13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Ég sleppti því að taka til máls við 1. umr. um þetta mál, sökum þess, að ég gerði ráð fyrr því, að um þetta mundi verða fjallað talsvert mikið á milli l. og 2. umr.

Það hefur ekki getað orðið samkomulag um þetta frv., hvorki innan flokkanna út af fyrir sig né ráðh., þannig að það gæti komið fram sem frv. þeirra allra eða stjórnarfrv. Reynt hefur verið að vinna að frv. á milli umr., þó er sá tími svo stuttur, að þess sjást ekki veruleg merki í till. þeim, sem fram eru komnar.

Af þeirri ástæðu, að ég hef alveg sleppt að gera þær almennu athugasemdir, sem ég vildi gert hafa við 1. umr., þá geri ég ráð fyrir, að það, sem ég nú segi, verði nokkuð ýtarlegra en ella mundi orðið hafa.

Fyrirsögn frv. er, eins og allir vita, um tekjuöflun vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna.

Það kemur að sjálfsögðu engum á óvart, þó að ríkisstj. fyndist, að eitthvað þyrfti að gera til að halda dýrtíðinni í skefjum, og sjálfsagt telja flestir, að byrjað sé seinna en skyldi.

Það er vitað, að á því hefur verið alið og reynt að brýna menn til þess, sérstaklega af stjórnendum landsins, svo árum skiptir, að vera á verði gegn dýrtíðinni og gera í tíma ráðstafanir til þess, að hún yrði ekki svo ægileg, að landsmenn stæðust hana ekki. Þegar það er nú athugað, að lítið hefur verið gert og um það sinnt, þá ætti það heldur að vera fagnaðarefni, að þetta frv. skuli vera fram komið. En sá galli fylgir því frá mínu sjónarmiði, að það er bara allt of seint.

Það er mjög vafasamt, hvort nokkuð er hægt að gera með tekjuöflun. Það má sjálfsagt hefta hana með öðrum ráðum, svo sem eftirliti með verðlagi, en með beinum peningaframlögum er ákaflega erfitt að hefta dýrtíðina.

Ég vil ekki fara neitt verulega út í orsakir dýrtíðarinnar. Þess gerist ekki þörf að rifja það upp. En mjög er leiðinlegt til þess að vita, að þau tækifæri, sem til voru til þess að dýrtíðin flæddi ekki eins fljótt yfir okkur, skyldi látin ónotuð. Það er líka leiðinlegt til þess að vita, þegar hæstv. viðskmrh. fer fram á það, að ríkisstj. sé fengið mikið vald í hendur til að vinna gegn dýrtíðinni, að þá skuli fortíð hennar vera eins og hún er. En það er kunnugt, að ríkisstj. gekkst beinlínis fyrir því, sem var fyrsta sporið til dýrtíðar, en það var gengisbreytingin. Þá hafði ríkisstj. einnig á valdi sínu, að innflutningur til landsins yrði aukinn, en hún stóð eins og múrveggur gegn því, að innflutningurinn yrði örvaður, og gekkst þannig fyrir þeim vöruskorti í landinu, sem ætíð er óbrigðul ástæða til verðhækkunar.

Þegar gengisbreytingin varð, þá var, eins og kunnugt er, strax í upphafi afgreidd hér löggjöf, sem átti að gera ríkisstj. fært að halda niðri verðlagi og stemma stigu við dýrtíðinni. Það, sem eftir stendur af henni, er í rauninni ekkert annað en það, sem eftir er af húsaleigulögunum og eftirlit með verðlagi. En það verður að segja þá raunasögu, eða a. m. k. benda á þá sögu, sem við verðlagsákvarðanir hefur verið bundið, en hún er sú, að ríkisstj. fékk aldrei sjálf beina hlutdeild í verðlagsákvörðunum, heldur hefur það verið falið einstakri nefnd að sjá um þau mál. Störf þessarar nefndar, sem átti að hafa hönd í bagga með hinu almenna verðlagi, hafa farið mjög í handaskolum, eins og við neytendurnir langbezt vitum og hljótum að taka eftir.

