13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Viðskmrh. (Eysteinn Jónson) :

Ég skal ekki vera langorður, en get þó ekki komizt hjá því að segja nokkur orð. Það hafa nú komið fram ólík sjónarmið manna úr hinum ýmsu flokkum hvað snertir 5. gr. frv., sem hefur mikið verið rædd í þessari hv. deild. Ég tók fram í minni ræðu, að menn úr öllum flokkum hefðu léð fylgi sitt þessari tekjuöflunarleið, og hv. þm. Ísaf. veit, að þetta er rétt. Hitt er svo annað mál, að sumir hv. þm. létu þess getið, að þeir vildu aðra leið frekar, en ég endurtek það, að menn úr öllum flokkum hafa fallizt á þessa tekjuöflun, þótt þeir hafi margir runnið, þegar á hólminn kom. Mér finnst það broslegt, að hv. þm. Ísaf. ber svo mikið fyrir sig frv. 6 manna n., en hann vill þó um leið algerlega sverja sig frá því. Hv. þm. gerði nokkra tilraun til þess að láta líta út sem ég hefði sagt rangt frá um það, að ríkisstj. hefði verið búin að ákveða áður að fella niður tolla af nauðsynjavörum, en hækka tolla á munaðarvörum. Hv. þm. gerði meira að segja ítrekaðar tilraunir til þess að láta aðra hv. þm. skilja, að ég hefði farið með rangt mál, og orð hans urðu ekki misskilin. Ég vildi óska eftir því, að hv. þm. spyrði þann ráðherra, sem er í hans flokki og hann trúir bezt, hvort ekki sé rétt, að ríkisstj. hafi látið flytja till. um að fella niður tolla af nauðsynjavörum, en hækka það aftur á hinum vörutegundunum. Mun hann staðfesta það. Ég vi1 því leyfa mér að vísa svigurmælum hv. þm Ísaf. til föðurhúsanna.

Þá sagði hv. þm. Ísaf., að sér líkuðu betur till. 6 manna n. heldur en þær, sem ég hafði borið fram. En hv. þm. veit þó, að um leið og aðalbreytingin, sem hér liggur fyrir tillaga um, er gerð á mínu frv., er breytt veigamestu atriðunum í frv. 6 manna n. Hv. þm. er líka kunnugt um, að frv. mitt, eins og ég bar það fyrst fram, var miklu líkara till. 6 manna n. heldur en frv. verður, ef till. meiri hl. fjhn. verður samþ. Samkv. till. 6 manna n. og b. gr. þessa frv. er verulegra tekna að vænta, en mjög lítilla, ef till. meiri hl. fjhn. verða samþ. Það, sem hv. þm. talaði um, að þyrfti að gera ákvæði frv. fyllri, voru allt smáatriði. Ef hv. þm. á þarna við ákvæði um að lækka tollana, þá vil ég benda honum á, að því atriði þurfti ekki að bæta hér inn í, vegna þess, að það lá fyrir í fjhn. í öðru frv.

Út af fyrirspurnum hv. þm. Ísaf. vil ég segja það, að ég hef beitt mér fyrir þessum málum og komið þeim á framfæri hér á Alþ., af því að ég hef talið það mína skyldu að koma með till. um að halda, uppi verðgildi peninganna. En þar sem þau mál heyra ekki eingöngu undir mitt ráðuneyti, get ég ekki gefið tæmandi yfirlýsingu um, hvernig stjórnin mundi framkvæma þessi lög, en ég býst við, að þó að hún fengi ein- hverja sér til aðstoðar, mundi hún gera endanlega út um framkvæmdir sjálf. Hvað gert yrði, ef ríkisstj. getur ekki komið sér saman um þessi mál, er erfitt fyrir mig að svara, enda býst ég ekki við, að hv. þ.m. ætlist til, að ég geri það. Það fer náttúrlega eftir því, hversu veigamikill ágreiningurinn er. Sé hann veigamikill, er varla nema um tvennt að ræða: slíta stjórnarsamstarfinu eða þá að láta Alþ. skera úr um þau atriði, sem ráðherrar geta ekki komið sér saman um. Viðvíkjandi því, hvort stjórnin muni láta fara fram athugun á þessum málum, nægir að vísa til þeirra brtt., sem fjhn. flytur um sérstaka málsgr. aftan við 1. gr. frv., sem fjallar um þetta efni, enda liggur það í augum uppi, að slíkar athuganir munu fara fram á meðan á framkvæmd laganna stendur.

