13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Gísli Sveinsson:

Ég mun ekki setja mig upp á móti því, að þetta mál verði tekið upp á nýjan leik til athugunar, því ég tel slíks fulla þörf, og það frá fleiri sjónarmiðum en hv. þm. Borgf., og mundi ég því spara mína ræðu, ef þetta lægi fyrir, en þar sem hæstv. viðskmrh. kveður sér ekki hljóðs til að láta í ljós sitt álit, þá vil ég ekki draga að segja fáein orð.

Hæstv. viðskmrh. talaði nú í dag við þessa umr. um þær till., sem frammi hafa verið. Og hann minntist á í sambandi við málfærslu sína um skattaálögurnar, er 5. gr. fjallar um, að það hefði ekki komið fram, hvorki, frá einum né neinum aðila, aðrar till., sem bentu á aðrar aðferðir en 5. gr. nú getur um, og var einnig átt víð 2. gr. í frv. dýrtíðarnefndar. Það er að vísu rétt, að það er um sams konar skattaálögur talað í báðum þessum gr., en mikill var þó munurinn, því dýrtíðarnefndin taldi rétt að halda þessari till., sem var í ramma þeim, sem ríkisstj. hafði með höndum áður, en það var engan veginn af því, að ekki kæmu fleiri athuganir til greina og fleiri till. fram í n., sem ekki varð samkomulag um að taka með, heldur geyma þar til kæmi inn í þingið, ef ríkisstj. þóknaðist að leggja þetta þannig fyrir þingið. Því eins og ég hef skýrt frá áður o. fl. hv. þm., þá komu aðrar aðferðir einnig til greina, þar á meðal þessi, sem nú er komin fram brtt. um frá meiri hluta fjhn. Og það er sannast að segja, að ég og aðrir fella sig miklu betur við þá aðferð, sem þar er lagt til að hafa. Það má vel segja, að hún muni ekki gefa eins miklar tekjur og fjárplógsaðferðin, sem lagt er til, að viðhöfð verði samkv. frv. En hins er þá að gæta, að það virðist skjóta nokkuð skökku við, þegar nýbúið er að samþ. skattálög hér á Alþ., að fara þá að semja önnur skattalög, og hins vegar hallar þar nokkuð á, að fullt réttlæti sé. viðhaft, ef á að taka þennan nýja skatt. Annað mál er það, að menn verða auðvitað að sætta sig við slíkt út úr neyð. Það er hins vegar ekki sjáanlegt annað en tekjur nokkrar komi inn með þeim aðferðum, sem trúlega verða nú ofan á í málinu að meira eða minna leyti, einnig er ætlað nokkuð af tekjum ríkissjóðs til þessara ráðstafana. Hér er tiltekið 5 millj., og má vitanlega segja, að það sé álitleg fjárhæð. En nú eru till. komnar frá fjhn, um að hækka tolla á óhófsvörum, og getur slíkt ef til vill gefið allríflegar tekjur, þannig að svo mætti segja, að það skarð yrði vel fyllt, sem myndaðist, ef lagfærður yrði skattur hæstv. viðskmrh., þannig að hæstv. ráðh. mætti vel við una. Ég held, að hæstv. viðskmrh. þurfi ekki að sýta svo mjög yfir því, að tekjuöflun hefði orðið rýr samkv. frv. dýrtíðarnefndarinnar. Honum hefur a. m. k. ekki tekizt að sýna fram á, að svo og svo margar milljónir fleiri muni þurfa til þeirra ráðstafana, sem hann hefur enn ráðgert í þessum efnum. Tilgangur frv. gæti að vísu talizt miklu víðtækari, eins rúmt og óljóst og það er orðað. En þingið getur ekki farið að binda sig við að moka fé landsmanna í einhverja hít, sem enn er ekki tiltekið, hver sé. Sé óvissa um útgjöld, má geta óvissra tekna og nefna Bretabæturnar, sem komu á síðasta ári og eiga eftir að koma enn. (Viðskmrh.: Eiga að koma enn?) Já, það má helzt ekki tala um þetta, en vitað er, að þær komu og eiga eftir að koma, — um fjárhæðir skal ekki rætt, en sjálfsagt er að taka þetta með í reikninginn. eins og annað, jafnt hvernig sem féð er til kosnið. Ég skil ekki, hvernig þær greiðslur gætu að ástæðulausu fallið niður, og þá á að reikna með þeim. Ofan á þær 5 millj., sem ríkissjóður leggur fram, kemur svo hluti af stríðsgróðaskatti. Féð, sem ríkisstj. ræður yfir samkv. þessum till., er því engin óvera, og fyrir gífurlegum, ófyrirséðum áföllum er hvort sem er gagnslaust að gera ráð nú. Enn fremur er hitt, sem ég veik að, að ýmsir tekjuliðir geta farið svo langt fram úr áætlun, að ríkissjóður megi við því á sínum tíma að leggja fram meira fé en ráðgert er. Komi eitthvað mikið fyrir og þurfi fjáröflunar, nægir ekki hin rýmsta heimild, sem nú er rætt um, heldur lægi nær að kalla þingið saman. Þó að Alþ. hafi setið of lengi nú, eða lengur en nokkru sinni áður, — og verð ég að segja, að það er að nokkru leyti ríkisstj. að kenna, hún verður að sætta sig við það —, þá má hún ekki láta um of á því bera, að hún sé hrædd við að fá Alþingi hingað aftur á þessu ári. Ég teldi sjálfsagt, að hún hafi það í huga að kalla saman þing, ef þörf gerist. Þess ber líka að geta, að ekki er nærri ár þangað til reglulegt þing hefst, 15. febr. n. k. Þess vegna ætti ríkisstj. ekki að spenna bogann óþarflega hátt, heldur sætta sig við það samkomulag, sem ég hygg, að meiri hluti þessarar deildar sé einráðinn að fylgja, og tel ég málið þar að ýmsu leyti betur leyst en bæði í till. n. og frv. viðskmrh. Þessar nýju brtt. fjhn. ná ekki til 2 höfuðatriða í till. n., en fela að öðru leyti í sér eins víðtækar ráðstafanir og skynsamlegt er að samþ. að svo stöddu.