Það gefur að skilja og leiðir af fyrirsögn frv., að það verður hér um einhverja verulega tekjuöflun að ræða. Nú er það svo, að í þessu frv. í 3. gr., er fyrst og fremst heimilað að verja 5 millj. kr. af tekjum ríkissjóðs í því skyni að halda niðri dýrtíðinni. Enn fremur er í 4. gr. heimilað, með reglugerð, að leggja allt að 10% aukagjald á tekjur skattborgaranna, og í þriðja lagi, í 4. gr., að leggja 10% skatt á útfluttar afurðir, og í 5. gr. að leggja 10% aukagjald á tekjuskatt.

Þetta er að sönnu miklum mun lægra í frv. en fyrst var talað um, því þá átti þetta útflutningsgjald að verða 15%, og mér skildist þá, að ríkisstj ætlaði sér að fá reglugerð um að leggja á gjöld, sem gætu numið allt að 30 millj.

Útflutningur s. l. ár varð ca. 133 millj. kr. Ef við það væri miðað, að útflutningurinn yrði svipaður á þessu ári, þá mundi útflutningsgjaldið nema 13 til 14 millj. kr. með 10%, og ef það yrði eins og fyrst var til stofnað, yrði það um 20 millj.

Það er ekkert undarlegt, þó okkur ýmsum þm. brygði heldur í brún, þegar ríkisstj. hefur það ú orði, að við heimilum henni með reglugerð að leggja gjöld á landsmenn, sem næmu nálægt 5 sinnum meiru en allur tekju- og eignarskatturinn, sem um var búið að deila allt þingið eða a. m. k. 3 mánuði. Og þegar talað er um skilningsleysi og ábyrgðarleysi þm., ef þeir vilja standa á móti þessum kröfum, verður að segja það, að mér þykir ríkisstj. og þeir, sem henni fastast fylgja, orðnir nokkuð kröfuharðir, þegar þeir telja það firrur einar, þó menn stingi dálítið við fótum, þegar kippa á af landsmönnum 30 millj. kr. Hún álasar þeim mönnum þunglega fyrir ábyrgðarleysi og skilningsleysi, sem eitthvað vilja á móti þessu standa í ráðstöfunum hennar gegn dýrtíðinni.

Nú er svo komið, að ríkisstj. ber í raun og veru ábyrgð á verðlagsnefndinni. Hún ber ábyrgð á því, hvernig kaup og sala hefur farið fram á innlendum og útlendum vörum. En við sjáum það og höfum tekið eftir því, að verðlagið hefur á ýmsum vörum beinlínis hækkað við það, að verðlagsnefnd fjallaði um það. Það er enginn minnsti vafi á því, að verðlag á matvörum hefur hækkað að miklum mun fyrir afskipti verðlagsnefndar. Þetta er óviðunandi, og ef ríkisstj. ætlar að afla sér 20 til 30 millj. til þess að slíkt geti átt sér stað, þá er engin von til þess, að þm. allir a. m. k. geti samþ. slíkt.

Ég sé ekki ástæðu til að nefna hér nein dæmi, en ef ríkisstj. eða hennar talsmenn vilja neita þessu, þá get ég bent á fjölmörg dæmi, þar sem álagning á nauðsynjavörur; rétt við nefið á ríkisstj., er svo úr hófi fram, að það er alls ekki vansalaust, að slíkt skuli látið við gangast.

Í 1. gr. þessa frv. er talað um að afla fjár vegna erfiðleika atvinnuveganna. En það er engin skýring gefin á þessu í eftirfarandi greinum. Hvað eru atvinnuvegir í þessu sambandi? Og á hvern hátt á að styrkja þá samkv. frv.?