Ég ætla ekki að svara hv. 5. þm. Reykv., en fyrst ég er staðinn upp, kann ég ekki við annað en mótmæla algerlega því, sem hann sagði um starf verðlagsnefndar. Hann sagði, að lítið gagn hefði verið að starfi n. og afskipti hennar af álagningu á ýmsum matvörum hefði haft þau áhrif, að þær hefðu hækkað stórlega í verði. Þetta er rangt hjá hv. þm. Nefndin hefir þvert á móti haft þau áhrif, að þær hafa hækkað verulega í verði frá því, sem orðið hefði, ef áhrifa nefndarinnar hefði ekki gætt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að svara ræðu hv. þm. V.-Sk. Hann endurtók það, sem ýmsir aðrir aðilar hafa sagt, að minna muni við þurfa í þessum efnum en ég hefði gert ráð fyrir. Ég lít þannig á, að málið megi með engu móti við því, að dregið sé úr tekjuöfluninni, og yfirleitt lít ég alvarlegri augum á það en hv. þm. V.-Sk. og hef fært full rök fyrir. Hann sagði, að þingið væri nú orðið langt og það væri ríkisstj. að kenna. Ef ríkisstj. hefur átt sinn þátt í, hversu þingið hefur nú setið lengi, þá eiga þm. þar sinn þátt einnig, því að það er ekki að svo litlu leyti einmitt vegna þess, að hver höndin er upp á móti annarri meðal þingmanna. (GSv: Er ríkisstj. alltaf sammála?). Nei, hún er ekki alltaf sammála, en hún er þó ekki eins ósammála og hv. þm., eins og sést á því, að hún hafði fallizt á lausn þessa máls í aðalatriðum eins og það var lagt fyrir, en hv. Alþ. er í þann veginn að stórspilla málinu.

Hv. þm. Borgf. talaði um, að það væri mjög leitt, að menn skyldu ekki geta komið sér saman um þetta mál, en orsökin væri sú, að það væri umfangsmikið og viðkvæmt. Má vel vera, að þetta sé rétt hjá hv. þm., en ég vil benda honum á, að það er ekki einstakt, þó að mismunandi skoðanir á stjórnmálum komi fram hjá þeim hv. þingmönnum, sem annars styðja ríkisstj. Ég vil benda honum á í þessu sambandi, að við lausn skattamálsins kom fram sérstaða um mjög veigamikið atriði hjá Alþflm., sem þeir fylgdu fram hér á þinginu, þó að þeir létu þann ágreining ekki verða til þess að rjúfa stjórnarsamstarfið.

Ég sé enga aðra leið en þá, að þingvilji skeri úr, ef ekki er unnt að koma við samningum, og síðan sé það % þeirra, sem standa að samstarfinu, að ákveða það, hvort þeir séu reiðubúnir til að taka áfram þátt í stjórnarsamvinnu. Mér skilst, að örðugast sé fyrir þá, sem eru í minni hluta, að fá svo skorið úr málum gegn vilja sínum. Ef hv. þm. Borgf. óttast „refsiaðgerðir“ í framkvæmd málsins frá minni hálfu í sambandi við þann ágreining, sem hér er orðinn, þá vil ég benda honum á, að enda þótt ég hafi komið þessu máli á framfæri hér, heyrir það ekki nema að litlu leyti í framkvæmd undir það ráðuneyti, sem ég veiti forstöðu.

Út af ósk hv. þm. um að fresta umræðunum, vil ég taka fram, að ríkisstj. hefur einmitt í kvöld rætt með sér, hver þörf væri að flýta þessu máli, og hafði gert áætlun um að ljúka þessari umr. í kvöld, og ég geri hiklaust ráð fyrir, að þeirri áætlun verði fylgt, enda ekki ástæða til annars.