13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (2747)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Jón Pálmason:

Mér hefur fundizt, að sumir þeir hv. þm., sem hér hafa talað, hafi viljað gera meira úr þeim ágreiningi, sem hér er um þessi efni, en rétt er, því að sannleikurinn er sá, að það er í sjálfu sér ekkert nýtt fyrirbrigði fyrir Alþ., þó að ágreiningur sé um það, hvernig skuli leggja á skatta og afla tekna, og í þessu tilfelli er ekki um svo mikið að ræða, þar sem bara er fært til á ýmsan hátt, að það sé gerandi slíkt veður út af þessu, eins og mér virðist hér eiga að gera.

Hv. síðasti ræðumaður, samnm. minn, kvað nú svo sterkt að orði, að hann lýsti því yfir, að ég mundi ætla að greiða atkv. gegn málinu og flytja till. í þessu máli gegn betri vitund. Hvaðan kemur þessum samstarfsmanni mínum réttur til að segja slíkt? Ég held hvergi.

Ég tók það fram í ræðu minni áðan, og ég hef einnig tekið það fram í fjhn., að ég gæti hugsað mér og teldi sanngjarnt að leggja á skatt, svipaðan eða líkan og gert er ráð fyrir í frv., en ég tók það líka fram, að ég teldi eðlilegast, að sá skattur yrði lagður á tekjur ársins 1941, en ekki ársins 1940. Ég tel það mjög óviðfelldið, þar sem komið er fram á mitt ár 1941, að vera þá að bæta við nýjum skatti á tekjur ársins 1944. — En það er enn fullkomið tækifæri til þess á næsta þingi að leggja slíkan aukaskatt á tekjur ársins 1941, og það er algerlega misskilningur hjá hv. síðasta ræðumanni, að það sé ekki gersamlega ólíkt að ákveða aukaskatt í byrjun ársins á tekjur ársins 1941, eins og hægt er að gera, ef þessar ráðstafanir halda áfram, eða að vera að leggja háan, nýjan skatt á miðju ári á tekjur liðins árs.

Að öðru leyti er um þetta að segja, að hv. þm. spurði, hvort ég hefði nokkurn rétt til að segja, að það mundi verða minna ósamlyndi í ríkisstj. og hér á Alþingi með því að afgreiða þetta mál á þann hátt, sem meiri hl. fjhn. leggur til, en ef frv. er samþ. óbreytt, þá veit þessi hv. þm. vel, og við vitum það allir, að það hefði valdið meiri ágreiningi en líkur eru fyrir að þetta komi til með að valda, því að það er fyrir fram víst, að það veldur ekki svo miklum ágreiningi, þó að þetta komist í það horf, sem líkur eru til, að hér verði samþ., að af því stafi það ósamlyndi, sem ætla hefði mátt, að hefði orðið af hinni hliðinni.

Þá skal ég víkja nokkru nánar að þeirri brtt., sem fjhn. flutti viðvíkjandi breytingu á tollunum.

Það er alveg rétt, sem hæstv. viðskmrh. tók fram, að till. um það að lækka og fella niður tolla lá fyrir fjhn. í frv., og er þess vegna ekki ný till., en aðeins færð á milli og sett inn í þetta dýrtíðarráðstafanafrv., en um hitt, að auka tollana á munaðarvörum og innlendum tollvörum, hefur engin till. legið fyrir.

Ég efast ekki um það, að það er rétt hjá hæstv. viðskmrh., að það hefur verið talað um þetta í stjórninni, en það hafa engar till. legið fyrir um þetta, og það hefur verið upplýst hér á þessum fundi, að það hafa verið teknar út úr till. dýrtíðarn. um að hækka þessa tolla. (Viðskmrh.: Það er ekki rétt) Það er rétt, því að ég sá bæði frv., sem þessi dýrtíðarn. lagði fyrir, og í öðru þeirra voru ákvæði um það að hækka tolla á áfengi og tóbaki. Það er þess vegna víst, að hæstv. viðskmrh. hefur ekki sett það inn í frv. sitt. (Viðskmrh.: Vill þá hv. þm. segja, að ég hafi logið því?).

Ég var að segja, að hæstv. ráðh. hefði sagt, að það hefði verið talað um þetta í ríkisstj., en það er allt annað að tala um hlutina en að framkvæma þá.

Ég sýndi fram á það með tölum, að það eru líkur til, að þessi hækkun á tollunum hafi verið 2 til 2¼ millj. kr., en skv. 5. gr. yrðu tekjurnar ekki minni en 400 þús. til 500 þús. kr., en það hefur aldrei verið gert ráð fyrir meiri tekjum skv. frv. en sem svarar 3 millj. kr. Þar að auki skal ég geta þess í þessu sambandi, að þegar þetta frv. var hér til 1. umr., var það í óvissu fyrir okkur, hve mikils væri hægt að vænta af því útflutningsgjaldi, sem gert er ráð fyrir skv. 4. gr. frv., en síðan höfum við fengið upplýsingar frá hæstv. atvmrh., sem gera það að verkum, að það er miklu meiri von um það að fá ríflegri tekjur af þessari heimild en við höfðum ástæðu til að ætla, þegar frv. var til 1. umr., og að það eru minni ástæður til ágreinings út af því, þó að sett verði í 5. gr. breyt., sem meiri hl. fjhn. leggur til hér.

