13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (2750)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Frsm. (Sveinbjörn Högnason) :

Það er ekki margt, sem ég þarf að taka fram vegna þeirra umr., sem orðið hafa, því að í þeim umr. hefur meira verið deilt um orð heldur en um ágreiningsatriði.

Hv. 5. þm. Reykv., sem nú var að ljúka máli sínu, taldi, að ég hefði ekki haft rétt eftir sér úr fyrri ræðu hans um það, að hann harmaði það, hve seint hefði komið fram þetta frv, eða viðleitni frá ríkisstj. í þessa átt. Þetta taldi hann, að hann hefði ekki sagt, heldur hitt, hvað ríkisstj. hefði gert lítið í þessu efni. Hv. þm. sagði, að þetta frv. og þessi viðleitni væri of seint fram komin. En hann sagði nú í síðari ræðu sinni, að þetta frv. væri of gagnslítið. Ég held, að það sé rétt eftir haft. En ef þetta frv. er of gagnslítið að hans dómi, þá ætti hann ekki að ganga í flokk þeirra manna, sem vilja gera það enn gagnsminna, með því að draga úr tekjuöflunarleið þeirri, sem í frv. er gert ráð fyrir. Því að það er skiljanlegur hlutur, að ef seint er á þessu tekið, verður þörfin enn meiri til þess að afla tekna til að geta bætt upp það, sem þegar hefur verið vanrækt. Mér þætti það því eðlilegast, vegna hans heildarafstöðu í þessu máli, að hann bæri fram brtt. í þessu máli til þess að efla frv. og gera meira í þá átt, sem frv. stefnir að, en ekki vinna að því að draga úr frv. Hv. þm. var í sinni ræðu að bera mér það á brýn, að ég berðist fyrir málstað bænda af því, að ég ætlaðist til endurgjalds fyrir það með atkv. En hver er ástæðan hjá hv. 5. þm. Reykv., þegar hann lýsir yfir, að frv. sé svo gagnslítið, en vill þó draga úr því sem hægt er? Það skyldi þó ekki vera í von um atkv., sem hann gerir það? Það eru fleiri af þeim, sem kjósa hv. 5. þm. Reykv., sem vilja losna við skattinn, og það mun vera eitthvað frá hans kjásendum, sem mótar þarna vilja hv. þm., kannske í von um það einhvern tíma seinna að fá í staðinn atkv. eða einhver laun. Eða skyldi það ekki vera svo?

Þá talaði hv. þm. um misskilning hjá mér, að Bretar hefðu með sjóði þeim, sem þeir lögðu til til uppbótar á útflutningsvörum, ætlazt til, að það fé kæmi sérstaklega á landbúnaðarafurðir. Ég veit, að hv. þm. hefur gert sér það ljóst, að þegar þetta fé var lagt fram af Bretum, þá var til þess ætlazt, að því yrði varið til þess að bæta upp markaðstöp, sem orðið hefðu á vörum landbúnaðarins erlendis, eða af því að vörurnar seldust lægra verði fyrir þær ráðstafanir, sem Bretar hafa gert hér á landi. Og þá mun hv. þm. ljóst, að það hefur lent mest á landbúnaðarafurðum, vegna þess að það hefur ekki verið sett hámark á afurðasölu nema á landbúnaðarafurðir. Ég veit ekki til, að það hafi verið sett hámark á aðrar. En Bretar vildu, að sett væri hámarksverð á landbúnaðarvörurnar, til þess að hækka ekki slíkar vörur í Englandi, og vildu heldur bæta upp verðið með þessum sjóði. Það hefur vitanlega verið ætlazt til þess af þeirra hendi, að þetta fé kæmi á þær vörur, sem þeir sömdu um.

Þá vildi hv. þm. lýsa nánar vináttu sinni til verkamanna og sagði, að þeir ættu að fá bætt gömul sár, sem þeir hefðu beðið meðan kreppan var mest. Og sízt skal ég mæla móti því. Það er mjög gott, að þeir fái það. En það eru fjöldamargar aðrar stéttir, sem leiknar voru hart, þegar kreppan var sem mest. Og ég get búizt við, að sumar þær stéttir, sem hafa orðið að taka á sig aukna byrði vegna gengislækkunar fyrir aðrar stéttir, eigi enn óbætta skuld, þar á meðal bændastéttin, sem hefur selt sínar vörur á innlendum markaði. Þegar við afgr. slíkt mál sem þetta, þá er skylt að líta til meira en einnar stéttar. Það verður að líta til allra frá almennu sjónarmiði.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. A.-Húnv. Hann talaði hér í fyrstu ræðu sinni í sínum gamla tón um það, hversu sjálfsagt það væri, að framleiðendur væru styrktir, og bar hv. þm. mikla umhyggju fyrir þeim. En þegar kemur til þess nú að gera ráðstafanir til að halda við gengi krónunnar, er vilji hans minni. Þá verður honum sárara um launastéttirnar heldur en framleiðendur og snýst þá alveg við. Þegar kemur til þess, að leggja skuli skatt á framleiðslustéttina, hefur hv. þm. A.-Húnv. ekkert við það að athuga. En það er öðru máli að gegna með launastéttirnar, hv. þm. finnst of mikið, sem lagt er á þær. T. d. ef einhleypur maður, sem hefur 8 þús. kr. hreinar tekjur, á að borga 205 kr. skatt, sem í raun og veru rennur til hans aftur til þess að lækka verðlagið fyrir hann sjálfan, þá vill hv. þm. A.-Húnv. hlaupa í lið með honum og segja, að þetta sé allt of mikið, hann megi ekki borga meira en 30 kr. Og ef einhleypur maður hefur 20 þúsund kr., þá segjum við, samkv. 5. gr. frv., að hann eigi að greiða 800 kr. til varnar erfiðleikum þeim, sem hér um ræðir. Þá segir hv. þm. A.Húnv. líka, að það sé allt of mikið, hann eigi ekki að greiða í skatt nema 300 kr. Við lítum svo á, að það séu ekki neinar drápsklyfjar, þó að skattur væri lagður á eftir ákvæðum 5. gr. Eftir að skattalöggjöfin var ákveðin fyrir árið 1940, vildi hv. þm. ekki brjóta prinsip með breyt. á henni, þó að hann telji ekki óeðlilegt að bæta við skattgreiðslum á þessu ári. En hann brýtur það sama prinsip með því að koma með brtt., sem hann er flm. að ásamt meiri hl. n., því með slíkum till. vill hann leggja nýjan skatt ofan á skatt, sem lagður var á 1940.

Ég lengi svo ekki mál mitt, en vil vona, að hv. þm. A.-Húnv. haldi sér að sinni fyrri línu í þessu máli og gleymi ekki framleiðendum, að hann reyni að hrinda af sér þessum mikla klökkleika með tilliti til hagsmuna launamanna og gangi með okkur að afgreiðslu frv.