10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (2727)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Skúli Guðmundsson:

Það verða ekki mörg orð. En í umr. um þetta frv. hefur mjög verið minnzt á starf þeirrar sex manna n., sem skipuð var af þingflokkunum fyrir skömmu og hefur verið kölluð dýrtíðarn., þó að hv. þm. Ísaf. teldi sig hafa verið í einhverri vandræðanefnd. Ég vildi nú sem einn af þessum sex mönnum segja um þetta nokkur orð, sérstaklega um vinnubrögð n., frá mínu sjónarmiði.

Þessir sex menn komu saman til skrafs og ráðagerða um þetta vandamál. Þeir komu fram með ýmis sjónarmið, og nokkuð ólík. Og eftir að n. hafði velt málinu fyrir sér í tvo eða þrjá daga, fór form. n., hv. þm. V.-Sk., sem hefur nú í langri ræðu skýrt nokkuð frá starfi n., að rita niður þær uppástungur, sem fram höfðu komið í n., og setti hann það síðan í frv. form, sem svo var afhent ríkisstjórn. Ég gat, því miður, ekki sinnt þessum nefndar störfum allan tímann. En mér er kunnugt um það, að ríkisstj. mun hafa verið skýrt frá því, þegar þessar till. voru afhentar henni, að enginn nm. mundi vera samþykkur öllum atriðum í þessum till. Af því að þetta er rétt, tel ég vafasamt, að hér sé hægt að tala um álit eða till. n. sem heildar, því að um sameiginlegar till. þessarar n. var ekki að ræða. Ég sá þetta svo kallaða frv. n. eftir að það hafði verið afhent hæstv. ríkisstj., og þar varð ég var við, að voru í nokkur atriði, sem ég var ekki sammála. Og aðrir nm. munu e. t. v. hafa verið ósamþykkir öðrum atriðum. Og þetta eru einmitt atriði, sem gerð hafa verið að umtalsefni hér í þessum umr. Annað var um tekjuskattinn og þann skattstiga, sem hafði verið settur í þetta nefndarfrv. Ég taldi, að þar vær í of langt gengið í því að draga úr skattinum á lágar tekjur og tel það miklu nær sanni eins og till. eru um það í frv. hæstv. viðskmrh., sem nú liggur fyrir, þó að ég hefði kosið, að gjaldið hefði verið haft hærra en þar er gert ráð fyrir, eða það fyrr látið komast upp í hámark.

Hitt atriðið var það, sem sett var í álit n., að ríkisstj. hefði úr skurðarvald um gerðir þeirrar n., sem hefur með höndum að ákveða verð á landbúnaðarafurðum. Það hefur komið fram hjá mörgum hv. ræðumönnum, að þeir sakni þessa ákvæðis í þessu frv., og þeir telja, að það ætti að vera í frv., sem hér liggur fyrir. Og ýmsir telja, að þá mundi fyrst verulegur árangur nást í þessu efni, ef þetta verðlagseftirlit væri falið einum dómstóli, sem færi með þetta úrskurðarvald. Á þann hátt talaði hæstv. félmrh. og sömuleiðis hv. þm. Seyðf., sem talaði um það, að ein n., kosin af aðalflokkum þingsins, ætti að hafa með höndum verðlagsákvörðun bæði á erlendum og innlendum vörum. Hæstv. félmrh. taldi, að eins og þessum málum væri fyrir komið nú, væri enginn aðili, sem bæri pólitíska ábyrgð og hefði úrskurðarvald þar um, það væri í höndum annarra manna. Hv. þm. V.-Sk., sem var form. n., veik að þessu og tók það réttilega fram, að þetta var lítið rætt í sex manna n., en hann gat þess, að einstakir menn í n. hefðu haldið því fram, að þessar verðlagsn., sem nú ákveða verð á landbúnaðarafurðum á innlendum markaði, ættu varla rétt á sér, eins og nú væri ástatt, heldur ætti að koma ein nefnd, sem ef til vill væri undir ríkisstj. gefin beinlínis, og talaði hv. þm. V.-Sk. um einn æðsta dómstól í þessum efnum. Út af þessu vil ég taka fram, að það kæmi ekki til mála, frá mínu sjónarmiði, að setja slíka n. á laggirnar, sem ætti að ákveða verð á landbúnaðarafurðum, og þar með í raun og veru að ákveða kaupgjald bænda landsins, nema sá dómstóll hefði vald til þess að ákveða kaupgjald annarra stétta í landinu. Þessu hélt ég mjög ákveðið fram í n. En það hafði fallið niður að taka það atriði með í þær till., sem sex manna n. afhenti hæstv. ríkisstjórn. Ég vildi því láta þetta koma hér fram við þessa umr. í tilefni af því, sem hv. meðnm. mínir hafa um þetta sagt.

Ég skal taka það fram um það frv., sem hér liggur fyrir, að vitanlega tel ég, að vel megi tala um ákveðnar breyt. á því. En ég tel, að þetta frv. sé stórum betra að ýmsu leyti heldur en það svo kallaða frv. sex manna n., sem afhent var hæstv. ríkisstjórn. Og ég er þar á allt annarri skoðun heldur en formaður sex manna n., hv. þm. V.-Sk., og hv. þm. Ísaf., sem einnig hefur talað um þetta mál og störf þeirrar n.