Atvinnuvegir er það, sem, eigandi framleiðslunnar og þeir, sem að henni vinna, hafa sér og sínum til lífsuppihalds. En þessa starfsemi á að styrkja samkv. frv. með því að leggja 10% útflutningsgjald á útfl. vörur eftir mati ríkisstj. Þetta nær fyrst og fremst til sjávarafurðanna. Svo var nú í upphaflega plagginu, sem gekk á meðal þm. í stjórnarflokkunum, meiningin að leggja líka smáskatt í viðbót á þá, sem fengju að greiða útflutningsgjaldið, eða 10% af nettótekjum. Þetta var svo að vísu lækkað ofan í 5% í frv. Ég er hræddur um, að þeir, sem vinna að framleiðslu útflutningsafurða, telji þetta lítinn stuðning við sinn atvinnuveg. A. m. k. skil ég ekki slíka aðstoð. Það má gera ráð fyrir, að launþegunum þyki „stuðningurinn“ næsta lítils virði.

Þá er aðeins eftir landbúnaðurinn. Hagsmunir hans munu vera höfuðástæðan til þess, að frv. þetta er fram komið. Það hefur kamið greinilega í ljós í umr., að þessi krafa er fram komin vegna eins flokks, og talsmennirnir segja, að bændurnir séu eina stéttin og einu mennirnir, sem enga launahækkun hafi fengið eða verðlagsuppbætur á sína framleiðslu. Ef svo væri, þá væri vissulega ærin þörf að afla fjár til þess að leiðrétta þetta. En ég vil nú athuga þetta nokkru nánar.

Mér er það eins vel kunnugt og öðrum hv. þm., hvað bændur fengu fyrir aðalframleiðsluvörur sínar fyrir stríð.

Bændur fengu undir 1 kr. fyrir. kg af kjöti heim til sín fyrir stríð. Það hækkaði upp í 1.16 á s. l. ári, og er gert ráð fyrir, að kjötið hækki enn svo til bænda, að þeir geti fengið greitt kr. 1.70–1.80 fyrir kg. af framleiðslu s. 1. árs. –Það er því engin hæfa í þeirri fullyrðingu, að bændur hafi engar verðlagsuppbætur fengið né kauphækkun. Hitt er annað mál, að það getur verið, að megnið af verðhækkuninni komist aldrei til skila. En verðið hefur fast að því tvöfaldast. Okkur er a. m. k. kunnugt um það, neytendum hér í Reykjavík, hvað við höfum gefið fyrir þessar vörur nú og fyrr.

Form. kjötverðlagsnefndar, Páll Zóphóníasson, hefur sagt, að verðlagsn. hagi verðlaginu í samræmi við hækkun vísitölunnar, og meira en það, jafnframt því, sem vinnukraftur hefur hækkað meira en vísitala. Hann segir enn fremur, að það sé annað með kjötið, sem allt sé selt í einu lagi á haustin, eða mjólkina, sem geti hækkað daglega til bændanna.

Það er því alveg víst, að bændurnir hafa átt að geta fengið verðlagsuppbætur, og hafa reyndar fengið mikla hækkun. Það er þess vegna þeim mun minna, sem þarf að bæta þeim upp, miðað við þá staðhæfingu, að þeir hafi ekkert fengið.

Það, sem mér hefur lengi skilizt að þyrfti að gera fyrir bændur, er að bæta þeim upp það afurðaverð, sem þeim var greitt fyrir stríð. Því þá var vitanlegt, að bændur voru mjög aðþrengdir og fengu yfirleitt of lágt verð fyrir sína vöru. En nú upp á síðkastið held ég, að óhætt sé að fullyrða, að landbúnaðarafurðir hafi hækkað nokkurn veginn í samræmi við tilkostnaðinn. Og sé ég því ekki, að það þurfi að afla neinna milljónatuga til þess að bæta úr þessu. Ég held, að það væri hægt að finna hóflegri og léttari leið. Ég tel víst, að til þess að leysa úr þessum vanda myndi nægja ákvæði 3. gr. frv:, um 5 millj. kr. heimild til þeirra þarfa. sem í l. gr. getur.

