13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (2737)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vil segja nokkur orð um brtt. og afgreiðslu málsins í fjhn. Ég vil þá fyrst minnast á brtt. á þskj. 741, þær, sem samkomulag hefur orðið um í fjhn. Eins og ræðumenn úr fjhn. hafa tekið fram, miða, þessar till., nema 2. till., að því að gera ákvæði frv. fyllri, og eru þær gerðar í samráði við þá ráðh., sem mættu á fundum n., og eru allar til bóta.

Um b-lið 2. till. vil ég segja eftirfarandi, til þess að fyrirbyggja misskilning: Hann fjallar um, að ríkisstj. skuli heimilað að fella niður til ársloka 1942 toll á kornvörum og helming tolls á sykri, en á sama tíma að hækka um 50% áfengis- og tóbakstoll. Vegna ummæla hv. þm. Seyðf. og hv. þm. A.-Húnv. verð ég að skýra frá því, að fyrir alllöngu varð samkomulag um það í ríkisstj., að hún reyndi að afla heimildar til að fella niður kornvörutoll og hálfan sykurtoll. Um leið og þetta var ákveðið, var líka rætt í stj. að afla heimildar til að hækka toll af ónauðsynlegum vörum. Hér er því ekki um nýmæli að ræða hjá n., heldur till., sem ríkisstj. hefur komið sér niður á í sambandi við umr. um þessi mál. Hér er því ekki um óvænta tekjuöflun að ræða, sem vegið geti á móti till., sem ég hafði gert í frv.

Ég vil þá minnast á ágreiningsefnið í sambandi við þetta frv., brtt. hv. meiri hl. á þskj. 742. Eins og menn muna, voru ágreiningsefnin tvö við fyrstu umr., en það má segja, að umr. um annað hafi fallið niður, og nú sé aðeins um að ræða þann ágreining, sem kemur fram í till. meiri hl. á þskj: 743. — Þ. e. ágreiningurinn um hinn almenna skatt, sem frv. gerir ráð fyrir.

Forsaga málsins er sú, að málið var fyrst lengi til umr. í ríkisstj., og 6 manna n. fjallaði um það hér í hv. Alþingi. Í 6 manna n. virtust allir vera á einu máli um það, að slíkt gjald ætti rétt á sér, þó að skiptar væru skoðanir um það, hve langt skyldi gengið í að undanþiggja lægri tekjur þessu gjaldi, og í þeirri n. voru fulltrúar allra þingflokkanna.

Ég verð því að segja það, að þær undirtektir, sem þetta atriði hefur fengið hér á Alþingi og í sumum stuðningsblöðum ríkisstj., virðast mér ekki lítið undarlegar, þar sem því er haldið fram, að það sé alveg óviðeigandi að leggja á slíkt gjald yfirleitt og auk þess, sem allmikil gagnrýni hefur komið fram á skattstiga þeim, er í frv. felst.

Ég bjóst fremur við öðru en því, að reynt yrði að spilla fyrir því, að þetta gjald yrði samþ. á Alþingi, eftir því sem á undan var gengið í málinu. Nú hefur þetta farið á allt annan veg. Meiri hl. fjhn. hefur lagt fram till. um það, að 5. gr. skuli breytt þannig, að hið almenna gjald falli niður, en í stað þess komi 10% álag á tekjuskatt.

Þessi brtt. rýrir stórlega þær tekjuvonir, sem mátti gera sér af frv. því, sem hér liggur fyrir. Þetta 10% álag mun aldrei geta gefið í tekjur nema lítinn hluta af því fé, sem hefði fengizt með þeirri till., sem fyrir lá. Það er þess vegna auðséð, ef þessi till. verður samþ., sem ég geri ráð fyrir, að ekki verði hægt að koma í veg fyrir, þá verður frv. í heild stórspillt og líkur minnkaðar fyrir því, að það geti náð tilgangi sínum.

Að því er snertir samanburð á þeim till., sem eru í frv., og þeim, sem liggja, fyrir frá meiri hl. fjhn., vil ég aðeins nefna örfá atriði til að sýna mönnum, hver munurinn á þessum 2 till. er.

Samkv. till. minni átti einhleypur maður, sem hefur 8 þús. kr. hreinar tekjur, að borga 205 kr. í þann sjóð, sem átti að vinna með gegn dýrtíðinni. Þetta hefur vaxið mönnum mjög í augum. Og samkv. brtt., sem koma frá meiri hl. fjhn., á sami maður því að borga einar 31,80 kr. Einhleypur maður, sem hefur 20 þús. kr. hreinar tekjur, hefði orðið að borga 805 kr. eftir minni til., en samkv. till. fjhn. mundi hann eiga að borga 297 kr. Þessar tölur sýna glögglega, hve mjög frv. er spillt, ef þessi till. verður samþ.

Ég hafði frekar búizt við því, eftir því, sem á undan var gengið, að fjhn. mundi snúa sér að því að draga eitthvað úr því gjaldi, sem lagt var til á lágtekjur, en hækka fremur gjaldið á hærri tekjur, en sú hefur ekki orðið raunin á.