Það er slagorð hæstv. viðskmrh., að „þeir einhleypu“ eigi að borga. Með frv. sínu kveðst hann hafa viljað ná til fjölda fólks, sem annars slyppi næstum skattlaust, — það þurfi að leiðrétta nýju skattalögin með því að setja annan tekjuskatt þar ofan á. Þetta held ég sé blandið miklum misskilningi. Að vísu hafa flestir vinnufærir menn, sem ekki hafa föst laun, hagnazt á hinu öra atvinnulífi, fengið bæði hærra kaup að krónutali og samfelldari atvinnu. En þarfir þeirra, sem þurfa að hugsa fyrir fleira en sjálfum sér, hafa vaxið að sama skapi. Og mér hefur alltaf verið það óskiljanlegt, hvaða meginhluti af fólki það væri, sem kalla mætti algera einhleypinga. Það er langt frá, að frv. viðskmrh. fjalli um skatt á einhleypinga sérstaklega. Það vægir engum nema þeim, sem hafa skylduómaga. Ef farið yrði inn á þá braut, — en til þess treysti dýrtíðarnefndin sér ekki, — yrði fjölskyldufrádráttur að verða miklu víðtækari en frv. hans gerir ráð fyrir, og þyrfti að ná til allra ómaga, sem skattgreiðandinn hefur. (Viðskmrh: Vill þá ekki þm. flytja brtt. um það?). Ég vil fyrst vita, hvort hæstv. ráðh. getur ekki fylgt öðrum þm. að málamiðlun og réttlátri lausn á svipuðum grundvelli og hv. þm. Borgf. talaði um. — Ómagar eru ekki aðeins börn á unga aldri; þeir eru sælir, sem þurfa ekki að uppfylla fleiri þarfir en þau hafa þá. Hinir, sem eiga þau hálfvaxin, fá ekki frádrátt vegna þeirra, en kosta oftast miklu meira til og eru hinir eiginlegu fjölskyldumenn: Það er fávíslegt að tala eins og þessir menn væru einhleypir. Auk þess verður að muna, að álitlegur hluti slíkra manna er einmitt á föstum launum og hefur því hlotið einbert tjón, en ekki hagnað við breytingarnar undanfarið. — Þó að skattal. nýju séu gölluð, er þetta ekki umbótin, sem koma skal. Eðlilegast og réttast er að hafa ákvæðin um tekjuskatt á hverjum tíma í einum lögum og undirbúa breyt. þannig, að það orki ekki mjög tvímælis, sem samþ. er. — Þó að við tölum um, að verkamenn hafi haft gott kaup, þarf ekki að gleyma því, að fjöldi af þessu fólki hefur verið atvinnulaus fyrir skömmu eða með mikinn þunga ómaga, ungra og gamalla, og svo margar ófullnægðar þarfir biðu góðærisins, að við vitum ekki, hvað afgangs er nú til að skattleggja.

Af öllum þessum sökum tel ég réttara að vera ekki með neinn útúrboruhátt í því atriði þessa frv., sem óvinsælast verður og ranglátast í framkvæmd.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta mál. Við 1. umr. þykist ég hafa gert meginatriðum þess full skil, þótt ýmsir hv. þm. þættust ekki fremur venju þurfa að hlusta. Um afgreiðslu þessa máls horfði um skeið til hinnar mestu háðungar fyrir þingið, þótt nú verði mikil bragarbót, ef brtt. fjhn. ná samþykki. Ég vil bíða, unz ég sé, hvernig þeim reiðir af, með brtt., sem ég hafði hugsað mér að gera við frv. hæstv. viðskmrh., og get þá geymt þær til 3. umr.