10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (2728)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Haraldur Guðmundsson:

Hæstv. viðskmrh. veik nokkrum orðum að mér í ræðu sinni, sem ég vil nokkru svara. Get ég þó stytt mál mitt, því að því var að verulegu leyti svarað af hv. þm. V.-Sk.

Hæstv. viðskmrh. tók svo til orða, að sér þætti undarlegt, að ég bæri mikinn ótta í brjósti fyrir því, að verðlag á landbúnaðarafurðum hækkaði nú, en væri ekki smeykur um, að kaupgjald mundi hækka. Reynslan hefur sýnt, að ástæða hefur verið til að óttast það fyrr. En það er rétt, sem hv. þm. V-Sk. sagði, að allt kaupgjald væri bundið til næstu áramóta og í sumum tilfellum lengur. Svo að það er víst, að engar breyt. verða á því á þessu tímabili. Kaup mikils hluta launamanna er ákveðið með l. Og áður en kaupsamningar verkafólks renna út, verður farið að sýna sig, hver árangur verður af því, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv. Og ef hann verður sá, sem menn gera ráð fyrir, er engin ástæða til að óttast kauphækkun, sem neinu nemi.

Þá spurði hæstv. viðskmrh., hvernig væri hægt að hugsa sér meira ósamræmi en með því, að sumum stéttum sé bannað að auka sínar tekjur, en að öðrum mönnum sé þetta leyft og laust látið. Ég verð að segja það, að hæstv. viðskmrh. er býsna gleyminn, því að ég veit ekki betur en að allt árið 1940 væri kaup verkafólks og embættismanna bundið í 1. En illu heilli var í byrjun þessa árs fellt niður það ákvæði gengisl., að kauphækkun landbúnaðarins ætti að hlíta sömu reglum og kaupgjald verkafólks. Það var gert í trausti þess, að gefnu tilefni, að til slíkrar hækkunar mundi ekki koma á þeim afurðum, a. m. k. að því er snerti kjötið. En ég upplýsti í minni fyrri ræðu, hvernig þar var farið að, að á, síðasta hausti var hækkun gerð á kjötverðinu úr 60% upp í 100% frá hví, sem var haustið áður. En kaupgjald fjölmennustu stéttar landsins var bundið með 1., þannig að ómögulegt var að hækka það meira en um 27%, og aðeins á síðustu mánuðum ársins.

Hæstv. viðskmrh. leggur til í frv. því, sem hér liggur fyrir, að farmgjöld verði ákveðin með 1., og kemur það út sem skattur á tekjur eða lækkun á launum þeirra manna, sem við þá vöruflutninga vinna. Við þetta er það að athuga, að engan veginn var ráð fyrir því gert í n., að tekjur væru bundnar. Við töluðum að vísu um, að nauðsynlegt væri að festa útsöluverð, en einmitt það fé, sem gert er ráð fyrir að afla með því, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, er ætlað að nota til þess að jafna þann mismun, sem yrði á verði innlendra afurða, sem bændum væri nauðsynlegt að fá fyrir þær, og því verði hins vegar, sem eftir yrði, þegar kostnaður er dreginn frá útsöluverði. Það fer svo aftur eftir því, hversu mikið fé verður til umráða til þeirra hluta, hverjar breyt. verða á afurðaverði bænda. sem þær n., sem hér hafa verið nefndar, mjólkurn. og kjötverðlagsn., hafa ákveðið. En mér þykir býsna einkennilegt, ef hæstv. viðskmrh. vill, að þetta mál nái fram að ganga, að hann slær því föstu, að allir þeir, sem óska eftir því, að þetta frv. verði samþ. og telja, að nauðsynlegt sé að ákveða verðið á innlendum afurðum að tilhlutun þess opinbera, séu á móti því, að þær ráðstafanir séu gerðar í því sambandi, sem ég hef mælt með. Ég vísa því fyrir mitt leyti algerlega á bug. Þessar n., sem nú ákveða verðið á þessum afurðum, hafa verið skipaðar með allt annað sjónarmið fyrir augum heldur en hér er um að ræða og hér þarf að taka til greina. Hæstv. ráðh. man það kannske, að ég og minn flokkur stóðum á sínum tíma að því með honum og hans flokki að samþ. kjöt- og mjólkurl. og styðja að því, að það yrði unnt að framkvæma þau, sem reyndust, ýmsir erfiðleikar á, m. a. af því að framkvæmd þeirra var kannske ekki svo hagað í einstökum atriðum sem æskilegast hefði verið, — kannske segi ég. En megintilgangur þeirrar löggjafar var að tryggja bændum öruggara og bætt verð frá því, sem áður var: L. um grænmetisverzlun báru þetta sérstaklega greinilega með sér, því að þar var ákveðið markaðsverð, sem bændum var tryggt fyrir sína vöru. Og ég hef sýnt fram á það áður, að á sjónarmið framleiðenda hefur verið mjög ríkt litið í þessum n., og ég hygg, að engin breyt. verði á því, að óbreyttri skipun þessara n. eins og þær nú eru skipaðar. Ég tel því höfuðnauðsyn að gera þær breyt. á þessu frv. í fyrsta lagi, að verðlagsákvörðunum verði á annan veg fyrir komið en nú er, og í öðru lagi, að gerðar verði ráðstafanir til þess, að grundvöllur verði fundinn, sem hægt sé að byggja á útreikning á framleiðslukostnaði bænda og þeirra annarra framleiðenda, sem framleiða kjöt og mjólk, þannig að hægt sé á einhverju að byggja og við eitthvað að miða, þegar fé er úthlutað, en ekki á mati manna, meira eða minna lítið rökstuddu.