Það var aðallega út af ágreiningnum um till. okkar hv. 3. landsk. þm., sem ég kvaddi mér hljóðs hér, og skal ég fara ofurlítið nánar inn á það mál, í tilefni af fyrri ræðu hæstv. viðskmrh., en ég vil áður víkja að því, sem hv. þm. Ísaf. hafði eftir mér og var ekki rétt eftir haft. Hann segir mig hafa sagt, að það borgaði sig ekki lengur fyrir íslenzka bændur að framleiða vörur fyrir erlendan markað. — Þetta hef ég ekki sagt, en aftur á móti sagði ég, að það væri ekki það hátt verð á íslenzkum landbúnaðarafurðum á erlendum markaði nú sem stendur, að það muni borga sig fyrir þjóðina að selja þær vörur út úr landinu, gegn því að kaupa útlendar vörur í staðinn. Ég álít þess vegna heppilegra fyrir þjóðina að nota sem mest af þessum vörum sjálf, og því sé rétt að gera ráðstafanir til þess, að bændur, sem framleiða þessar vörur, fái framleiðsluverðið, en neytendurnir þyrftu þó ekki að kaupa þær hærra verði en svo, að þeir tækju þær heldur en aðfluttar erlendar vörur.

Hvað snertir þann ágreining, sem kom fram viðvíkjandi till. okkar 3. landsk. þm., þá skal ég segja það, að mér þótti það undarleg yfirlýsing hjá hæstv. viðskmrh., þegar hann sagði, að till. byggðist á þeim grundvallarmisskilningi, að það þyrfti ekkert að gera fyrir bændur í sveitum landsins. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum, að einmitt vegna þess, hvernig okkar fjármálakerfi hefur verið hagað, þá hefur farið svo, að fólkið hefur streymt úr sveitunum og framleiðslan ekki orðið aðnjótandi þess vinnukrafts, sem vera þyrfti.

Það má náttúrlega um það deila, hvort þessu yrði sérstaklega breytt fyrir bændur. Ég tel, að það sé fyrir þjóðarheildina alla, og það er skylda Alþingis að sjá um, að einhverjar ráðstafanir verði gerðar. En hæstv. viðskmrh. lýsti því yfir, að það kæmi ekki til mála að gera aðrar ráðstafanir en bæta upp útfluttar vörur, ef þær seldust óvenjulega lágu verði. Að fenginni þeirri yfirlýsingu hjá hæstv. ráðh., þykir mér vafasamt, hvort fyrsta brtt. fjhn. er ekki frekar til að skemma fyrir en bæta, ef á að framkvæma þetta á þennan hátt.

Þá kom hæstv. ráðh. að því, að hann teldi það ákaflega óeðlilegt, sem felst í þessari till., að leggja það undir dóm Búnaðarfélags Íslands, hvaða verð þurfi að borga til þess að landbúnaðar framleiðsulán dragist ekki saman. Hann taldi það vera hið sama og ef lagt yrði undir Alþýðusamband Íslands, hvaða kaup ætti að borga í landinu. En þetta er ekki sambærilegt, því að hér er um að ræða stofnun, sem hefur á að skipa framleiðslumönnum og á að segja til um það, hvað muni þurfa til að koma í veg fyrir það, að landbúnaðarframleiðslan dragist saman. Og ég vænti þess, að hv. þm., ef þeir hugsa í ró og næði um þetta, muni verða því fylgjandi að koma í veg fyrir, að slík framleiðsla dragist saman, en ef þeir verða það ekki, þá hafa þeir ekki gert sér grein fyrir því, hvað er alþjóðarhagur. Að hér sé um að ræða óvild frá hálfu okkar 3. landsk. þm. og landbn. þessarar deildar, er þess vegna yfirlýsing, sem ég get ekki undir neinum kringumstæðum fallizt á, að eigi við rök að styðjast.

Mitt sjónarmið er það, að þeir, sem vinna að sveitaframleiðslu, eigi að fá svipuð kjör og annað verkafólk í landinu, og því aðeins sé rétt að tala um tilkostnaðarverð vöru, að þeirri kröfu sé fullnægt. Og að rannsaka, hvað til þess þurfi, er atriði, sem ég treysti Búnaðarfélagi Íslands miklu betur til en þeim verðlagsnefndum, sem við höfum haft til að ákveða verðlag á kjöti og mjólk.

Ég sé svo að sinni ekki ástæðu til að orðlengja miklu meira um þetta, ef mér verður ekki gefið frekar tilefni til þess, og ég vænti þess, að það liggi það ljóst fyrir hv. þm., að þeir séu ekki óviðbúnir því að greiða um þetta atkv., en ég vil ítreka það, sem ég vék að áðan í ræðu minni, að þó að Alþingi afgreiði þetta frv. í því formi, sem það liggur fyrir í, þá er mesti vandinn í því, hversu röggsamlega ríkisstj. tekst að framkvæma þær heimildir, sem henni eru veittar með þessu frv., sem hér liggur fyrir, og verður það að mínu áliti styrkur prófsteinn á það, hvort stjórnin er verðug þess trausts, sem henni hefur hingað til verið sýnt.