Það mun vera viðurkennt af öllum, sem eitthvert skyn bera á þau mál, að einhver mesta hætta, sem nú er fyrir dyrum í sambandi við verðlagsmál og verðgildismál peninga, er einmitt hið mikla pappírspeningaflóð, sem yfir landið streymir. Við verðum að opna augun fyrir því hér á Alþingi, að þessir peningar eru ekki aðeins í fórum þeirra, sem hafa hæstar tekjur, heldur hefur nær öll þjóðin fengi stórauknar tekjur. Við verðum að gera okkur það ljóst, að einmitt sú breyt. er að verða núna, vegna síhækkandi kaupgjalds og vegna þess að stærsti gróðinn er að minnka, að þessar tekjur eru ekki eingöngu hjá fáefnum útgerðarmönnum og stórgróðamönnum, heldur eru þær hjá öllum þorra manna, sem betur fer. Þetta skapar sérstakt vandamál í landinu, og mér þykir undravert, að Alþingi skuli ekki fást til að líta á þetta sjónarmið og skuli hika við, undir þessum kringumstæðum, að leggja á þau hóflegu gjöld, sem gert er ráð fyrir í frv., sem fyrir liggur, ef þau mættu verða til þess að draga eitthvað úr þeirri miklu hættu, sem stafar af þessu peningaflóði og verðbólgunni, sem af því leiðir.

Mér finnst það satt að segja ekki bera vott um það, að menn hafi krufið þessi mál til mergjar, að þeir skuli víla svo mjög fyrir sér að fylgja þeim till., sem fyrir liggja, í aðalatriðum. Minni háttar breytingu hefði verið hægt að gera að því er þá snertir, sem hafa lágar tekjur. Sú afgreiðsla, sem þetta mál á að fá, fyrir atbeina Alþfl. og Sjálfstfl., er ekki í samræmi við það ástand, sem nú ríkir í peningamálum þjóðarinnar, og ég mótmæli þeirri afgreiðslu.

Eins og ég sagði áður, eru möguleikarnir til að frv. beri árangur, mjög svo rýrðir með, þessum brtt. Ég vil taka það enn á ný skýrt fram fyrir mitt leyti, að ég álít ástandið vera þannig og svo mikils þurfa við, að ég hefði viljað hafa gjöldin hærri en lagt var til í mínum till. og víla ekki fyrir mér að taka á mig þær óvinsældir, sem fylgja því að hafa slíkt sjónarmið og láta það uppi. Straumurinn liggur nú hins vegar í hina áttina, og þingvilji mun vitanlega skera úr um þetta.

Ég vil þá aðeins minnast örfáum orðum á brtt. hv. þm. A.-Húnv. og hv. 3. landsk. á þskj. 743.

Mér finnst, að á þeirri till. séu tveir megingallar, sem gera það að verkum, að ekki eigi að fylgja henni. Annar gallinn er sá, að till. er byggð á þeim grundvallarmisskilningi, að þessi samansöfnun fjár, sem hér á að eiga sér stað, fari fram til þess að styðja bændastétt landsins sérstaklega. Þetta er mesti misskilningur. Eins og fyrirkomulag málanna er núna, þá geta bændur áreiðanlega fengið sanngjarnt verð fyrir þær afurðir, sem þeir selja á innlendum markaði, og þarf enga sérstaka tekjuöflun handa þeim í þessu sambandi. Hitt er annað mál, að í þessu frv. er opin heimild til að styðja hvaða. atvinnuveg sem er, hvort sem það er landbúnaður eða annað, sem verður fyrir sérstökum óhöppum í sambandi við styrjaldárástandið. Er þar sérstaklega átt við stuðning til þeirra, sem verða fyrir því tjóni, að útflutningsvörur þeirra seljast með óviðunanlega lágu verði. Hinn gallinn er sá, og er ákaflega ógeðfelldur, að hv. þm. A.-Húnv. og hv. 3. landsk. þm. vilja láta Búnaðarfélag Íslands, sem er stéttarfélagsskapur bænda, algerlega segja til um það, við hvaða verði selja eigi íslenzkar landbúnaðarafurðir, og svo á ríkisvaldið að útvega fjármuni til þess að þetta verð sé tryggt, ef markaðsástæður geta ekki tryggt verð þetta. Þetta er mjög óeðlileg hugmynd og hættulega einhæft sjónarmið. Hvar værum við staddir, ef stéttarfélög landsins ættu að ákveða, hvað hver stétt ætti að fá í kaup. Þá mundi Alþýðusambandið úrskurða, hvað verkamenn ættu að hafa í tekjur, og þar fram eftir götunum, og ef atvinnufyrirtækin gætu ekki borið kaupgjaldið, þá ætti ríkið að borga mismuninn. Mikið er það ríki. — Flestir hljóta að sjá, að með þessu væri komið út í hinar mestu ógöngur. Þetta eru álíka miklar öfgar eins og þær, sem haldið er fram af þeim, sem ekki sjá neina aðra þörf í sambandi við þessi dýrtíðarmál en að halda niðri markaðsverði á íslenzkum afurðum, og hvorug verðskuldar mikla athygli. hvað þá heldur fylgi.