Þá sagði hæstv. ráðh., að sig furðaði mjög á því, að mönnum skuli vaxa í augum að leggja, eins og hann orðaði það, á einhleypan mann með 10 þús. kr. tekjur rúmar 300 krónur með þessum skatti. 10 þús. kr. hjá manni nú svara til 7500 kr. tekjum fyrir stríð. Og það skal játað, að í því eina tilfelli er þetta ekki til að býsnast yfir. En mig furðar nokkuð á því, að hæstv. viðskmrh. skuli ekki muna eftir nema einhleypum mönnum í þessu sambandi. Og ýmsar leiðir eru farnar til þess að klípa af þeirra tekjum á einn eða annan hátt. En það má kannske finna fleiri leiðir, og þá skal ekki standa á mér. En hæstv. ráðh. minntist ekki á hjón með 4000 kr. tekjur, sem eftir að skattur hefur verið tekinn af þeim eftir skattal., sem samþ. voru í vetur, mundu, eftir þessu frv. hæstv. viðskmrh., ef samþ. verður eins og að er, verða að greiða 189% hækkun á skattinum. (SkG: Þá er tekjuskatturinn lítill). Ég skal nú gefa hv. þm. upplýsingar um þetta. Af 4 þús. kr. hreinum tekjum hjá barnlausum hjónum er skatturinn samkv. 1. kr. 18,45, en 4 þús. kr. hreinar tekjur nú svara til rösklega 3 þús. kr. tekna fyrir stríð. Ég verð að segja, að þegar búið er að höggva djúpt skarð í slíkar tekjur með sköttum og útsvari, sýnist ekki réttlátt að leggja mikið á þær. Aftur á móti nemur þessi nýi skattur hlutfallslega miklu minni upphæð af háu tekjunum. Nú er þess að gæta, að ekki eru öll hjón barnlaus, og því fleiri sem börnin eru, þess meira verður hlutfallið, svo framarlega sem ekki er meiri frádráttur fyrir hvern ómaga en nú er samkv. tekjuskattsl. Í þessu sambandi minntist hæstv. viðskmrh. á till, mínar, þegar ég var í milliþingan. í skattamálum. Það er rétt, að í þeirri löggjöf, sem núv. Alþ. hefur samþ., er skattstiginn svipaður því, sem hann var í minni till., að öðru leyti en því, að hann var áætlaður nokkuð hærri af þeim tekjum, sem stríðsgróðaskatturinn kemur á. Þar eru ýmsar aðrar frádráttarreglur, sem hæstv. ráðh. kannast við. En hér er gert ráð fyrir sama skatti af 7 þús. kr. og 100 eða 200 þús. kr. Það er mjög fjarri því, að við teljum þessa aðferð rétta, að leggja jafnháa skatta á háar og lágar tekjur, enda er ekki nokkur sanngirni í því.

Nú segir hæstv. viðskmrh., að ekki sé frekar gengið á snið við Alþ., þó að hróflað sé við tekjuskattinum, heldur en ef lagt væri á útflutningsgjald. Þetta er mjög fjarri sanni. Hann veit vel, að í þingbyrjun var rætt um útflutningsgjald, en alls ekki um launaskatt eða þennan nýja tekjuskatt, fyrr en nú síðustu dagana, eftir að búið var að fresta þingkosningum. Ég veik að því í minni ræðu, að ég hefði hugsað mér hærra útflutningsgjald en 10%. Ég tók líka fram, að væru siglingar teknar upp á ný til Englands með ísaðan fisk, miðað við verðlag nú upp á síðkastið, er möguleiki til þess að leggja á hærra útflutningsgjald en 10%. Hvort þær vonir rætast, fer eftir því, hvernig samningarnir takast við Bretann.

Hæstv. viðskmrh. drap á í sinni ræðu, sem annars upplýsti mjög lítið, að eina milljón þyrfti til að breyta um eitt stig í vísitölunni. Þetta kann að vera rétt, en ég vil lenda á, að þó ekki náist nema 10% lækkun á verði þess varnings, sem vísitalan miðast við, þá mun hún lækka um 15 stig. Þetta hlyti aftur að leiða af sér mjög verulega lækkun á kaupgjaldi og framleiðslukostnaði, og þannig yrði þeim straumi snúið við.

Ég hafði hugsað, að hæstv. ráðh. mundi gera nokkra grein fyrir því, hversu mikið fé hann teldi, að þyrfti að leggja fram til næstu áramóta, ef eitthvað væri hægt að draga úr dýrtíðinni. Mér virðist þurfa í þessu skyni 6 til 10 millj. kr. og mætti vænta verulegs árangurs af þessu fé, ef það yrði réttilega notað til verðjöfnunar í landinu, vegna þess að hvert stig, sem vísitalan lækkar um, kemur fram sem lækkandi kaupgjald og framleiðslukostnaður í landinu. Nú eru mjólkurvörur og fiskur meginþunginn af þeim matvörum, sem notaðar eru hér í Rvík. og ef verðlagið á þessum vörum er stöðvað, mætti strax vænta verulegs árangurs.