13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Pétur Ottesen:

Mér þætti vænt um, ef fleiri ráðh. en sá eini, sem hér er viðstaddur, vildu skjótast inn í d., rétt á meðan ég segði nokkur orð. Ég skal ekki tefja þá lengi frá störfum, sem þeir kunna að vera að vinna að hér í hliðarherbergjunum.

Ég vil í sambandi við þetta mál, sem er eitt af þeim stærstu, sem fyrir þessu þingi hafa legið, sérstaklega þó í sambandi við það, hvernig það ber hér að, segja nokkur orð. Það hefur verið svo, að öll stórmál, sem afgr. hafa verið á þessu þingi, þau hafa verið afgr. með fullkomnu samkomulagi innan ríkisstj. Og yfirleitt hefur það verið svo, að áður en málin hafa verið lögð fyrir Alþ., eða a. m. k. komið til úrslita á Alþ., þá hafa þau verið undirbúin af stj., sem hefur þá verið búin að koma sér saman um öll aðalatriði þeirra. Má í þessu sambandi benda til dæmis á sjálfstæðismálið þingfrestunarmálið; einnig má nefna dýrtíðaruppbót til embættismanna, sem er stórt fjárhagsmál. Þessari reglu hefur sem sagt alltaf verið fylgt síðan samstarfið hófst. Hitt hefur svo aftur borið við, að leiðir einstakra þm. hafa ekki alltaf legið saman um öll atriði þessara mála. En niðurstaðan hefur alltaf orðið sú, að meginþorri hv. Þm. hefur staðið á bak við ríkisstj. um fullnaðarafgreiðslu málanna. Svona er þetta einnig, að því er ég bezt veit, um afgreiðslu stærri mála hjá stj. á milli þinga. T. d. er það vitað, að stj. setti sér þegar í öndverðu þær starfsreglur að afgr. ekki bráðabirgðalög með öðrum hætti en þeim, að ríkisstj. stæði öll að útgáfu þeirra. Þetta er ekki heldur að undra, því að slíkt samstarf, rækt á þann hátt, er grundvöllurinn undir allri samvinnu í stj., sem stofnað var til á þinginu 1939. En nú er það í þessu máli, sem hér ber nýrra við. Eftir því, sem bezt verður séð og fram hefur komið í umr., er nú þessi regla í fyrsta sinn brotin. Og ég verð að segja, að því varhugaverðari er þessi nýja braut, sem hér er farið inn á, þar sem þessi regla er brotin einmitt í þessu máli, sem svo langsamlega mest reynir á samstarfið, bæði að því er snertir afgreiðslu málsins á þingi og ekki síður framkvæmd þess eftir að búið er að skila því í hendur ríkisstj. Mér virðist þess vegna, að það sé fullkomlega þess vert fyrir stuðningsmenn hæstv. stj. að gera sér nú þegar grein fyrir því, hvað hér er að gerast í þessu máli, og yfirleitt hvað hér virðist vera í uppsiglingu þegar litið er til þess, sem áður hefur gerzt í sams konar málum hér á Alþ. síðan þetta samstarf tókst. Ég lít svo á, að af þeim stórmálum, sem afgr. hafa verið á þessu þingi, velti ekki hvað minnst á því, hvernig tekst um afgreiðslu þessa máls. Ég tel, að fyrsta skilyrðið fyrir því, að þess gagns megi vænta af slíkri löggjöf, sem menn gera sér vonir um, þó skoðanir um það atriði heildarlega séð, séu nokkuð skiptar, sé, að ríkisstj. standi einhuga og óskipt að afgreiðslu málsins. En á það virðist mér nokkuð bresta. Það er þess vegna fullkominn ótti í mér um það, að ósamkomulag innan stjórnarinnar í verulegum atriðum í þessu máli, geti orðið til þess að draga úr þeirri þýðingu og því gildi, sem löggjöfinni er ætlað að hafa, og hrekja ríkisstj. að meira eða minna leyti frá því marki, að fullkomið og einlægt samstarf sé ríkjandi innan hennar, um lausn vandamála þjóðfélagsins. Þá skulum við einnig gera okkur ljóst, hver munur það er viðvíkjandi tekjuöfluninni, að ríkisstj. standi einhuga um málið. Gjaldendurnir í landinu verða að sjálfsögðu að leggja fram féð, og slíkt veldur alltaf óánægju. Hver munur halda menn að sé, ef ríkisstj. er ósammála um tekjuöflunarleiðina? Það hefur verulega þýðingu til þess að skapa ró um málið meðal landsmanna, að fullkominn einhugur ríki meðal stj. og Alþ. um alla afgreiðslu málsins. Ég get hins vegar ekki litið öðruvísi á en svo, að ef ekki tekst fullt samkomulag um þetta mál, a. m. k. innan ríkisstj., þá hafi stjórnarsamvinnan beðið svo mikinn hnekki, að hún sé að vissu leyti brostin.. Og þá brestur hún í því máli, sem afdrifaríkast getur orðið fyrir okkur nú. Það hefur verið svo með mig, að ég hef ávalt verið ákveðinn stuðningsmaður þessarar þjóðstjórnar, auk þess sem ég vann að hví á sínum tíma með öðrum góðum mönnum að reyna að greiða götu þessa samstarfs í öndverðu. Og mér er það alveg ljóst, hver hætta okkur er búin nú, ef þetta samstar í bíður verulegan hnekki, því ef okkur hefur nokkurn tíma verið nauðsynlegt að standa saman, sem ég ætla að vona, að enginn hafi nokkru sinni efazt um, þá er slík nauðsyn ekki síður fyrir hendi nú.

Í samræmi við þetta, sem ég nú hef sagt, vildi ég bera fram þá till. til hæstv. forseta, hvort hann sæi sér ekki fært og hvort hann liti ekki svo á, að heppilegt mundi vera að taka þetta mál nú út af dagskrá, einmitt á því stigi, sem það nú er, áður en gengið er til atkv. um ágreiningstill., til þess að freista þess enn á ný að ná sams konar samkomulagi um þetta mál sem önnur stórmál, sem afgr. hafa verið á þessu þingi, svo að fullur einhugur megi ríkja um þetta mikilsverða mál. Ég veit, að hv. þm. eru mér sammála um það, hver nauðsyn er á þessu og hve þýðingarmikið það er, að góð samvinna geti ríkt nú, þannig, að þinginu ljúki svo, að enginn ljóður hafi orðið á okkar ráði í þessu efni að því er snertir stærstu mál þingsins. Og ég er sannfærður um, að þetta út af fyrir sig hefur mikla þýðingu í sambandi við það, sem við tekur þegar kemur til kasta ríkisstj. að berjast við alla þá erfiðleika, sem henni kunna að mæta bæði í þessu máli og öðrum.

Ég hefði gjarnan viljað minnast á nokkur atriði í þessu frv., sem hér liggur fyrir, en þar sem ég hef borið fram þessa ósk um að taka málið út af dagskrá, þá sleppi ég því alveg að þessu sinni. Og ef til vill getur svo til tekizt, ef þessi ósk ber þann árangur, sem sannarlega er mín meining að hún beri, að þess verði ekki þörf.