissjóði, þá lítur út fyrir, að útborganirnar mundu nema upp undir 15 millj. kr. En í fjárlagafrv. eins og það var eftir 2. umr., eru allir skattar og tollar, þar í talin útflutningsgjöld, áætlaðir 18905000 kr. Fjvn., 9 manna n., hefur setið yfir því allan þingtímann að gera till. um, hvernig þessu fé skuli varið, sem tekið er í ríkissjóð með sköttum og tollum. Frv. hefur farið í gegnum 3 umr., og þm. hafa meira og minna brotið heilann um það, hvernig tekjum ríkissjóðs yrði heppilegast varið. Þegar litið er til þessa, má sjá, að það er engin smáræðis heimild eða vald, sem ríkisstj. fer fram á, þegar farið er fram á heimild til að innheimta ótakmarkaðar upphæðir, án þess gerð sé veruleg grein fyrir, hvernig þessu fé skuli varið. Í frv. sjálfu, eins og það var, þegar það kom til n., var eiginlega ekki hægt að finna neitt út úr því, að ætlunin væri að minnka verðbólguna innan lands, en vísað að nokkru leyti til grg. En í sannleika sagt er grg. sú, sem fylgdi frv. upphaflega, og sú, sem fylgir því enn, þannig úr garði gerð, að ýmis atriði stangast við frv. og önnur sýnast frv. óviðkomandi. Því er m. a. slegið föstu, sem vel getur orðið, að þegar stríðinu lýkur, verði hér kreppa og að þá verði mikið verðfall á útflutningsvörum landsmanna. Einnig er því slegið föstu, að ef kaupgjaldið sé miðað við framfærslukostnaðinn, þá megi telja tvímælalaust, að atvinnuvegirnir rísi ekki undir því. Það er talað um í grg. frv., að vegna hins slæma ástands, sem ríkjandi sé í verðlags og kaupgjaldsmálum, þá verði tekjuskiptingin mjög ójöfn. Ég get ekki séð, að hvaða leyti þetta frv. miðar að því að jafna tekjuskiptinguna, nema þá hjá lágtekjumönnum, enda er eins og sumir flokksmenn hæstv. viðskmrh. hafi ekki séð , annað undanfarnar vikur en það, hvað tekjur verkafólks hafi hækkað mikið, en alveg gleymt hátekjumönnunum. Það virðist líka vera aðalmarkmið þessara manna með frv. að jafna tekjurnar milli lágtekjumannanna. Ég hef ekki getað komið auga á þessi voðalegu peningauppgrip hjá almenningi. Ég hef að vísu séð, að sjómenn á bátunum hjá okkur fyrir vestan, jafnvel hásetar, hafa komizt upp í 8 þús. kr. tekjur árið sem leið. En þetta eru líka menn, sem árum saman eru búnir að berjast við sult, menn, sem hafa haft 2, 3 og upp í 4 þús. kr. tekjur. Þetta eru menn, sem í mörg ár hafa safnað skuldum og ekki getað klætt fjölskyldur sínar. Þó þessir menn fái eitt ár svolítið ríflegri tekjur, þá sé ég ekki, að það þurfi að gefa Alþ. sérstakt tilefni til að sjá ofsjónir yfir því og fara að tala um tekjujöfnun milli lágtekjumanna. Það er í grg. talað um ýmislegt fleira, sem virðist ekki koma þessu máli neitt við, eða a. m. k. samþykkt þessa frv. mundi ekki hafa nein áhrif á það. Það stendur t. d. hér, að vegna síhækkandi framfærslukostnaðar séu menn tregir til að leggja fé í framleiðsluna. (Viðskmrh.: Er hér ekki eitthvað slitið úr samhengi hjá hv. þm.?) Ég er nú að ræða málið almennt, en til þess að slíta ekkert úr samhengi hjá hæstv. ráðh. skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér orðrétt kafla úr grg. frv.

„Afleiðingar þess ástands, sem nú er ríkjandi í verðlags- og kaupgjaldsmálum, geta ekki einungis orðið mjög alvarlegar fyrir atvinnuvegna og þjóðarheildina, þegar stríðinu lýkur og aftur fer að halla undan fæti, heldur verka þær einnig nú þegar að ýmsu leyti mjög óheppilega. Hinar miklu verðhækkanir raska mjög hlutfallinu milli eigna og skulda, peningaverðmæti rýrna tekjuskipting verður mjög ójöfn, og í kjölfar þessa siglir svo ýmiss konar spákaupmennska og brask, sem hefnir sín síðar, þegar aftur koma eðlilegir tímar. Mjög dregur úr sparnaðarviðleitni allri, þar eð verðgildi peningaverðmæta fer minnkandi sökum hækkandi verðlags, og er hætt við, að menn noti þær tekjur sínar til neyzlu, sem annars hefðu verið lagðar til hliðar, og jafnvel kjósi heldur að eyða sparifé sínu en láta verðgildi þess rýrna sí og æ. Festing fjár í nýjum atvinnufyrirtækjum er og minni en ella mundi verða, sökum hins mikla og síhækkandi framleiðslukostnaðar og beinlínis vegna þess, að nánast er ókleift að koma upp nýjum framleiðslutækjum, sökum skorts á efni til þeirra hluta.

