14.06.1941
Neðri deild: 80. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (2757)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Sjálfsagt er ekki ástæða til þess að lengja umr. um málið á þessu síðasta stigi hér í hv. deild, því að efni þess hefur verið rækilega rætt, bæði af mér og öðrum, eftir því sem nú eru tök á. Ég kann þó ekki við annað en gera nokkru frekari grein fyrir afstöðu minni, eins og nú horfir við. Málið hefur tekið allmiklum stakkaskiptum við breyt. þær, sem samþ. voru við 2. umr., og orðið stórum aðgengilegra en frv. það, sem hæstv. viðskmrh. lét leggja fyrir þingið. Áður en gengið verður til atkv., vildi ég fá það fram, svo greinilega sem verða má, hjá ríkisstj., hvernig afstaða hennar er til tveggja atriða málsins. Þess vegna óska . ég, að ráðherrarnir sitji í sætum sínum, — mætti kannske segja: aldrei þessu vant —, og ljái á meðan spurningum mínum eyra.

Eins og kunnugt er, hefur ekki tekizt að koma inn í frv. þeim tveim atriðum, sem dýrtíðarn. svo kallaða lagði að sumu leyti mikla áherzlu á. Fyrra atriðið var í 2. gr. frv. þess, er tillögur hennar geymdi og afhent var ríkisstj., sem sé að heimila hækkun gengisins; hitt var í 3. gr., að úrskurðarvald um verðlagsákvæði lægi hjá ríkisstj. Á síðara atriðið hefur Sjálfstfl. lagt ríka áherzlu, þó að hann óski fyrst og fremst samkomulags allra höfuðaðila um málið í heild. Við teljum ófært, á yfirstandandi vandræðatímum, að ríkisstj. sleppi taumhaldinu á þessum verðlagsákvæðum úr höndum sér og verðlagsn. ráði þeim einar. Okkur hefur verið tjáð, að Framsfl. mundi ekki þola það, að slíkar breyt. yrðu gerðar, hann hefði þá í hótunum um að rjúfa stjórnarsamvinnuna. Málið er vandmeðfarnara fyrir þá skuld. Ekki er þannig að skilja, að stjórnarsamvinnan verði að haldast, hvað sem kostar, eða að ánægja ríki með hana. Þvert á móti er hún ekki annað en malum neccessarium (ill nauðsyn) og fullvíst, að hún hefði ekki haldizt árinu lengur, ekki sízt eftir reynslu þessa árs af henni, ef styrjöldin hefði ekki brotizt út. Það er vandræðaástandið, sem réttlætir vandræðastjórn. Sjálfstfl. hefur ekki verið þannig hugsandi, að hann vildi stofna til þess að slíta sambandinu, nema mjög brýna nauðsyn bæri til. Ég vil ekki telja útilokað, að samkomulag gæti orðið um það, að ákvæðin um verðlagið yrðu nokkru fyllri ag skýrari en nú er og tök ríkisstjórnarinnar á þeim efnum nægilega sterk, hvenær sem hún vill beita þeim. Ef um pólitík er að ræða í þeim málum, ræður Framsfl. mestu, vegna þess að fulltrúar hans í stj. ráða mestu um formenn verðlagsn. Þetta verður að segja, enda þótt auðvitað væri æskilegast og í sjálfu sér nauðsynlegt, að formennirnir væru ekki pólitískt flokkslitaðir. Það hefur komið fram, síðast í ræðu eins ráðherrans, að ráð til að bæta úr því, ef verðlagsn. brýtur í bág við vilja ríkisstj., væri að skipta um formann í nefndinni. Ég óska þess, að ríkisstj. láti í ljós, að hún sé þess albúin að hafa æðsta úrslitavald og ábyrgð þessa máls í sínum höndum og einnig albúin þess að framkvæma þar vilja Alþingis. Vilji Alþingis er vafalaust sá, að ríkisstjórnin hafi í raun og veru æðsta valdið og framfylgi orðum og anda laganna, sem sett kunna að verða, þannig, að allar stéttir og flokkar manna megi sem bezt við una. Ég held, að það minnsta, sem Alþingi getur látið sér nægja, séu skýrar yfirlýsingar ráðherranna um vilja sinn til þess.

Um gengismálið óska ég eftir, að ríkisstjórnin svari því, hvers vegna hún vill ekki sjálf fá heimild í þessum lögum eða öðrum til að breyta genginu, ef það reynist tækilegt. Ég sé ekki ástæðuna til þess að meina Alþingi að heimila ríkisstj. að lagfæra með gengisbreytingu það ástand, sem nú ríkir. Að vísu getur stjórnin gefið út um það bráðabirgðalög, en heimildarleysi af þingsins hálfu getur ekki verið henni neitt mætara en heimildin. Það hlyti að verða ríkisstj. styrkur, að vilji Alþingis lægi fyrir í því máli. Ég sé ekki, að hagsmunir einna eða neinna gætu staðið í vegi fyrir því, að hagsmunum alþjóðar yrði borgið með gengisleiðréttingu, ef fáanleg verður. Það er auðvitað ekki hægt að hækka krónuna og lækka sterlingspundið, nema bankarnir og raunar öll þjóðin fái töluverðan skell. En skellurinn hlýtur að koma, og hann verður því verri fyrir þjóðfélagið sem hann dregst lengur og því verra að grípa inn í þróunina, sem hún er lengra komin í óheilbrigða átt. Allir hljóta að viðurkenna, að athuga þarf, hvort eigi muni betra að taka á því máli fyrr en síðar, og svarið ætti ekki að leika mjög á tveim tungum.