Hins vegar má segja, að það sé ekki víst, að ríkissjóður hafi neinar 5 millj. kr. aflögu af tekjum þessa árs. En þá yrði að reyna að afla sér þeirra eftir á. Annars er svo með allar tekjur ríkissjóðs. Það er vitaskuld sama með þessar 5 millj. og þær aðrar upphæðir, sem fjvn. og Sþ. ráðgera að fá í tekjur. Það er aldrei víst, að tekjustofnarnir nægi, og þá verður að finna nýjar leiðir.

Í framhaldi af því, sem ég hef sagt hér, vil ég fara nokkrum orðum um brtt. meiri hl. fjhn. á þskj. 742.

Sessunautur minn (SH) sagði, að launastéttirnar hefðu mestar nettótekjur allra stétta, og við endurskoðun ræðu sinnar sagði hann, að launastéttirnar væru færastar um að leggja á sig skattabyrðar til þess að halda niðri dýrtíðinni.

Ég held, að, það séu nú e. t. v. fleiri en hann, sem vita, hvernig kjör og afkoma þeirra er, sem búa við bein starfslaun.

Við skulum taka verkamennina. Þeim hefur nú undanfarið komið tvöföld hjálp : Mikil og stöðug atvinna og „full“ dýrtíðaruppbót. En við skulum líka minnast þess, að þessi stétt var búin að vera í hreinu svelti árum saman. Verkamenn gátu ekki svo mikið sem keypt sér stól eða bolla, disk til að borða af né flík utan á sig. Það var ekkert handtak að gera. Þessir menn gátu því ekki keypt sér nauðsynlegustu húsgögn né haldið íbúðum sínum snotrum og hlýjum. Það má segja, að verkamenn sætu árum saman klæðlausir í auðum og köldum herbergjunum.

Það hefur engin áhrif á þessar staðreyndir og gerir þær ekki síður alvarlegar, þótt fíflahlátur gjalli við umhverfis mig. Þessar staðreyndir, sem ég hef lýst, þekkjum við bezt, sem búum í nábýli við verkamenn.

Það er rétt, að kjör þeirra hafa batnað. En þeim veitti ekki heldur af. Þeir komu úr hreinu svelti. En kjör þeirra eru þó ekki með öllu eins góð og þau sýnast, því að vísitalan er áreiðanlega ekki rétt, miðað við aukningu dýrtíðarinnar. Dýrtíðin er orðin meiri en 50%. Ég er viss um, að dýrtíðin er nær 100% en 50% í raun og veru. Þetta táknar ekki svo litla kauplækkun í sjálfu sér fyrir verkamenn og aðrar launastéttir. Enda finna allir þetta.

Mér er sérstaklega vel kunnugt um þetta, því að ég hef árum saman keypt sjálfur og skoðað, svo að segja, hvern hlut, sem til heimilis míns hefur þurft, hvort er fæði eða flík. Og ég er ekki haldinn af þeim auðmannagorgeir, að ég

þykist of fínn til að vita, hvað hlutirnir kosta, eða það standi á sama um verð þeirra.

Ég fullyrði því, að það sé alrangt hjá hv. sessunaut mínum, að launastéttirnar hafi mestar nettótekjur og að þær eigi auðveldast með að bæta á sig byrðunum. Hjá miklum hluta þeirra hefur ríkt skortur og vandræði fram á þennan dag.

Í þessu sambandi er oft talað um hinar miklu tekjur sjómanna. Þeir eru framleiðendur, oftast hlutamenn í einhverju formi, og hafa því að sönnu borið meira úr býtum upp á síðkastið en oft áður. En ég held nú, að það sé svo innanmagurt hjá mörgum eftir hin þungu aflaleysisár, að þeir séu yfirleitt ekki farnir að safna fé í sparisjóði.

Mér finnst yfirleitt í þessu frv. og framkomu ríkisstj. kenna mikils kulda í garð vinnustéttanna í öllum hennar fjáraflaplönum. Hún lætur flytja inn mörg hundruð verkamenn frá Færeyjum og e. t. v. Bretlandi. Það er með þessu reynt að hafa atvinnuna af ísl. verkamönnum. Flestir þeirra manna, sem atvinnuna missa, eiga ekki hægt með að fara í sveit. Þeir eiga ekki heimangengt. Enda er mest tilbúningur af því, sem talað er um fólkseklu í sveitum, í því skyni að lækka kaupið í bæjunum.