Þarna eru taldar tvær ástæður fyrir því, að lítið fé sé fest í nýjum atvinnufyrirtækjum. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða, að fyrri ástæðan á sér ekki verulega stoð, en hins vegar er seinni ástæðan rétt.. Ástæðan fyrir því, að menn kaupa ekki skip, hefur fram að þessu ekki verið síhækkandi framfærslukostnaður, heldur hitt, að ekki hefur verið hægt að fá keypt skip. Þetta ætla ég, að hæstv. viðskmrh. viti svo vel, að hann þurfi ekki að vera að færa fram aðrar ástæður fyrir þessu. Það er alkunnugt, að menn vilja gjarnan leggja það fé, sem þeir eiga, í ný atvinnufyrirtæki, hvort heldur væri í skipakaup eða skipabyggingar, af því menn álíta, að þó að þeir þurfi að afskrifa allmikið af stofnkostnaðinum, þá sé fénu betur varið á þennan hátt en að eiga það í sparisjóði.

Ég skal ekki ræða þetta mál mikið frekar. Það hafa verið færð svo mörg rök að því hér í d., að ekki verður á móti mælt, að þetta frv., sem á að vinna að því að draga úr erfiðleikum atvinnuveganna og minnka dýrtíðina, er ekki nægilega undirbúið af hálfu hæstv. ráðh. Og ég verð að harma það með hv. þm. V.-Sk., að hæstv. ráðh. hefur séð ástæðu til að færa frv. í verra horf en það var, þegar það kom frá „vandræðanefndinni“. Það má vel vera, að eitthvert samkomulag fáist um að færa þetta aftur til betra vegar. Væri sérstaklega æskilegt, að fjhn., sem mun fá þetta mál til meðferðar, athugi gaumgæfilega till. 6 manna n. um verðlagseftirlit, því að ef það er virkilega ásetningur hæstv. stj. að reyna að hafa einhvern hemil á verðlagi í landinu, þá tel ég, að til þess að slíkt megi takast, verði að koma verðlagseftirlitinu öðruvísi fyrir en nú er, annaðhvort með því að ríkisstj. fái úrskurðarvald um verðlagseftirlit eða þá það, sem ég teldi heppilegra, að sett yrði sérstök n., skipuð óhlutdrægum mönnum, sem hefði úrskurðarvald í þessum málum og ekki reyndi að skara eld að köku einstakra stétta, en hefði það sjónarmið eitt að reyna að halda niðri dýrtíðinni í landinu. Ég skal taka það fram, að ég á ekki þar með við á neinn hátt, að gengið verði á rétt bænda. Mér hefur fundizt á flokksmönnum hæstv. viðskmrh., að ekki væri hægt að framkvæma hlutlaust verðlagseftirlit nema á þann hátt. Við höfum aldrei alþýðuflokksmenn sýnt það, að við höfum viljað sitja yfir rétti bænda, heldur miklu fremur veitt þeirra málum liðsyrði, og ég þori að fullyrða, að í þingflokki Alþfl. er enginn, sem vill þrengja þeirra kosti. En þegar farið er fram á svo stórar heimildir sem gert er með þessu frv., er ekki nema eðlilegt, að heimtaðar séu einhverjar tryggingar fyrir því, að því fé, sem hér er um rætt, verði varið til alþjóðar heilla, en ekki farið með það á þann hátt, að það hljóti að vekja mjög mikla andúð hjá þeim, sem taka á féð hjá.

Að öðru leyti hefur þessu frv. verið breytt til hins verra, þar sem talsverðar breyt. hafa verið gerðar á ákvæðunum um útflutningsgjaldið. Og þó að svo kunni að vera, að hæstv. ríkisstj. sé í standi til að fara með þessi ákvæði svo vel megi við una, þá er það ekki síður nauðsynlegt fyrir ríkisstj. en þm., að þar sem hér liggur fyrir stærsta heimild til að leggja á útgjöld, sem líklega eru dæmi til, að veitt hafi verið í einu lagafrv. öðru heldur en fjárl., þá sé svo búið um alla hnúta, að ekki veki tortryggni og sundurlyndi þegar á fyrsta stigi málsins.