Ég skal játa, að í frv. fjhn. hefur skattgjaldið á tekjur snúizt nokkuð til vægðar frá því, sem um var rætt í flokkunum upphaflega, einkum þó, ef lagt verður aðeins visst gjald á skattinn. Það er mikill skilsmunur, hvort 5% gjaldið er lagt beint á tekjurnar eða aðeins ofan á skattinn. Og ef launastéttirnar taka á annað borð þátt í kostnaði skv. frv. þessu, þá má eftir atvikum telja sanngjarnt, að þær greiði aukaskattgjald af skattinum. En það er þó engin ástæða til, að þm. samþykki þetta frv., nema ríkisstj. fáist til að gera grein fyrir, hvernig tekjunum samkv. því verði varið. Ef hún leggur fram áætlun um, hvernig á að bæta upp afurðir bænda til að mæta dýrtíðinni, þá er allt öðru máli að gegna. En það lítur út fyrir, að hún vilji bara fá ríflega heimild til tekjuöflunar, en ráða því svo að öllu leyti sjálf, hvernig þeim verður varið.

Mér sýnist, að það væri innan handar fyrir ríkisstj. að halda niðri dýrtíðinni með öflugum hömlum á verðlagi á innlendum vörum og erlendum. Og í því skyni ætti fjárveitingin skv. 3. gr. að nægja.

Það er talað um, að það beri vott um litla ábyrgðartilfinningu hjá þm. að synja stj. um þessa heimild. Ég held, að það bæri vott um minni ábyrgðartilfinningu hjá þm., sem hafa nýlega svipt kjósendur landsins aðstöðu til að segja álit sitt við kosningar, ef þeir gæfu stj. heimild til að skattleggja þjóðina um tugi millj. í viðbót við allt annað. Þetta nýja gjald kemur aftan á alla. Það hefur enginn getað búizt við því.

Nú stendur fyrir dyrum að semja við Breta um viðskipti, kaup á ísl. afurðum. Það eru sömu ástæður hér og þegar sendinefndin var hér í fyrra: Nú er komið tilboð frá Bretum í ýmsar vörur. Ég býst við, að þetta tilboð megi að mestu leyti skoða sem uppkveðinn úrskurð. En hvað sem því líður, hlýtur 10% útflutningsgjaldið að koma eingöngu niður á framleiðendum. Það er vitanlegt, að útflytjendurnir bera ekki mikinn hluta þess. Það kemur mestallt og allt niður sem frádráttur á tekjum þeirra, sem við framleiðsluna vinna. Með þessu ákvæði er vegið algerlega aftan að þeim fjölda, sem vinnur við sjávarútveginn.

Það er mjög margt í frv. þessu, sem þörf væri að gagnrýna. En ég ætla nú ekki að lengja mál mitt öllu meira.

Ég vil taka það fram, að brtt. á þskj. 741 eru ekki þýðingarlitlar. Eingöngu 3. tölul. undir stafl. b. við 2. gr., um 50% hækkun álags á tóbak og áfengi, gæti, ef samþ. yrði, gefið ríkissjóði mjög álitlegan tekjuauka, ef ekki verður skortur á þessum vörum.

Ég býst við, að hv. fjhn. hafi reynt að kynna sér, hvernig þetta mál á allt að verða í framkvæmd, einkum þó ef tollaívilnun verður gerð á nauðsynjavörum, hvort tryggt sé, að tilsvarandi vörur lækki þá í útsölu, o. s. frv.

Þessar aths. þýða ekki, að ég sé á móti till., en ég vil undirstrika það, að herða þarf á verðlagseftirlitinu, og ég er alltaf reiðubúinn til þess að ljá auknu verðlagseftirliti fyllsta stuðning. En þessari till. mun ég greiða atkv. mitt.